fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Alvarleg falleinkunn á Litla-Hraun – Mögulega heilsuspillandi ómanneskjulegar aðstæður, illa þjálfaðir fangaverðir og skemmdar tennur

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. desember 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út er komin kolsvört skýrsla Ríkisendurskoðunar um aðstæður í fangelsum landsins. Þar eru alvarlegar athugasemdir gerðar við ómanneskjulegar aðstæður á Litla-Hrauni, sem helst ætti að loka, og eins við það að slakað hefur verið á kröfum til menntunar fangavarða, en aðeins rétt rúmlega helmingur þeirra hafi lokið fangavarðanámi í samræmi við reglur sem um starfið gilda.

Íslenskt fullnustukerfi sé ekki rekið með þeirri skilvirkni eða árangri sem áskilin séu í lögum, en helsta orsökin sé skortur á heildarstefnu í fullnustumálum. Fangelsi eru undirmönnuð, í niðurníðslu og takmarkað framboð á afplánunarrýmum hefur valdið því að boðunarlistar lengjast, sem hefur leitt til þess að refsidómar fyrnast áður en þeir eru fullnustaðir.

Öryggismálum sé ábótavant og stöðu kvenfanga verulega ábótavant.

Hvers vegna mega bara lögfræðingar verða Fangelsismálastjórar?

Ríkisendurskoðun gerir alvarlega athugasemdir við það hversu litla þjálfun fangaverðir fá þessa daganna. Undirbúningur og fræðsla nýrra fangavarða sé í skötulíki miðað við þær kröfur sem settar eru fram í reglugerð um menntun fangavarða. Það sé varhugaverð þróun að draga úr gæðum og kröfum fangavarðanáms, en 41 prósent starfandi fangavarða hafa ekki lokið fangavarðanámi. Nauðsynlegt sé að Fangelsismálastofnun geri skýrar áætlanir um sí- og endurmenntun starfsmanna fangelsanna og fylgi þeim eftir með það að markmiði að tryggja starfsemi skólans og menntun fangavarða.

Ríkisendurskoðun gerir einnig athugasemd við þá kröfu að aðeins lögfræðimenntaðir einstaklinga geti fengið skipun sem Fangelsismálastjórar. Það sé ljóst að fagþekking á sviði endurhæfingar og betrunar sé alveg jafn góð til starfsins, eða annars konar leiðtogahæfni.

Uppgjöf náða menn til að stytta lista

Athygli vekur að í skýrslunni segir að samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun sé áætlað að aðeins um helmingur dómþola fullnusti dóm sinn í fangelsi. Ríkisendurskoðun bendir á að stór hluti þeirra sem eru á boðunarlista Fangelsismálastofnunar hafi verið dæmdir fyrir að framvísa fölsuðum vegabréfum. Hafi myndast dómvenja fyrir því hér á landi að dæma slíka einstaklinga í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi og eru þessir aðilar vistaðir í gæsluvarðhaldi til að auðvelda aðgengi yfirvalda að þeim í aðdraganda brottflutnings. Ríkisendurskoðun bendir á að þetta sé ekki í samræmi við önnur sambærileg brot þar sem fólk er dæmt í skilorðsbundið fangelsi í tilviki fyrsta brots. Ríkisendurskoðun rekur að samkvæmt tillögum starfshóps sem falið var að móta tillögur að styttingu boðunarlista megi sjá tillögur sem flestar miði að því að dómar séu afplánaðir með öðrum hætti en fangelsi. Til dæmis taka upp sáttamiðlun án aðkomu dómstóla, víkka út reglur um reynslulausn fyrir minniháttar brot og fjölga skilorðsbundnum dómum og náðunum. Um þetta segir Ríkisendurskoðun:

„Síðastnefnda tillaga starfshópsins vekur athygli en þar má greina ákveðna uppgjöf gagnvart því lögbundna hlutverki fangelsismálayfirvald að fullnusta refsingar. Það getur vart talist boðleg lausn á því vandamáli sem lenging boðunarlista er, að stytta hann með náðun dómþola.“

Ómannúðlegar aðstæður á Litla-Hrauni

Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við aðstæður á Litla-Hrauni og taldi rétt að fangelsinu yrði hreinlega lokað þar til því yrði komið í mannsæmandi horf. Mögulega væri ástand bygginga farið að hafa neikvæð áhrif á heilsu þeirra sem dvelja þar og starfa, en veikindatíðni meðal starfsfólks væri há.

„Ríkisendurskoðun telur stöðu húsnæðismála Fangelsisins Litla-Hrauns grafalvarlega. Tryggja þarf föngum og starfsfólki í Fangelsinu Litla-Hrauni mannsæmandi aðstöðu sem samræmist sjónarmiðum um öryggi og almenna heilsuvernd. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi við núverandi ástand. Ríkisendurskoðun geldur varhug við því að starfsemi fangelsisins haldi áfram við óbreyttar aðstæður þar til ný bygging hefur verið tekin ´notkun.“

Kvíabryggja óboðleg starfsfólki

Eins voru gerðar athugasemdir við aðstæður á Kvíabryggju, þó þar hafi helst verið gagnrýnt að þar vantar aðstöðu fyrir starfsmenn.

„Byggingar Fangelsisins Kvíabryggju eru allar komnar nokkuð til ára sinna og er uppsöfnuð viðhaldsþörf mikil. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar sem fóru þangað í vettvangsheimsókn sáu þess skýr merki. Gluggar eru illa farnir og þörf á að skipta þeim út. Þá getur starfsmannaaðstaða ekki talist boðleg en um lítið rými er að ræða sem þjónar í senn því hlutverki að vera vaktherbergi og fundaraðstoða auka þess sem fangar sækja þangað til að eiga samskipti við starfsfólk. Vinnueftirlitið hefur gert athugasemdir um ófullnægjandi starfsmannaaðstöðu en Fangelsið Kvíabryggja er t.d. eina fangelsið sem ekki hefur sérstaka kaffistofu fyrir starfsfólk. Ríkisendurskoðun brýnir fyrir Fangelsismálastofnun að tryggja góðan aðbúnað starfsfólks lögum samkvæmt.“

Í svörum til Ríkisendurskoðunar tilkynntu yfirvöld að til standi að ráðast í nauðsynlegt viðhald svo halda megi Litla-Hrauni opnu. Eins standi til að byggja nýtt fangelsi, en þær áætlanir séu enn á byrjunarstigi.

Ríkisendurskoðun gerir eins athugasemd við vinnustaðamenningu innan fangelsanna. Fangelsismálastofnun hafi hafnað í lægsta fjórðungi þátttakenda í skoðanakönnun Sameykis um stofnun ársins sem gerðar voru fyrir árin 2018-2022. Fjögur ár séu liðin síðan mannauðsstjóri var ráðinn til Fangelsismálastofnunar, engin mannauðsstefna hafi litið dagsins ljós á þeim tíma og framkvæmd starfsmannaviðtala hafi verið brokkgeng. Fangaverðir eru undir miklu álagi og útsettir fyrir streitu og álagstengdum veikindum. Það sé miður að Fangelsismálastofnun hafi ekki nýtt starfsmannasamtöl til að taka betur púlsinn á starfsmönnum. Stofnanasamningur Fangelsismálastofnunar og Félags fangavarða hafi ekki verið endurnýjaður frá 2017.

Heilbrigðis- og menntamálum ábótavant

Hvað varðar menntamál segir Ríkisendurskoðun að skýrt ákall sé frá bæði föngum og fagaðilum að auka framboð og fjölbreytileika þess náms sem föngum stendur tl boða. Það þurfi að veita meiri möguleika á verknámi og íslenskukennslu fyrir fanga af erlendum uppruna. Ríkisendurskoðun tók fram að mikilvægi menntunar væri töluvert hvað endurhæfingu fanga varðar. Það sé því brýt fyrir fangelsismálayfirvöld, dómsmálaráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti að marka skýra stefnu um menntun fanga samhliða aðgerðaráætlun um að auka möguleika.

Fangelsismálastofnun hafi gagnrýnt að það sé undir fangavörðum komið að halda utan um lyfjagjöf til fanga, sem sé umtalsverð. Eðlilegra væri að þetta verk væri í höndum heilbrigðisstarfsfólks. Það hafi gerst nokkrum sinnum á ári að fangi fái röng lyf, sem hefur reynst fangavörðum þungbært. Ríkisendurskoðun telur ríka ástæðu fyrir fangelsis- og heilbrigðisyfirvöld að kanna hvernig hægt sé að tryggja örugga lyfjagjöf.

Ríkisendurskoðun rekur að almennt sé mikil og aðkallandi þörf á skilvirkri geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Nýlega hafi verið stofnað geðheilsuteymi fangelsa sem er vel. Þó hefur gengið illa að manna teymið, sem glímir við viðvarandi manneklu. Mikillar tregðu h afi gætt af hálfu geðdeildar Landspítala að samþykkja innlögn fanga og jafnvel gerð sú krafa að fangaverðir fylgi með við innlögn. Fangelsismálastofnun hafi bent á að í tilvikum þar sem fangi þarf að leggjast inn á geðdeild þá er um mjög veikan einstaklinga að ræða sem eigi sjálfsagðan rétt á heilbrigðisþjónustu, því væri forkastanlegt að geðdeild vísi þeim á dyr.

Árið 2022 sendi umboðsmaður Alþingi erindi á Fangelsismálastofnun vegna kvörtunar fanga sem taldi rétt sinn virtan að vettugi hvað varðaði tannlæknaþjónustu. Í svari Fangelsismálastofnunnar til umboðsmanns sagði m.a.

„Ljóst er að tannlæknamál eru ekki í nægilega góðum farvegi í fangelsum landsins. Tannheilsa fanga er almennt mjög slæm og margir sem þurfa á einhvers konar tannlæknaþjónustu að halda.“

Fangelsismálastofnun vísaði til þess að tannheilsa væri á málefnasviði heilbrigðisráðuneytis, en Ríkisendurskoðun tók fram að engu að síður þurfi að tryggja aðgengi fanga að tannlæknaþjónustu og þurfi heilbrigðisyfirvöld og Fangelsismálastofnun að eiga samtal sín á milli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi
Fréttir
Í gær

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“
Fréttir
Í gær

KAPP og Loðnuvinnslan skrifa undir viljayfirlýsingu um nýja uppsjávarvinnslu 

KAPP og Loðnuvinnslan skrifa undir viljayfirlýsingu um nýja uppsjávarvinnslu 
Fréttir
Í gær

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni
Fréttir
Í gær

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína
Fréttir
Í gær

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“