Þremur systkinum var neitað um skólavist í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum, en um er að ræða sjálfstætt rekinn grunnskóla. Foreldri barnanna ákvað að unna ekki ákvörðuninni og kærði hana til mennta- og barnamálaráðuneytis sem svo felldi hana úr gildi með úrskurði sem kveðinn var upp í mars á þessu ári, en úrskurðurinn var birtur opinberlega í vikunni.
Kemur fram í úrskurði að synjun skólans á umsókn barnanna hafi byggt á atvikaskráningu tiltekinni úrvinnslu. Hafi það verið mat skólans að með komu foreldrisins inn í skólastarfið gæti það haft áhrif á innra starf leikskólans og grunnskólans, en foreldrið hafði áður starfað hjá menntastofnun sem rekin er í nánu samstarfi við Waldorfskóla. Taldi skólastjóri Waldorfskóla ekki ekki væri fyrir hendi þau traust milli aðila sem þurfi tl að tryggja farsælt samstarf foreldra og umsjónarkennara. Því gæti það ekki þjónað hagsmunum systkinanna þriggja að stunda skóla í Lækjarbotnum og eins gæti það ekki þjónað starfsmönnum skólans eða foreldrum barnanna.
Var foreldrinu bent á að hægt væri að leita til fræðslusviðs Kópavogsbæjar ef foreldrið væri ósátt. Kópavogsbær tók þó fram að Waldorfsskóli væri einkarekinn og heyrði því ekki beint undir sveitarfélagið. Kópavogsbær hefði því hvorki boðvald yfir skólanum né stjórn um innritun.
Þar sem samkvæmt lögum um grunnskóla er hægt að kæra ákvörðun um synjun á umsókn um skólavist til mennta- og barnamálaráðuneytis. Ráðuneytið rakti að innritun í einkarekna grunnskóla sé háð frjálsu vali foreldra, en sveitarfélagi beri þó að gera þjónustusamning sem m.a. skuli fjalla um innritun. Sveitarfélagið tæki þannig ábyrgð á því að tryggja að innritun nemenda væri í samræmi við almennar reglur. Ráðuneytið rakti að Waldorfskóli sæi samkvæmt þjónustusamningi um innritun og hefði til þess sett sér tilteknar reglur. Aftur á móti væri ekki að sjá að skólinn hefði virt þær reglur þegar systkinunum þremur var synjað um skólavist. Því hafi skólinn ekki farið eftir lögum.
Kópavogsbær hafi í svörum sínum til ráðuneytisins vísað til þess að skólinn sé einkarekinn og því hafi bærinn enga heimild til að bregðast við kvörtun foreldrisins í málinu. Benti ráðuneytið á að með þjónustusamningi við Waldorfskóla hefði Kópavogsbær verið skuldbundinn til að hafa eftirlit með starfsemi skólans, og þar með hvort farið sé af reglum við innritun. Kópavogsbær hafi ekki uppfyllt eftirlitsskyldu sínar í þessu máli og benti ráðuneytið Kópavogi á að hafa eftirlitshlutverk sitt í huga framvegis þegar upp kma mál er varða einkarekna skóla með þjónustusamningi við sveitarfélagið.
Ákvörðun Waldorfskóla var því felld úr gildi og þarf skólinn að taka umsókn barnanna fyrir að nýju, að þessu sinni í samræmi við sínar eigin innritunarreglur.