Verkefni lögreglunnar eru margvísleg, en í gærkvöldi var lögregla kölluð út í Setbergið í Hafnarfirði eftir að húsráðendum í ónefndu húsi varð brugðið er eitthvað skall á gluggann hjá þeim með tilheyrandi hávaða.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá útkallinu í færslu á Facebook.
„Útköll lögreglunnar eru margvíslega og hún þarf sannarlega að vera viðbúin öllu. Dæmi um þetta er verkefni við ónefnt hús í Setberginu í Hafnarfirði í gærkvöld, en þar var húsráðendum brugðið þegar eitthvað skall á gluggann hjá þeim með tilheyrandi hávaða. Þegar betur var að gáð reyndist þar vera á ferðinni skarfur, ekki leiðindaskarfur heldur líkast til dílaskarfur. Sá var vankaður eftir höggið og heldur illgjarn þegar átti að huga að líðan hans. Lögreglan var þá kölluð til og mætti hún á vettvang, en í ljósi málsatvika, og ekki síður um tilkynntan málsaðila, var enn fremur ákveðið að kalla til okkar helsta sérfræðing í þessum málaflokki – nefnilega Guðmund Fylkisson aðalvarðstjóra. Hann kom á staðinn, var fljótur að fanga fuglinn og fór síðan með hann og sleppti í náttúrulegri heimkynnum hans við sjávarsíðuna. Síðast þegar við vissum braggaðist skarfurinn vel og virðist ekki hafa orðið meint af „árekstrinum“.“
Guðmundur Fylkisson, fyrir þá sem ekki vita, ólst upp við æðarfugl, er mikill dýravinur og fékk leyfi frá Hafnarfjarðarbæ til að taka að sér varpstaðina við Lækinn í Hafnarfirði fyrir áratug síðan til að stuðla að því að fleiri ungar kæmust á legg. Hann vakti athygli í febrúar á þessu ári þegar hann hugaði að fuglunum á Læknum í frosthörkunum, en hann kom allt að þrisvar sinum á dag til að gefa þeim í gogginn. Fyrir vikið fékk hann viðurkenningu frá Hafnarfirði, sem og fyrir fjölda mynda sem Guðmundur hefur tekið af bænum.
Sjá einnig: „Ég er bara að reyna að bæta samfélagið í kringum mig“
Að sjálfsögðu birti lögreglan mynd af vettvangi í gær þar sem sjá má Guðmund og skarfinn.
Athugið að fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega stóð að Guðmundur hafi gert sér ferð til að gefa fuglunum að borða, en athugasemd barst frá lesanda um að dýr éti, en borði ekki. Blaðamaður tekur ekki afstöðu til þess hvort dýr geti borðað eða ekki, en tók hins vegar eftir ónýttu tækifæri til að segja Guðmund hafa gefið fuglunum í gogginn.