Íslenski skátahópurinn sem er á alheimsmóti skáta í Suður-Kóreu mun yfirgefa svæðið í kvöld vegna fellibylsins Khanun sem stefnir beint á mótssvæðið. Mikil hitabylgja hefur verið á svæðinu.
Í tilkynningu frá Hörpu Ósk Valgeirsdóttur segir:
„Ákveðið hefur verið að rýma mótsvæðið í suður Kóreu á hádegi á morgun að kóreskum tíma. Þessar fréttir bárust fararstjórn hópsins í nótt. Þessi skyndilega breyting á mótshaldinu kemur til vegna breytinga á stefnu fellibyls sem hefur leikið Japan grátt undanfarna daga, en nú stefnir hann beint á mótssvæðið. Áætlað er að veðrið skelli á seinnipart fimmtudags og þarf þá að vera búið að fjarlægja allt lauslegt af svæðinu.“
Segir í tilkynningunni að íslenski hópurinn taki fréttunum af fellibylnum af yfirvegun. Þá segir ennfremur:
„Íslenska fararstjórnin með aðstoð frá Bandalagi íslenskra skáta hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seoul frá því að tvísýnt var hvort hægt var að klára mótið á Jamboree svæðinu. Þau herbergi koma nú að góðum notum. Það var því auðvelt að fá rútur til þess að sækja hópinn og koma honum á áfangastað sem er sama heimavist og hópurinn gisti sína fyrstu daga á eftir komuna til Seoul.“
Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu, segir einnig í tilkynningunnni.