fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ þiggja ekki launahækkun – „Þarf að þora að taka svona ákvarðanir“

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 2. júní 2023 15:05

Ráðhús Reykjanesbæjar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar tekin fyrir tillaga um laun bæjarfulltrúa.

Segir í fundargerð á heimasíðu sveitarfélagsins að laun bæjarfulltrúa ættu að hækka í samræmi við væntanlega hækkun þingfararkaups, sem er grunnlaun alþingismanna og er í dag 1.345.582 krónur, í júlí næstkomandi.

Eins og í fleiri sveitarfélögum eru laun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar ákveðið hlutfall af þingfararkaupi. Hafa ber í huga að um er að ræða hlutastörf.

Í samtali við DV segir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og formaður bæjarráðs, að stöðluð laun bæjarfulltrúa sem á sæti í bæjarstjórn sé um fjórðungur af þingfararkaupi. Greitt er aukalega fyrir setu í nefndum og ráðum og bæjarfulltrúar fá greitt sérstaklega fyrir setu á fundum bæjarstjórnar og þeim ráðum og nefndum sem þeir eiga sæti í. Bæjarfulltrúar fá ekki veikindaleyfi eða sumarfrí og séu þeir forfallaðir á reglulegum fundum fá þeir ekki greitt fyrir viðkomandi fund.

Hlutfall launa bæjarfulltrúa hjá Reykjanesbæ, sem og hjá fleiri sveitarfélögum sem hafa sams konar reglur um kaup og kjör bæjarfulltrúa, af þingfararkaupi er misjafnt eftir því hvaða skyldum viðkomandi bæjarfulltrúi gegnir. Til dæmis er hlutfallið hærra ef um er að ræða forseta bæjarstjórnar eða formann bæjarráðs.

Friðjón lagði fram tillöguna á fundi bæjarráðs í gær um að fallið yrði frá fyrirhuguðum launahækkunum samfara hækkun þingfararkaups. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Í bæjarráði Reykjanesbæjar eiga sæti bæjarfulltrúar úr Samfylkingunni, Framsóknarflokknum, Beinni leið og Sjálfstæðisflokknum. Þrír fyrstnefndu flokkarnir mynda meirihluta í bæjarstjórn sveitarfélagsins. Að auki á flokkurinn Umbót áheyrnarfulltrúa í bæjarráði.

Tillagan ásamt öðrum liðum í fundargerð bæjarráðs verður lögð fyrir næsta fund bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem fer fram 6. júní næstkomandi. Fundargerðir bæjarráðs eru nánast alltaf samþykktar óbreyttar í bæjarstjórn. Þar af leiðandi er afar líklegt að þessi tillaga hljóti endanlegt samþykki og að laun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar muni ekki hækka til samræmis við væntanlega hækkun launa alþingismanna.

Segir samþykktina eðlilega í núverandi ástandi

Í samtali við DV var Friðjón spurður að því hvers vegna hann hefði lagt tillöguna fram. Hann sagðist hafa fengið samþykktar tillögur í bæjarráði um að fallið yrði frá launahækkun bæjarfulltrúa þrívegis áður en Friðjón hefur verið formaður bæjarráðs frá 2014. Í fyrri skiptin voru tillögurnar lagðar fram vegna bágrar fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar.

Fjárhagsstaða bæjarins hefur batnað til muna og Friðjón segir að í þetta sinn hafi tillagan verið lögð fram í ljósi núverandi stöðu í íslensku samfélagi. Friðjón segir launamun almennt orðinn of mikinn á Íslandi. Hann segist einnig telja að það hefði hvorki verið eðlilegt né siðferðislega rétt að hækka laun bæjarfulltrúa á meðan sveitarfélög landsins hafi ekki samið við BSRB vegna yfirstandandi verkfalls. Því hafi allir fulltrúar í bæjarráði Reykjanesbæjar verið sammála.

Friðjón var spurður að því hvort hann teldi að Alþingi og önnur sveitarfélög sem miðuðu laun kjörinna fulltrúa við þingfararkaup ættu að fylgja því fordæmi sem bæjarráð Reykjanesbæjar hefur nú sett og hætta við fyrirhugaðar launahækkanir. Hann minnti fyrst á að laun alþingismanna væru misjöfn en hann teldi þó að við núverandi aðstæður í íslensku samfélagi ættu þingmenn að afsala sér hinni fyrirhuguðu launahækkun.

Friðjón sagði einnig að sérstaklega sveitarfélög sem miðuðu laun kjörinna fulltrúa við þingfararkaup og ættu nú um stundir í fjárhagslegum erfiðleikum ættu að fara að fordæmi Reykjanesbæjar. Það yrði að tryggja sátt í samfélaginu. Kjörnir fulltrúar í landinu væru opinberar persónur og yrðu að axla ábyrgð.

„Það þarf að þora að taka svona ákvarðanir,“ sagði Friðjón Einarsson að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“