fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Steina segist hafa gert allt sem hún gat til að bjarga lífi sjúklingsins

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. maí 2023 16:13

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steina Árnadóttir, 62 ára gamall hjúkrunarfræðingur sem ákærð er fyrir manndráp, bar vitni í aðalmeðferð sakamáls gegn henni, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Ákæran var gefin út í nóvember í fyrra. Steina er þar sögð hafa svipt sjúkling lífi, konu á sextugsaldri, með því að þröngva ofan í hana innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk, hafi hún hellt drykknum upp í munn sjúklingsins, á meðan henni var haldið niðri að fyrirskipun Steinu, þrátt fyrir að konan gæfi til kynna að hún vildi ekki drykkinn. Þetta hafði þær afleiðingar að drykkurinn hafnaði í  loftvegi konunnar, sem hindraði loftflæði um lungum og olli öndunarbilun svo konan kafnaði.

Héraðssaksóknari krefst þess að Steina verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd látnu konunnar er krafist miskabóta upp á 15 milljónir króna.

RÚV greinir frá vitnaleiðslunum. Steina greindi frá því að sjúklingurinn sem lést hefði verið alvarlega veikur. Sagði hún mjög ákveðið að enginn bráðveikur sjúklingur ætti að vera á móttökudeild. Hin alvarlegu veikindi hefðu sett strik í reikninginn hjá vaktinni því sjúklingurinn hefði þurft á yfirsetu að halda sem þýddi að ef viðkomandi væri á fótum þyrfti að fylgja honum eftir í hverju skrefi. Sagðist Steina hafa upplýst aðra starfsmenn á vaktinni um að það væru skýr fyrirmæli lækna um að sjúklingurinn væri á fljótandi fæði.

Steina lýsir því að hún hafi reynt að tala við sjúklinginn sem ekki gat svarað með öðru en umli. Hefði hún bankað í bak sjúklingsins og upp úr konunni kom þá blómkál og kjötbiti. Virtist henni sem losa þyrfti um andnauð og hefði hún ákveðið að gefa konunni næringardrykk þar sem hún hefði talið að eitthvað af matnum væri eftir í vélindanu. Ef hún hefði ekki talið það þá hefði hún aldrei gefið henni að drekka. Hún sagðist hafa beðið um stuðning við líkama komunanr þar sem hún var ekki stöðug og hefði konan ekki reynt að bægja neinu frá sér. Hafi hún sett aðra höndina undir vangann á henni og beðið hana um að reyna að drekka. Eftir þetta hefði drykkurinn farið að renna út úr munninum og sjúklingurinn farið að æla meira.

„Steina sagðist aldrei hafa yfirgefið herbergi sjúklingsins. Vakthafandi læknir hefði verið fljótur að koma á vettvang þegar henni fannst sjúklingurinn vera að missa meðvitund. Þegar þau hefðu lagt sjúklinginn niður hefði það verið hennar fyrsta hugsun að klæða hann úr fötunum þannig að það væri betra fyrir þau að athafna sig við endurlífgun,“ segir í frétt RÚV.

Steina segist hafa komið inn í herbergið til konunnar til að reyna að bjarga lífi hennar og hún hafi gert allt sem hún gat til þess. Hún hafi sagt satt allt frá byrjun og hafi hugsað um þetta atvik á hverjum degi. Það hefði ekki verið hún sem gaf sjúklingnum að borða og braut þar með fyrirmæli um matagjöf, en sjúklingurinn átti að vera á fljótandi fæði.

Hún álasar samstarfskonum sínum fyrir að hafa yfirgefið herbergið á meðan þessu stóð. Hún sagðist ekki skilja hvernig hægt væri að fara frá starfsmanni sem væri að reyna að bjarga mannslífi. Segir hún málið hafa fengið mikið á sig, hún væri öryrki og óvinnufær eftir þetta áfall.

Steina harðneitar því að hafa hellt drykknum upp í sjúklinginn. Ennfremur kannast hún ekki við lýsingar samstarfskonu sinnar um að hún hefði aldrei spurt sjúklinginn um hvernig henni liði og að sjúklingurinn hefði tjáð sig og drykkur hefði verið neyddur niður í hana. Steina neitar þessu og gefur allt aðra mynd af atvikum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt