Fræðilega séð er hægt að beita dauðarefsingu í Rússlandi en dauðadómar hafa ekki verið kveðnir upp þar síðan í byrjun ágúst 1996 og það sama gildir um aftökur. En allt frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hefur verið vaxandi pólitískur vilji meðal áberandi stjórnmálaleiðtoga og hluta almennings um að taka dauðarefsingar upp á nýjan leik.
Dmitri Medvedev, sem leysti Vladímír Pútín af á forsetastól í eitt kjörtímabil, hefur verið ötull talsmaður þess að dauðarefsingar verði teknar upp á nýjan leik. Yury Sinelschikov, varaformaður dómsmálanefndar þingsins, hefur einnig verið talsmaður þess að dauðarefsingum verði beitt á nýjan leik, það eina sem þurfi til sé pólitískur vilji.
Brottflutningur um 1000 úkraínskra hermanna frá Azovstalstálsmiðjunni í Maríupól hefur kynt enn frekar undir þessari umræðu. Stjórnmálamenn og bloggarar hafa krafist þess að hermennirnir verði dæmdir í fangelsi eða jafnvel til dauða.