fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Nærmynd af Michele Ballarin: Svakalegur ferill skoðaður – Frá Al Qaeda-njósnum til WOW

Jón Þór Stefánsson
Sunnudaginn 20. júní 2021 21:45

Michelle Ballarin. Mynd/Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Michele er alvöru. Michele er kraftmikill einstaklingur. Hún hefur sterka sýn og er svo sannarlega með stóra drauma. Ég hef fulla trúa á bæði því sem hún segir og því sem hún gerir. Annars myndi ég ekki vinna fyrir hana.“

Svona lýsti Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW Air, samstarfskonu sinni, Michele Ballarin, sem nú gengur undir nafinu Michele Roosevelt Edw­ards, í viðtali við Kveik í byrjun árs. Ljóst er að ekki eru allir á sama máli og Páll, en skiptar skoðanir eru um athafnakonuna. Til að mynda lýsti Geoff Whiting, fyrrverandi samstarfsmaður Ballarin og foringi í leyniþjónustu bandaríska sjóhersins, henni á þennan veg í samtali við The Washington Post:

„Vandamálið við Michele er að skera úr um hvað sé sannleikur og hvað sé skáldskapur. Hvað er raunverulegt og hvað er tilbúningur?“

Íslendingar þekkja hana eflaust hvað best sem konuna sem keypti úr þrotabúi WOW og hugðist endurreisa félagið, en hún á sér litríka sögu að baki. Síðast í gær fjallaði The Washington Post um hana, en hún var staðin að lygum um að eiga risastórt höfðingjasetur í Virginíufylki í viðtali við Kveik. Einnig tengist hún samsæriskenningunni „Italygate“, sem er lygileg frásögn um kosningasvindl í síðustu Bandaríkjakosningum. Á hún að hafa komið samsæriskenningunni á framfæri.

Ung í framboð

Saga hennar hefst þó talsvert fyrr, en The Washington Post hefur fjallað ítarlega um líf hennar. Michele er frá Norður-Virginíu. Hún eignaðist sitt fyrsta barn 26 ára með þáverandi eiginmanni sínum Edward Golden, sem var 61 árs gamall efnaður fasteignasali. Fyrstu ár hjónabandsins var Michele heimavinnandi, en árið 1986 sneri hún sér að pólitík. Hún var virk í Replúblikanaflokknum og varð frambjóðandi flokksins til fulltrúadeildarinnar, en tapaði kosningunum fyrir frambjóðenda demókrata.

Á miðjum tíunda áratug síðustu aldar varð úti um hjónaband Michele. Um tíma þurfti hún að berjast í bökkum sem einstæð móðir, en ekki leið á löngu þar til hún kynntist Gino Ballarin, yfirþjóni á fínum veitingastað í New York. Aftur var eiginmaðurinn talsvert eldri en hún, en frá honum fékk hún Ballarin-nafnið sem flestir tengja við hana. Þá byrjaði hún að starfa sem fjárfestir og virðist hafa gengið ansi vel í þeim bransa, en í lok áratugarins var hún viðskiptakona með gott orðspor.

Misheppnaður málamiðlari sjóræningja

Eflaust er Michele þekktust á heimsvísu fyrir tengsl sín við Sómalíu, en þar hefur hún hlotið nafnbótina „Amira“, sem þýðir prinsessa. Eitt einkennilegasta verkefni sem hún hefur tekið að sér var þegar hún blandaðist í deilur sjóræningja og úkraínskra stjórnvalda.

Árið 2008 tóku sómalískir sjóræningjar yfir úkraínskt flutningaskip með miklum vopnabirgðum og héldu áhöfninni í gíslingu. Þeir kröfðust margra milljóna dollara í lausnargjald. Einhverra hluta vegna varð Michele Ballarin málamiðlari en hún á að hafa reynt að auðvelda samskipti á milli sjóræningjanna og úkraínskra stjórnvalda.

Ekki voru þó allir sáttir með störf hennar þar, en líkt og WikiLeaks greindi frá, þá skrifaði þáverandi utanríkisráðherra Úkraínu, Volodymyr Ohryzko, kvörtunarbréf til þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, vegna Michele Ballarin. Hann bað Clinton um að útiloka hana frá samningaviðræðunum, þar sem hún hefði stuðlað að því að kröfur sjóræningjanna hækkuðu mjög mikið.

Rétti fram hjálparhönd gegn Al-Qaeda

Það var ekki í fyrsta skipti sem hún tengdist utanríkismálum Bandaríkjanna, en árið áður hafði hún rétt fram hjálparhönd í baráttunni við hryðjuverkasamtökin Al-Qaeda. Hún sendi óumbeðið bréf til CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna. Þar hélt hún því fram að sambönd sín í Sómalíu og öðrum Afríkuríkjum gætu nýst vel gegn Al-Qaeda.

Boði hennar var hafnað kurteisislega af CIA sem sagðist ekki hafa áhuga á hjálpinni. Þá var skýrt tekið fram að hún mætti í engum kringumstæðum taka málin í eigin hendur eða starfa í umboði leyniþjónustunnar.

Í kjölfarið sneri hún sér að bandaríska hernum og átti fund með embættismönnum í Pentagon. Hún stakk upp á því að hefja góðgerðarstarfsemi í Sómalíu, sem þó hefði njósnir að markmiði sínu. Viðföngin áttu að vera einstaklingarnir sem nýttu þjónustuna. Verkefnið var samþykkt til að byrja með, en fór þó aldrei í loftið

WOW og fiskflutningarnir

Um það bil hálfu ári eftir fall Wow, eða í september 2019, boðaði Michele Ballarin til blaðamannafundar þar sem hún tilkynnti áætlun um endurreisn flugfélagsins. Áætlunarflug átti að hefjast mánuði síðar, en það hefur enn ekki hafist. Þó hefur mikið farið fyrir Ballarin og Wow í fjölmiðlum.

Mörg áform Ballarin hafa vakið sérstaka athygli, þar má til að mynda nefna fyrirhugaða fiskflutninga Wow. Hún talaði um að byrja fragtflug á undan farþegaflugi og ætlaði að flytja fisk og annan varning til Bandaríkjanna. Mörgum fannst eitthvað skrýtið við þessi áform og drógu þau í efa, þar á meðal var Karen Kjartansdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, en hún skrifaði kaldhæðnislega á Facebook:

„Já, hafa Íslendingar flutt þorskhausa á austurströnd Bandaríkjanna? Íbúar New York og Boston alveg sólgnir í þá? og hvers vegna að flytja þá með flugi? Allt mjög trúverðugt við þessi áform.“

Að lokum er þó vert að minnast á heimsókn hennar hingað til lands í september á síðasta ári, sem vakti mikla athygli. Hún ætlaði sér að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Tilboð Michele var það hæsta, en það var jafn framt eina tilboðið sem var hafnað. Ekki nóg með það, heldur braut hún líka gildandi sóttvarnareglur í ferð sinni, en líkt og Vísir greindi frá hún taldi sig hafa undanþágu frá reglunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala