Dæmi eru um að skólastjórar hafi þurft að fara inn í skólastofur og sækja börn vegna staðfestra Covid smita. Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Magnús Þór Jónsson skólastjóra og nýkjörinn formann Kennarasambands Íslands.
Hefur Fréttablaðið eftir Magnúsi að skólastjórar sitji uppi með það að þurfa að taka stjórnvaldsákvarðanir sem foreldrar séu jafnvel ósáttir við. „Ég veit um ótal dæmi um það að foreldrar eru ekki sammála mati skólastjóra á smitrakningu og það er auðvitað eitthvað sem er ótækt í rauninni, varðandi samskipti heimilis og skóla,“ hafði Fréttablaðið eftir Magnúsi í morgun.
Magnús segir jafnframt að borið hafi á því að misvísandi skilaboð hafi komið frá sóttvarnaryfirvöldum sem hafi sett skólastjórnendur í erfiða stöðu. Nefnir hann dæmi um að einhverjum hafi verið sagt að börn mættu mæta í skólann á meðan beðið væri eftir niðurstöðu hraðprófs.
Þá hafði Fréttablaðið eftir Bjarna Má Magnússyni, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, í morgun að engar heimildir væru að finna í lögum fyrir framsali á valdi til stjórnvaldsákvarðanatöku líkt og að ofan er lýst. Viðtalið við Bjarna má sjá hér.
Sjá nánar á frettabladid.is.