Þau tímamót urðu í dag að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, varð þaulsætnasti formaður flokksins en hann hefur setið í formannsstólnum síðan 31. október 2016 eða í alls 1843 daga. Með því sló hann met Össurar Skarphéðinssonar, fyrsta formanns flokksins, sem hélt stólnum í 1842 daga á árunum 2000 – 2005.
Þetta kom fram í líflegum umræðum á Facebook-síðunni Óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar sem sannarlega ber ekki alltaf nafn með rentu.
Logi var varaformaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum þann 29. október 2016. Flokkurinn beið afhroð í þeim kosningum og komust aðeins Logi og tveir aðrir frambjóðendur inn á þing. Líklega hefði flokkurinn þurrkast út ef ekki hefði verið fyrir Loga sem vakti athygli í kosningabaráttuni. Í kjölfarið sagði formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir af sér og Logi tók við forystunni þann 31. október.
Í Alþingiskosningunum ári síðar rofaði strax til og Logi leiddi flokkinn í 12,1% fylgi. Síðan þá hefur þó ákveðnin stöðnun átt sér stað og óhætt er að fullyrða að enginn flokksmaður Samfylkingarinnar hafi verið ánægður með 9,9% fylgi í nýafstöðnum kosningum eftir heilt kjörtímabil í stjórnarandstöðu. Það er því með öllu óvíst hvort að Logi verði í formaður Samfylkingarinnar í næstu kosningum.