Ólíklegt er að Brynjar Níelsson snúi aftur í lögmennsku eftir farsælan feril sem stjórnmálamaður. Brynjar datt út af þingi á lokametrum nýafstaðinna þingkosninga og liggur nú undir feldi um næstu skref.
Brynjar er menntaður lögmaður og starfaði við lögmennsku áður en hann hellti sér út í stjórnmálavafstrið. Í skemmtilegu viðtali við Fréttablaðið tekur Brynjar nánast fyrir þann möguleika að snúa aftur tilbaka í lögmennskuna þrátt fyrir að einhverjar lögmannsstofur hafi þegar borið víur í hann.
„Svo eru það alltaf ákveðin óþægindi að vera í lögmennskunni þegar eiginkonan er dómari, það kallar á eitthvert vesen,“ segir Brynjar og ítrekar að honum þyki afar ólíklegt að hann fari þá leið.
Eiginkona Brynjars er Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari og segir þingmaðurinn fyrrverandi reikna með því að hann reyni að finna alveg nýjan starfsvettvang. „Líf mitt hefur alltaf verið svolítið tilviljanakennt. Ég hef dottið í hin og þessi hlutverk. Ég er spenntur að sjá hvort eitthvað spennandi býðst sem gæti verið eitthvað öðruvísi. Nú er ég bara á flugvellinum á heimleið, tiltölulega áhyggjulaus alveg þangað til þetta símtal barst. Nú þarf ég að fara að hugsa,“ segir Brynjar og hlær.
Fréttablaðið náði tali af Brynjari þar sem hann var á heimleið frá Spáni eftir að hafa farið í vikufrí með vinum sínum. „Ferðin var ákveðin fyrir kosningar, ég hef greinilega haft tilfinningu fyrir því hvernig þetta færi,“ segir Brynjar léttur.