Enn einn skjálftinn fannst nú rétt í þessu á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Samkvæmt óyfirförnum gögnum á vefsíðu Veðurstofunnar mældist hann 3.3 að stærð.
Mikil skjálftahrina hefur undanfarna daga gengið yfir og hafa þeir stærstu fundist alla leið austur fyrir fjall og norður í Borgarfjörð. Síðustu tvo sólarhringa hafa átta skjálftar um eða yfir 3 að stærð dunið yfir og allir eiga þeir upptök sín á sömu slóðum, rétt sunnan við fjallið Keili á Reykjanesskaga.
Jarðvísindafólk hefur stigið varlega til jarðar í fjölmiðlum síðustu daga og segjast ekki geta spáð fyrir um hvort skjálftahrinan sé undanfari annars eldgoss á skaganum, eða jafnvel hvort hraun gæti tekið að renna á ný um Geldingadali.