Alþjóðlegu samtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) hófu í gær umfjöllun um einn stærsta gagnaleka sögunnar sem hefur fengið nafnið Pandoruskjölin. Um gífurlegt magn af gögnum, myndum, tölvupóstum og öðrum skjölum er að ræða og hefur ICIJ eytt um ári í að rannsaka gögnin ásamt um 600 samstarfsmiðlum frá lestum svæðum heimsins.
Íslenskir samstarfsmiðlar voru Stundin og Reykjavík Media.
ICIJ hefur greint frá því að í gögnunum megi finna upplýsingar um meira en 27 þúsund fyrirtæki og raunverulega eigendur (e. beneficial owners), og yfir 330 þúsund stjórnmálamanna víða frá í heiminum.
Frá því að fyrstu fréttir um lekann birtust í gær hefur mörgum leikið forvitni á að vita hvort Íslendingum bregði fyrir í skjölunum eða íslenskum fyrirtækjum, enda reyndist síðasti gagnaleki af svipaðri stærð – Panamaskjölin, afdrifarík hér á Íslandi og leiddu til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði af sér embætti.
Samkvæmt vefsíðu ICIJ er enga íslenska stjórnmálamenn að finna í skjölunum, en það útilokar þó ekki að Íslendingum bregði þar fyrir enda varða gögnin líka auðmenn, viðskiptajöfra, glæpamenn, tónlistarmenn og svo framvegis.
Eins og sést á meðfylgjandi korti um hvaðan þeir 336 stjórnmálamenn, sem koma fyrir í skjölunum, eru er Ísland hvítt að lit, sem þýðir að enginn stjórnmálamannanna kemur héðan.
Hins vegar mun vera að finna í skjölunum upplýsinga um að átta fyrirtæki eigi sér raunverulega eigendur á Íslandi. Ekki er ljóst hverjir þessir raunverulegu eigendur eru, en má leiða líkur að því að Stundin sé þar með puttann á púlsinum, en næsta blað þeirra kemur út á föstudaginn.
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, segir landsmönnum að fylgjast vel með Stundinni á föstudag og merkir færsluna með myllumerkinu #PandoraPapers.
Lesið endilega @stundin á föstudag 👇 🇮🇸 💸 🇵🇦 #PandoraPapers https://t.co/21bTCuGxXG
— Aðalsteinn (@adalsteinnk) October 3, 2021