Eva Hauksdóttir, ein fjögurra systkina sem kærðu lækninn Skúla Tómas Gunnlaugsson og fleiri vegna andláts móður þeirra, furðar sig á því að kynferðisbrot og ofbeldi karla gegn konum séu einu glæpirnir sem misbjóði þjóðinni í dag, einkum í ljósi þess að nýlega hafi komið upp tvö mál þar sem grunur leikur á að aðilar starfandi fyrir hið opinbera hafi gerst sekir um manndráp.
„Ég skil vel það viðhorf að menn eigi ekki að spila með landsliði á meðan ásakanir um kynferðisbrot og önnur ofbeldisverk eru til skoðunar. En mér finnst undarlegt að kynferðisbrot og ofbeldi karla gegn konum séu einu brotin sem raunverulega misbjóða fólki,“ skrifar Eva á Facebook.
Eva og systkini hennar stigu fram í febrúar og greindu frá því að þau hefðu kært andlát móður sinnar til Landlæknis sem hafi skilað sláandi áliti í málinu. Læknir móður þeirra, Skúli Tómas Gunnlaugsson, þáverandi yfirlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var í kjölfarið sviptur lækningaleyfi vegna málsins, en fékk tímabundið lækningaleyfi að nýju í maí sem gildir fram í nóvember en þá gefst honum kostur á að sækja um ótímabundið leyfi að nýju.
Móðir systkinanna var í hvíldarinnlög á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þegar Skúli ákvað að setja hana í lífslokameðferð án nokkurs samráðs við hana sjálfa. Ellefu vikum síðar var hún látin en hún hafði ekki glímt við neinn lífsógnandi sjúkdóm og samkvæmt áliti Landlæknis var ekkert tilefni fyrir lífslokameðferð. Systkinin kærðu málið því næst til lögreglu, en þau vilja að málið verði rannsakað sem manndráp.
Eva skrifar á Facebook í dag að það sæti nokkurri furðu að almenningur og fjölmiðlar hafi meiri áhuga á kynferðisbrotum innan KSÍ en meintum manndrápum heilbrigðisstarfsmanna.
„Á sama tíma er starfandi læknir, að vísu með takmarkað starfsleyfi, sem er til lögreglurannsóknar vegna gruns um alvarleg brot í starfi gagnvart fjölda sjúklinga, m.a. að hafa átt þátt í dauða einhverra þeirra. Hvorki internetið né ríkisútvarpið hafa gert það að neinu stórmáli.
Enginn hefur stillt Landlækni upp við vegg og krafist svara um það hvernig það samræmist sjónarmiðum um öryggi sjúklinga og heiður læknastéttarinnar að læknir sé við störf þegar þannig stendur á. Enginn hefur spurt ráðherra hvort standi til að setja lög sem komi í veg fyrir slíkt í framtíðinni. Enginn hefur spurt yfirmenn læknisins á Landspítalanum hvernig þeim sjúklingum sem viðkomandi læknir er að krukka í líði.“
Eva vísar einnig í annað mál sem nýlega kom upp þar sem kona lét lífið á geðdeild, en grunur leikur á að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
„Ég sé heldur ekkert fjölmiðlafár vegna konunnar sem kafnaði á geðdeild fyrir skömmu en samkvæmt fréttum RÚV er mál hennar rannsakað sem manndráp. Það var ekki bara konan sem kafnaði heldur kafnaði fréttin af örlögum hennar í fréttum af KSÍ. Ég veit ekki hvort sá starfsmaður sem liggur undir grun er starfandi í dag, enda er enginn að fylgjast með tittlingaskít eins og manndrápum á vegum hins opinbera þegar kynferðisbrot eru í boði.“
Sjá einnig: Manndráp til rannsóknar – Hjúkrunarfræðingur í gæsluvarðhaldi
Veltir Eva því fyrir sér hvort mál móður hennar hefði fengið viðeigandi athygli ef Skúli hefði kynferðislega áreitt hana. Rétt rúmur mánuður sé þangað til Skúli megi sækja um fullt læknaleyfi á ný, en kæra systkinanna er nú komin til meðferðar á ákærusviði Lögreglunnar á Suðurnesjum og hefur sex fjölskyldum verið skipað réttargæslumönnum vegna málsins.
„Ef þáverandi yfirlæknir HSS hefði leitað á móður mína kynferðislega væri hann sennilega ekki við störf í dag. En hann er ekki grunaður um neitt í þá veru og aðeins fáar vikur þar til hann getur sótt um fullt lækningaleyfi á ný. Það verður áhugavert að sjá hvort hann verður talinn uppfylla skilyrðin,“ segir Eva að lokum.
Sjá einnig: Sakamál í uppsiglingu í tengslum við lífslokameðferð – Sex fjölskyldur hafa fengið réttargæslumenn