Starfsfólki geðdeildar Landspítalans við Hringbraut er verulega brugðið vegna ásakana um að samstarfskona þeirra hafi gerst sek um manndráp. Rannsókn málsins er í fullum gangi og samkvæmt heimildum DV telja sumir starfsmenn að lögregla hafi farið offari með því að hneppa starfsmanninn, sem starfar sem hjúkrunarfræðingur, í gæsluvarðhald.
Eins og fram hefur komið sendi Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá sér tilkynningu um helgina að rannsókn væri hafin á andláti konu á sextugsaldri sem lést á Landspítalanum fyrr í mánuðinum. Tilkynningin var send út í kjölfar fyrirspurnar RÚV um málið.
Deildin, þar sem harmleikurinn átti sér stað, hefur það orð á sér að vera undirmönnuð og starfsálag þar mikið. Sú staða var uppi á teningnum þann örlagaríka dag þegar andlátið átti sér stað. Á umræddri deild áttu tveir hjúkrunarfræðingar að vera á vakt en aðeins ein staða var mönnuð.
Fram hefur komið að andlátið hafi átt sér stað í matartíma og að konan hafi kafnað. Í frétt Vísis um málið kom fram að grunur léki á að hjúkrunafræðingurinn hafi þvingað mat ofan í sjúklinginn með þessum hræðilegu afleiðingum.
Þá er mikil óánægja uppi meðal starfsfólk yfir því að hin látna hafi yfirhöfuð verið vistuð á deildinni þetta kvöld. Hún glímdi við veikindi sem urðu til þess að hún hafði skömmu áður hún verið flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar. Starfsfólk geðdeildarinnar hafi undrast mjög að viðkomandi hafi verið send aftur á geðdeildina að því loknu.
Hinn grunaði hjúkrunarfræðingur var úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna þann 25. ágúst síðastliðinn. Landsréttur komst að öndverðri niðurstöðu og felldi gæsluvarðahaldsúrskurðinn úr gildi í gær, 30. ágúst. Var það mat dómstólsins að ekki væru slíkir rannsóknarhagsmunir í húfi að svo stöddu að réttlætanlegt væri að hafa hjúkrunarfræðinginn áfram í haldi.
Ágúst Ólafsson, lögmaður hjá Lagarökum, sem gætir hagsmuna aðstandenda hinar látnu segir fjölskylduna harmi slegna og að þau líti málið allt mjög alvarlegum augum. Fjölskyldan muni þó ekki fella neina dóma fyrr en allar upplýsingar í málinu liggi fyrir né tjá sig frekar um málið að svo stöddu.