Aðgerðarhópurinn Öfgar og fornvarnarhópurinn Bleiki fíllinn hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á Klöru Bjarmarz, framkvæmdastjóra KSÍ að segja starfi sínu lausu. Jafnframt er skorað á styrktaraðila KSÍ að beita sér fyrir því að Klara hætti.
Öll stjórn KSÍ sagði af sér í gærkvöldi, og formaðurinn sagði af sér síðustu helgi, eftir harða gagnrýni á hvernig KSÍ hefur fjallað um kynferðisofbeldi þar sem landsliðsmenn eru gerendur, en sambandið sagði ósatt ítrekað áður en þolandi eins landsliðsmanns steig fram á föstudag og afhjúpaði lygarnar.
Boðað var til mótmæla fyrir utan landsleikinn á fimmtudag og standa mótmælin enn til þrátt fyrir að stjórn KSÍ hafi sagt af sér.
„Að gefnu tilefni vilja Öfgar og forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn árétta að friðsælu mótmælunum verður haldið til streitu nk. fimmtudag. Ástæðan er sú að Klara þarf að fara. Mæting er kl. 17:00 fyrir utan Laugardalsvöll fimmtudaginn 2. september.
Framferði Klöru er óboðlegt. Hún hefur fengið að skauta framhjá sannleikanum ítrekað, axlar enga ábyrgð og virðist ekkert sjá rangt við sitt framferði. Hún reynir að varpa ábyrgðinni á öll önnur í kringum sig, en sér ekkert að hjá sér sjálfri.
Fyrst um sinn segist Klara ekki kannast við nein kynferðisbrot en segir síðan í gærkvöldi að hún hafi fengið að vita af hópnauðguninni í sumar. Ennig viðurkennir hún að hafa vitað af ofbeldismálinu sem Kolbeinn gekkst við.
Þarna kemur hún upp um sig, hún sagði ekki satt og rétt frá. Hún segist vita að ferlið er varðar hópnauðgunina hafi ekki verið nægilega gott en vissi samt ekki af neinni hópnauðgun í fyrradag. Hún fylgir málunum, sem hún setur í ferli, ekki einu sinni eftir.
Eins og allt þetta hafi ekki verið nóg þá samþykkti hún yfirlýsingu KSÍ, sem hún vissi að var röng. Með því samþykkir hún að saka Hönnu Björgu um lygar og þagga niður í henni og öllum hinum sem vöktu athygli á brotalömum innan KSÍ.
Klara verður að fara – því þó að nýtt fólk komi inn þá mun Klara ábyggilega bara setja hlutina áfram í þessi títt nefndu FERLI.
Þöggunin og ofbeldismálin sem fengu að viðgangast undir hennar augum eru það alvarleg og ítrekuð að hún hlýtur að sjá það sjálf að hún er ekki starfi sínu vaxin.
Það er ekki hægt að líta fram á veginn og betrumbæta með fólk innanborðs sem var hluti af og viðhélt þessari eitruðu menningu innan KSÍ.
Við skorum á styrktaraðila KSÍ að halda áfram að pressa með okkur. Ástæðan er einföld – KSÍ hélt áfram að maraþonfunda og ljúga þangað til styrktaraðilar fóru að taka afstöðu. Þá fór KSÍ að hræðast peningamissi.
Peningar virðast vega hærra hjá þessu félagi en raddir þolenda og kröfur samfélagsins. Rautt spjald á Klöru. Nóg er nóg.“