Héraðssaksóknari hefur ákært 26 ára gamlan Reykvíking fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt inn um 660 grömm af mjög sterku kókaíni með farþegaflugi frá London í apríl í fyrra. Efnin voru falin innvortis.
Þá er maðurinn jafnframt sagður hafa haft á sér 0,89 grömm af maríhúana í sama flugi. Er maðurinn ákærður fyrir minniháttar fíkniefnalagabrot vegna þessa.
Ljóst er að Héraðssaksóknari telur brot mannsins umfangsmikil, en hann er í sömu andrá ákærður fyrir að hafa þvætt ávinning af sölu og dreifingu fíkniefna að fjárhæð 12,3 milljóna. Segir í ákærunni, sem DV hefur undir höndum, að fimm milljónir af þeim 12,3 milljónum séu vegna óútskýrðra tekna á bankareikningi og um 7,3 milljónir vegna kaupa á gjaldeyri með reiðufé.
Að lokum er maðurinn ákærður fyrir vörslu 75 gramma af kannabislaufum.
Héraðssaksóknari gerir þá kröfu að maðurinn verði dæmdur til refsingar, greiðslu sakarkostnaðs og að honum verði gert að sæta upptöku efnanna auk ýmiss búnaðar til ræktunar á kannabisefnum.
Málið verður þingfest 9. september næstkomandi, í Héraðsdómi Reykjavíkur.