Becky Estill, eiginkona Scott Estill, em leitað var af við gosstöðvarnar í rúman sólarhring, segir í samtali við RÚV að hún eigi engin orð til þess að lýsa þakklæti sínu í garð björgunarfólks. Hún segir biðin á meðan maðurinn hennar var týndir hafi verið hræðileg og vonin var farin að dvína.
Scott, sem er 59 ára Bandaríkjamaður, varð viðskila við eiginkonu sína á gossvæðinu í Geldingadölum um miðjan dag á föstudag. Hann fannst síðan rúmum sólarhring síðar eða um áttaleytið í gærkvöldi. Hann fannst á áttunda tímanum í gær eftir að fjölmennt lið björgunarsveitarmanna og annarra viðbragðsaðila hafði fínkembt svæðið.
„Okkur urðu á hrapalleg mistök. Við erum frá Colorado og erum kunnug fjallaferðum, hvað beri að gera. Þetta voru lokin á ferðalaginu og við vorum kærulaus. Hann var ekki með símann sinn og við vorum á jeppaslóð og ég hugsaði sem svo: Hvernig er hægt að týna jeppaslóð. Ég fer á undan, veðrið er afleitt. Maður skyldi aldrei yfirgefa ferðafélaga sinn og ætíð vera með vatn og snjallsímann. Þetta voru mistökin sem að við gerðum. Og þetta varð niðurstaðan; hann dó næstum því,“ segir Becky Estill í viðtalinu við RÚV.
Hún lýsir því að hennar fyrstu viðbrögð hafi verið ofsahræðsla og oföndun en svo hringdi hún í Neyðarlínuna. Að hennar sögn brást lögreglan hratt við.
Hún segist ekki eiga orð yfir hversu fagmannleg vinnubrögð allra þeirra sem komu að leitinni voru. Hún hafi mætt hlýlegu viðmóti alls staðar. Sjálf starfar hún sem læknir og því hafi hún fullkomlega gert sér grein fyrir því hversu alvarleg staðan var. Hún var orðin afar vonlítil rétt áður en maðurinn hennar fannst. Þá er hún þakklát í garð Rauða Krossins.
„Til allrar hamingju var Rauði krossinn til staðar og fékk alveg ótrúlegan stuðning frá Erlu og kollegum hennar. Og björgunarsveitarfólkinu sem við vorum reglulega í sambandi við.“
Ljóst er að Becky er afar snortinn yfir lífsreynslunni.
„Ég á ekki orð til að lýsa þessu, svo ótrúlegt sem það var. Og ekki heldur til að tjá þakklæti okkar.“
Það kom þeim hjónum einnig á óvart að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi tjáð sig um leitina á Facebook er hann vonaðist til þess að hún myndi bera árangur. Í lok viðtalsins vilja þau hjón koma þakklæti sínu á framfæri.
„Guð blessi ykkur fyrir að gefa af tíma ykkar til að sinna þessu; svona hugsunarlausu fólki… Þið eruð dásamleg.“
Hægt er að horfa á viðtalið hér.