Greint var frá því í gær að verið væri að leita að erlendum ferðamanni sem varð viðskila við eiginkonu sína við gosstöðvarnar á Reykjanesinu. Leit að manninum hefur ekki borið árangur og hefur lögreglan á Suðurnesjum nú ákveðið að leita hjálpar almennings.
„Síðan í gær hefur staðið yfir leit að erlendum aðila við gosstöðvarnar og leitum við nú liðsinnis ykkar,“ segir í færslu sem lögreglan á Suðurnesjum birti á Facebook í dag. Þar kemur fram að um sé að ræða bandarískan ríkisborgara að nafni Scott Estill. Scott er 59 ára gamall, grannvaxinn og vel á sig kominn.
Þá lætur lögreglan tvær ljósmyndir af Scott fylgja með en hliðarmyndin af honum var tekin í gær og sást hann síðast í þeim fatnaði sem hann er í á myndinni. Hann er með DSLR myndavél með litríkri hálsól og er hann í brúnum gönguskóm. Síðast sást til hans við hraunkantinn austast í Merardölum þar sem hann varð viðskila við konu sína.
Lögreglan biður þá almenning um hjálp. „Við viljum biðja þá sem muna eftir að hafa séð hann að skoða meðfylgjandi kort af gossvæðinu. Búið er að útbúa kortið með reitum og viljum við biðja ykkur um að setja X á þann stað þar sem þið sáuð hann, eða láta okkur vita um reit og númer og senda okkur skilaboð hér á Facebook eða hafa samband við 1-1-2. Vinsamlega deilið sem víðast.“
https://www.facebook.com/lss.abending/posts/4237287772958299