Helena Kouhei var að keyra á Suðurlandsbrautinni í Reykjavík þegar maður á rafmagnshlaupahjóli frá rafhlaupahjólaleigunni Hopp birtist allt í einu á veginum fyrir framan hana. Helena var með myndavél í gangi í bílnum sínum og náði því atvikinu á myndband. Það sem ekki sést á myndbandinu er svo enn svakalegra en maðurinn elti Helenu sem þurfti að flýja hann með að keyra nokkuð langa vegalengd.
„Sést illa á myndbandinu en hann þveraði yfir akgreinina með umferð á móti, á milli bíla, endaði svo á að elta mig upp að Nettó í Nóatúni,“ segir Helena í samtali við DV um málið. Þegar Helena var komin að Nettó í Nóatúni tók hún upp símann. „Þar hringdi ég í lögregluna og stöðvaði bílinn á miðri akgrein við hliðina á Nettó.“
Helena fékk þó ekki aðstoð frá lögreglunni. Einn lögreglubíll keyrði framhjá og Helena reyndi að ná athygli lögreglunnar í bílnum en allt kom fyrir ekki. πLögreglubíll keyrði framhjá, flautaði á hann og blikkaði til að reyna að ná athygli á meðan maðurinn hélt smá fjarlægð en lögreglubíllinn keyrði bara í burtu,“ segir hún.
Þegar þangað var komið sá Helena aðeins einn kost í stöðunni og það var að keyra þangað til hún var komin frá manninum. „Ég endaði á að keyra upp að Klambratúni til að losna við manninn,“ segir Helena en hún veit ekki hver maðurinn var. „Hef ekki hugmynd, hann virtist vera óreglumaður miðað við hegðun og klæðaburð.“
Helena birti myndbandið af atvikinu á Facebook-síðu sinni og hefur það vakið mikla athygli þar. Í athugasemdunum við myndbandið furðar fólk sig á manninum á rafmagnshlaupahjólinu. „Fáviti er þessi dúddi,“ segir til að mynda ein kona um manninn.