Erlendur ferðamaður varð viðskila við eiginkonu sína við gosstöðvarnar á Reykjanesi um miðjan dag í gær. Í kjölfarið óskaði eiginkonan eftir aðstoð björgunarsveita og voru hópar að leita mannsins í gær og í nótt. Leitin í nótt bar þó ekki árangur og er mannskapurinn sem sá um letiina farinn í hvíld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Þá kemur einnig fram að um 50 manns séu að leita mannsins núna og að búið sé að kalla út björgunarsveitir af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæði, Suðurlandi og Vesturlandi. „Verið er að meta hvort bætt verði við sveitum af Norðurlandi,“ segir í tilkynningunni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar tekur nú þátt í leitinni. Búist er við því að mikill fjöldi fólks sæki gosstöðvarnar í dag en samkvæmt Gunnari Schram, yfirlögregluþjóni lögreglunnar á Suðurnesjum, truflar það ekki störf þeirra sem leita að manninum, þvert á móti. „Jafnvel frekar að það sé af hinu jákvæða að hafa mikið af fólki þarna í dag, sem hefur augun opin fyrir einhverju,“ segir Gunnar um málið í samtali við Vísi.