Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fagnar 53 ára afmæli sínu í dag. Guðni tjáir sig um daginn í færslu á Facebook-síðu sinni í dag en þar fagnar hann því að sóttvarnartakmörkunum hefur verið aflétt. Hann biður fólk þó um að hafa varann enn á þar sem veiran geisar áfram víða í heiminum. „Dagur gleði og gæfu er runninn upp. Á miðnætti féllu úr gildi allar hömlur hér innanlands vegna farsóttarinnar sem hefur leikið okkur svo grátt síðustu misseri. Enn skulum við þó hafa varann á, veiran geisar áfram víða um heim,“ segir Guðni í færslunni.
„Engu að síður megum við hér heima fagna okkar merku tímamótum. Ég hugsa hlýtt til þeirra sem misst hafa ástvini vegna vágestsins, auk þeirra sem veikst hafa af völdum hans. Og ég hugsa með djúpu þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum í heimsfaraldrinum, í þágu alls samfélagsins.“
Guðni segir að hann hefði varla getað óskað sér betri tíðinda á afmæli sínu og á þar við afléttingarnar á samkomutakmörkununum. „Við stóðum saman, við Íslendingar. Við treystum á mátt vísinda og þekkingar, við sýndum hvað í okkur býr þegar á reyndi. Höldum áfram vöku okkar og þá mun allt fara vel.“