Bandaríski ferðamaðurinn sem leitað hefur verið að síðastliðinn sólarhring er fundinn – heill á húfi. Þetta kemur fram í Facebook- færslu Lögreglunnar á Suðurnesjum rétt í þessu.
Í færslu lögreglunnar kemur fram að Estill hafi verið hruflaður og meiddur þegar hann fannst en verið sé að flytja hann á sjúkrahús.
Greint var frá því í gær að verið væri að leita að erlendum ferðamanni sem varð viðskila við eiginkonu sína við gosstöðvarnar á Reykjanesinu. Leit að manninum stóð yfir í tæpan sólarhring og var fjölmennt lið viðbragðsaðila kallað til auk þess sem drónar og þyrla Landhelgisgæslunnar komu að leitinni. Þá leitaði lögreglan á Suðurnesjum á náðir almennings til þess að fá einhverjar vísbendingar sem gætu nýst við leitina. Þar kom fram að maðurinn var rétt um sextugt og í góðu líkamlegu formi.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að maðurinn hafi fundist um fjóra kílómetra norðvestur af gosstöðvunum og hafði gengið í þveröfuga átt. Þá kemur fram að verið sé að flytja manninn til byggða í þyrlu Landhelgisgæslunnar en of langt var að ganga að næsta björgunarsveitarbíl.