Maðurinn sem lést í slysi við Svuntufoss í Ósá í Patreksfirði hét Sveinn Eyjólfur Tryggvason. Hann var fæddur árið 1972 og hafði nýverið fagnað 49 ára afmæli sínu.
Sveinn Eyjólfur var frá Lambavatni á Rauðasandi en var búsettur að Sigtúni á Patreksfirði. Hann lætur eftir sig eiginkonu og sjö börn.
Sveinn Eyjólfur, sem gekk undir nafninu Eyfi, var vanur útivistarmaður. Hann tilheyrði meðal annars hópi manna sem enn sigu í Látrabjarg eftir svartfuglseggjum. Frétta- og þjóðlífsþátturinn Landinn birti innslag um hópinn árið 2019 og var Sveinn Eyjólfur einn viðmælenda.
Slysið átti sér stað um hádegisbilið sunnudaginn 30. maí. Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að Sveinn Eyjólfur hefði reynt ætlað sér að fara út í hyl undir Svuntufossi þar sem hann var staddur í ferðalagi ásamt hóp fólks. Mikill straumur reyndist vera í hylnum og virðist sem svo að Sveinn Eyjólfur hafi misst fótanna og lent í sjálfheldu í straumnum þar til aðrir ferðalangar komu honum til hjálpar.
Þá hafði hann misst meðvitund og endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.
Starfsfólk DV vottar ástvinum Sveins Eyjólfs innilega samúð sína.