Klukkan hálftvö í gærnótt var ljósmyndarinn og leiðsögumaðurinn Hermann Helguson að ljósmynda eldgosið í Geldingadölum. Þar varð hann vitni að alveg ótrúlegu atviki, sem hann náði á myndband. Ferðamaður hoppaði nefnilega upp á brennandi hraunið, en tilgangurinn virðist hafa verið sá að ná góðri mynd.
Í samtali við DV segir Hermann frá þessu furðulega atviki. Sjálfur hafi hann verið að ljósmynda hraunið, og verið í um það bil þriggja metra fjarlægð frá því og þaðan fundið mjög mikinn hita. Þegar honum var litið til hliðar sá hann ferðamann stökkva á sjálft hraunið.
„Allt í einu sé ég kallinn hoppa upp á sjóðandi hraunstallinn,“ segir Hermann, sem í kjölfarið greip símann sinn og tók um myndband. Eftir að hann var búinn að taka það upp segist Hermann hafa „horft á með á með opinn munn og stór augu.“ Hermann segist fyrst hafa sent einungis nokkrum myndbandið á Snapchat, en vegna mikilla viðbragða ákvað hann að dreifa því á samfélagsmiðlum.
View this post on Instagram
Hann segir að maðurinn hafi líklega staðið á hrauninu í mínútu, svo hægt væri að taka góða mynd af honum. „Það er auðvitað alveg fáránlegt að gera þetta,“ segir Hermann um atvikið og bætir við: „Það er hreinlega fávitaskapur þegar fólk er svona kærulaust gagnvart lífi sínu.“
Ekki ætti að þurfa að taka fram að mælt er gegn því að fólk fari of nálægt hrauninu, hvað þá að það stökkvi á það.
Hermann deildi myndbandinu ótrúlega á Instagram-reikningi sínum, en þar deilir hann einnig ljósmyndum af gosinu líkt og sjá má hér að neðan.
View this post on Instagram