fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Fréttir

Kattastríðið harðnar – „Ég spyr í fúlustu alvöru, eru kettir orðnir rétthærri en við mannfólkið?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 2. júní 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snævarr Örn Georgsson, umhverfisverkfræðingur, tekur undir með sér Sigurði Ægissyni um að lausaganga katta ætti ekki að vera heimil hér á landi. Segir hann ekkert náttúrulegt við slíka lausagöngu og katteigendur aðeins berjast fyrir lausagöngu svo þeir þurfi ekki sjálfir að sjá um dýr sín eða bera ábyrgð á hegðun þeirra.

Hann ritar um þetta hjá Vikublaðinu í dag.

Snævarr vísar til þess að séra Sigurður hafi verið kallaður dýraníðingur fyrir að dirfast að tala gegn lausagöngu katta. Hann hafi þurft að þola persónuárásir og svívirðingar og gerir Snævarr ráð fyrir að hans örlög verði áþekk eftir að þessi pistill hans birtist.

„Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er alls ekki að tala fyrir því að kettir séu bannaðir, ég skil vel að fólk vilji eiga gæludýr og í þessum malbiks- og steypufrumskógi sem við höfum byggt er mjög gott fyrir okkur að hafa einhverja tengingu við dýr og náttúruna. Ef einhverjir vilja fá þessa tengingu í gegnum ketti þá er það hið besta mál, en það fólk verður hins vegar að taka ábyrgð á köttunum og hugsa um þá líkt og aðrir gæludýraeigendur. Það að eiga gæludýr eru forréttindi, ekki mannréttindi, og þessum forréttindum fylgja skyldur.“

Sjálfur fer Snævarr með hund sinn tvisvar á dag í göngutúr og hirðir samviskusamlega upp skítinn eftir hann. Kettir hins vegar gangi um óáreittir og stundi það að skíta í sandkassa, áreita sofandi ungbörn í vögnum, drepa smádýr, brjótast inn á önnur heimili og gera þar jafnvel þarfir sínar eða stunda smáþjófnað. Á þessu þurfi kattaeigendur ekki að bera ábyrgð. Ekkert sé hægt að gera við breimandi köttum, en hins vegar horfi öðru vísi við þegar um geltandi hunda er að ræða.

„Af hverju þurfa kattareigendur ekki að bera ábyrgð á sínu gæludýri líkt og hundaeigendur og aðrir gæludýraeigendur?“

Snævarr bendir á að frekar en að eigendur katta þurfi að bera ábyrgð á hegðun þeirra sé ábyrgðinni varpað á þá sem ekki kæra sig um óboðnar heimsóknir katta á heimili sín. Eða með öðrum orðum, fólki er gert að ala upp eða þjálfa ketti sem þeir eigi ekkert í, gæta að gluggum sínum og opnum gættum í þeim tilgangi að kettir annarra séu ekki að brjótast inn.

„Þvílíkt heimtufrekja, allir aðrir en kattareigendur eiga að grípa til aðgerða. Kattareigendur eru alltaf stikkfrí.“

Snævarr telur að fyrst fólk þurfi að verjast köttum þá sé ekki um rándýr að ræða heldur meindýr.

„Ég eignaðist nýlega mitt fyrsta barn og mér var bent á að setja net á barnavagninn þegar barnið sefur úti. Ekki til að verjast flugum, nei, heldur svo að kettir fari ekki í vagninn. Er þetta í alvörunni í lagi? Við setjum börnin okkar í búr til að verja þau fyrir köttum, ætti það ekki að vera öfugt eða eru kettir rétthærri en við mannfólk og börnin okkar? Kettir flakka inn á þau heimili sem þeim sýnist og bókstaflega stela þaðan og skíta í sófann hjá fólki. Ég mætti þetta ekki. Ég spyr í fúlustu alvöru, eru kettir orðnir rétthærri en við mannfólkið?“

Varðandi þau rök sem færð hafa verið fyrir því að lausaganga katta sé leyfð segir Snævarr að fram megi færa alveg jafn sannfærandi mótrök.

Að kettir þurfi hreyfingu – eigendur geti farið með þá út í bandi.

Að ekki sé hægt að temja kettina – vísbending um að dýrið henti ekki sem gæludýr

Að önnur dýr drepi líka fuglsunga – Það þýðir ekki að það sé í lagi.

Að þetta sé hluti náttúrunnar – Kettir eru upprunalega innfluttir og því ekki náttúrulegur hluti íslenskrar náttúru

Að kettir launi fyrir sig með því að veiða mýs og rottur – Það sé hægt að gera slíkt með öðrum leiðum.

Snævarr skorar því á bæjarfulltrúa á Akureyri að beita sér fyrir því að jafnt gangi yfir alla gæludýraeigendur og lausaganga katta verði bönnuð.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Firmino fer til Katar
Fréttir
Í gær

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“
Fréttir
Í gær

Fimm í haldi í skotvopnamáli

Fimm í haldi í skotvopnamáli