

Dagur B.Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur er í forsíðuviðtali DV í dag. Hann ræðir verkefnin í borginni, álagið sem stór hluti þjóðarinnar býr við eftir að kröfur samfélagsins þróuðust í þá átt að allir verði að vera til taks alltaf í gegnum tæknina, uppeldið, hvernig hann kynntist konunni sinni, Bloomberg-málið og afhverju hann hefur ekki enn ákveðið hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór – læknir eða stjórnmálamaður.
Dagur er eins og frægt er menntaður læknir, hefur skrifað ævisögu, leitt Samfylkinguna í borginni og á fjögur börn með eiginkonu sinni, líknarlækninum Örnu Dögg Einarsdóttur. Hann hefur starfað í borgarmálum í rúm 15 ár og er merkilega ferskur miða við álagið og naggið sem fylgir stjórnmálum. Háar raddir hafa hermt að hann fari nú að snúa sér að öðrum verkefnum en stjórnmálum enda hefur hann sjálfur ítrekað sagt að hann hafi alltaf hugsað pólitík sem tímabundið starf.
Völva DV og reyndar fleiri miðlar segja að þú sért að hætta?
„Þær hafa nú reyndar sagt það í fimm eða sex ár svo það verður að endingu rétt,“ segir Dagur og hlær. „Ég er hvorki búinn að ákveða að hætta né ekki hætta,“ segir Dagur sem hefur verið borgarstjóri frá sumrinu 2014. Hann segist ekki geta svarað því svo löngu fyrir kosningar.
Borgarstjórnarkosningar fara næst fram í maí 2022 – sama ár og Dagur verður fimmtugur en hann segist ekki vera tilbúinn til að ákveða svo langt fram í tímann hvort hann gefi kost á sér aftur.
Ertu með einhver spennandi plön eða lista – eitthvað sem þú verður að gera áður en þú verður fimmtugur? Eignast mótorhjól og leðurjakka?
„Nei, enginn listi en þetta eru fínar hugmyndir,“ segir hann og hlær. Borgarstjórinn lítur vel út og ekki er á honum að sjá að hann hafi verið illa farinn af fylgigigt sem skerti hreyfigetu hans og olli miklum kvölum fyrir rúmum tveimur árum. Sterk lyf halda honum gangandi og árangurinn er betri en margir þorðu að vona.
Ertu ekkert að vinna?
Þú varst álitinn vonarstjarna af samnemendum þínum í læknadeildinni. Þóttir jafnvel bera af. Hvað fannst fólki um að þú skyldir hætta sem læknir?
„Ég hlýt að vera betri í minningunni en ég var. Mér fannst ég aldrei standa mig nógu vel af því að ég var oft að atast í ýmsu öðru, en jú, fólki fannst það skrítið,“ segir Dagur og vísar í að hann var mikið í stúdentapólitík, tók eitt ár í heimspeki í Háskólanum samhliða læknisnámi og lærði einnig mannréttindalögfræði.
„Svo er það svo sniðugt að ef maður hittir gamla kollega þá er enn þá verið að spyrja mig: Ertu svo ekkert að vinna?“ segir hann og skellir upp úr. „Þeir telja þá ekki pólitíkina með. Læknisfræðin er þannig að hún gagntekur fólk. Það er líka eðlilegt að spyrja sjálfan sig hvað heldur manni. Og hvar kröftum þínum er best varið hverju sinni. Ég hef aldrei gefið neitt upp á bátinn varðandi læknisfræðina. Ég er klár á því að ef ég myndi ákveða að fara aftur í hana, þó það virki kannski óraun-hæft svona löngu seinna, þó það yrði basl, þá hefur maður líka gott af því að breyta til og basla aðeins.“
Þú ert í pólitík. Þú hefur greinilega gaman af basli?
„Það má segja það.“
