„Við fengum mikið magn af ábendingum frá fólki í gær. Sumar er búið að elta uppi og aðrar eru til frekari skoðunar,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við DV um rannsóknina á hvarfi Söndru Lífar Þórarinsdóttu Long, en ekkert hefur spurst til hennar síðan seint á skírdag er hún fór frá heimili vinkonu sinnar. Bíll Söndru fannst á Álftanesi í gær og í honum voru bíllyklar og snjallsími Söndru.
Komið hefur fram að leit björgunarsveita í gær skilaði einhverjum ábendingum til lögreglu en Ásgeir segir að hann geti ekkert tjáð sig um það á þessu stigi málsins.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að leitir af þessu tagi skili alltaf ábendingum inn á borð lögreglu en hann geti ekkert mat lagt á gagnsemi þeirra ábendinga sem leitin hafi skilað til þessa. Hann getur ekki staðfest hvort fatnaður eða annað sem tilheyri Söndru hafi fundist.
„Það finnst alltaf eitthvað en svo er það lögregla sem vinnur úr ábendingum og tilkynningum og tengir við málið – eða ekki. “
Að sögn Davíðs tóku hátt í 200 manns þátt í leitinni í gær og frá því að aðgerðir hófust á aðfaranótt laugardag. Var leitað alveg til klukkan 18 í gær. „Það var mikill þungi í leitinni í gær og leitað á stóru svæði á Álftanesi með drónum bæði frá sjó og landi. Leit hófst að nýju um sexleytið í morgun og fóru björgunarskip meðfram strandlengjunni í verkefni sem nú er að klárast. Planið er að á hádegi mæti fleiri hópar sem leita með drónum bæði til hliðar við þyrlu Landhelgisgæslunnar og með fram bátum. Eins verður fylgst með ákveðnum svæðum á landi,“ segir Davíð en fjöldi leitarmanna í dag liggur ekki fyrir fyrr en um hádegi.