Efnafræðingurinn Örn Almarsson vann hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Moderna að þróun bóluefnis við COVID-19. Fyrirtækið kynnti þetta bóluefni í morgun en það virkar í 95% tilvika og hægt er að geyma það við hita kæliskáps.
Örn segir í viðtali við RÚV að það séu forréttindi að hafa fengið að starfa við þróun bóluefnisins. Hann hefur starfað við lyfjaþróun í Bandaríkjunum í 25 ár. Telur hann að allir ættu að geta fengið bóluefnið eftir nokkra mánuði. Örn segir þetta um verkefnið í viðtali við RÚV:
„Þetta er mjög óvenjulegt verkefni og algjörlega einsdæmi að það sé hægt að framkvæma svona stóra stúdíu á innan við einu ári frá því að genasamsetningin á vírusnum er þekkt. Þetta sýnir hvað þessi tækni sem Pfizer, BioNTech og Moderna eru búin að vera að vinna með, sem er mjög ný af nálinni, er að gera í raun og veru. Þetta hefur vonandi áhrif í framtíðinni fyrir aðra smitsjúkdóma.“
Örn telur að lyfjafyrirtækin Moderna og Pfizer séu þegar búin að safna birgðum af bóluefni og séu tilbúin að flytja efnið hvert sem er.