Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að tryggja eigi að tíu afplánunarpláss verði tryggð undir þá sem þurfa að sitja af sér sektargreiðslur en það sé forsenda þess að yfirvofandi fangelsisvist verði fólki hvatning til að greiða sektina.
Starfshópurinn lýsir efasemdum um varnaðaráhrif samfélagsþjónustu í tilvikum hæstu sektanna þar sem brotin hafa falið í sér mikinn fjárhagslegan ávinning. Talið er að afplánun í fangelsi sé líklegri til að hafa áhrif á skuldara til að greiða sektir sínar.
Starfshópurinn var settur á laggirnar í kjölfar athugasemda Ríkisendurskoðunar hvað varðar lágt innheimtuhlufall sekta. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar var lýst sterkum grunsemdum um að fólk, sem hefur hlotið dóma fyrir skattalagabrot og önnur svokölluð hvítflibbabrot, hafi fullt bolmagn til að greiða sektir sínar en komi sér hjá því að greiða og afpláni frekar með vararefsingu, í flestum tilfellum með samfélagsþjónustu. Með þessu fái viðkomandi mjög hátt tímakaup ef miðað er við ávinninginn af brotinu.