Um hálfeittleytið í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðborginni eftir ítrekuð afskipti lögreglu en hann hafði verið að ógna fólki og berja frá sér með hækju sem hann hafði meðferðis. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans lagast.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, ásamt þessu:
Klukkan hálfþrjú í nótt var maður handtekinn í miðbænum grunaður um eignaspjöll en maðurinn hafði verið að reyna að brjótast inn í bíl og var búinn að skemma bílinn. Maðurinn er einnig grunaður um hylmingu og brot á vopnalögum. Var hann vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu.
Um fjögurleytið í nótt var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum. Maður hafði verið rotaður og sá sem réðst á hann var handtekinn á vettvangi. Hann var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu.
Laust fyrir klukkan eitt í nótt gerðist það í Hraunbæ að ökumaður bíls sem lögreglumenn hugðust hafa afskipti af sinnir ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reynir að aka á brott en ekur á kantstein, affelgar dekk og neyðist til að stöðva. Þá reynir ökumaðurinn að hlaupa á brott en er fljótlega handtekinn. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Þrír farþegar voru í bílnum og fóru þeir sína leið að lokinni skoðun.