Íbúar sunnanlands og á suðvesturhorninu hafa verið ánægðir með veðrið undanfarið vegna mikillar sólar en það hefur þó verið fremur svalt í veðri og kuldar hafa verið norðanlands. Í næstu viku er hins vegar gert ráð fyrir miklum hita í landinu sem getur farið upp í 25 stig.
Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðing á Veðurstofunni. Helga bendir á að spár geti breyst hratt en það virðist stefna í hæð yfir landinu og að hiti fari yfir 20 stig og jafnvel yfir 25 stig á miðvikudag, fimmtudag og föstudag.
Búast má við þurru og björtu veðri um allt land í næstu viku og verður víða léttskýjað.