„Ég þarf ekki að telja peningana um mánaðamótin, ég vinn átta tíma á dag, fimm daga vikunnar, í fjórar vikur og þegar kaupið loksins kemur þá er það eins og að ýta á takka, það er allt horfið um leið.“
Svo mælir Clarivelle Rosento, sex barna móðir sem starfar í heimaþjónustunni í þjónustuíbúðum aldraðra á Furugrund 1 og hefur gert í fjögur ár.
Clarivelle er ein þeirra sem segja sögu sína í tengslum við verkefnið Fólkið í Eflingu. Hún vinnur fjörtíu stunda vinnuviku og aðra hvora helgi og fær greiddar 270 þúsund á mánuði eftir skatta. Segir hún það erfitt að ná endum saman og að hún hafi miklar áhyggjur af líðan hjá börnum sínum. „Launin eru svo lág að stundum borða ég sjálf bara núðlur og banana til þess að geta gefið börnunum eitthvað skárra og keypt skó og úlpur fyrir veturinn,“ segir hún.
Clarivelle flutti til Íslands fyrir 19 árum frá Filippseyjum og býr með manninum sínum og börnum þeirra í eigin húsnæði í Breiðholti. „Við konurnar frá Filippseyjum sem vinnum hérna í heimaþjónustunni erum flestar mæður með börn og ég er ekki að segja að mennirnir okkar séu latir en við tökum kannski meiri ábyrgð á heimilinu og börnunum en þeir þannig að vinnuálagið er töluvert,“ segir hún.
„Hver mánaðamót setjumst við niður með launin okkar og borgum fyrst húsnæðislánin og rafmagn, síma, net, leikskólann og mat fyrir börnin í grunnskólanum. Þegar það er greitt þá legg ég fyrir pening fyrir mat og bensíni. Þá er kannski eitthvað pínulítið eftir fyrir krakkana en pyngjan er tóm þegar kemur að mér“, segir hún.
Ofar öllu segist Clarivelle vonast til þess að börnin sín fái almennilega menntun og myndi helst vilja koma börnum sínum í betri skóla, væri hún á betri launum. Hún sótti um pláss í Ísaksskóla fyrir yngsta son sinn, fimm ára gamlan, og fékk hann inngöngu. Hins vegar varð Clarivelle þá að draga umsóknina til baka þegar hún sá að hún ætti ekki efni á skólagöngunni fyrir soninn.
„Ég vil ekki að börnunum mínum sé kalt og þau séu óhamingjusöm og ég vil gefa þeim góðan mat, þótt ég geti ekki leyft mér að kaupa fisk og lambakjöt. Ef þú borðar ekki hollan mat, þá veikist þú, og það kostar að verða veikur, þú missir vinnu og laun og það fer allt á hvolf heima við.“