fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dýrustu og ódýrustu þingmennirnir

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. október 2018 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konur á þingi eru dýrari en karlar. Þetta má sjá á útgefnum tölum um laun og aðrar kostnaðargreiðslur til alþingismanna fyrir fyrstu sjö mánuði ársins. Mikil umræða hefur verið um laun þingmanna og annarra embættismanna að undanförnu enda hafa þeir fengið ríflegri hækkanir en flestir aðrir launþegar og hefur það valdið töluverðri ólgu á vinnumarkaði.

DV rýndi í tölurnar til að sjá hverjir væru dýrustu og ódýrustu þingmennirnir, dýrustu og ódýrustu flokkarnir, muninn á stjórn og stjórnarandstöðu, pólitískum skoðunum og kynjunum.

Steingrímur J. Sigfússon

Dýrustu þingmennirnir

  1. Steingrímur J. Sigfússon – 15.637.222 kr.
  2. Logi Einarsson – 15.179.363 kr.
  3. Ásmundur Einar Daðason – 14.459.034 kr.

Þegar DV gerði úttekt fyrr á árinu voru þessir þrír í sömu sætum. Þingforsetinn Steingrímur sem hefur setið á þingi síðan árið 1983 og gegnt flestum ráðherraembættum á ferli sínum. Steingrímur er með sömu föstu laun og ráðherrarnir en fær auk þess greiðslur fyrir að halda heimili í Þistilfirði. Hann hefur þó búið í Seljahverfinu í Reykjavík í minnst 30 ár.

Logi Einarsson, hjá Samfylkingu, fær 550 þúsund krónur ofan á þingfararkaupið fyrir að vera formaður í stjórnarandstöðuflokki. Auk þess heldur hann heimili á Akureyri og er í næstefsta sæti í föstum mánaðarlegum greiðslum og hefur verið í efra laginu á listanum yfir aðrar greiðslur.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmála- og nýskipaður barnamálaráðherra, vermir þriðja sætið á listanum. Hann er bæði ráðherra og landsbyggðarþingmaður og þiggur því greiðslur fyrir að halda heimili í Dalasýslu. Að miklu leyti er annar kostnaður ráðherra á huldu en það sem fleytir Ásmundi svo hátt eru tæplega 400 þúsund króna aukagreiðslur frá Alþingi sem er mun meira en aðrir ráðherrar fá, en flestir þeirra eru með engar.

Ódýrustu þingmennirnir

  1. Helgi Hrafn Gunnarsson – 7.825.283 kr.
  2. Björn Leví Gunnarsson – 8.261.657 kr.
  3. Guðmundur Ingi Kristinsson – 8.263.863 kr.

Píratinn Helgi Hrafn var í fimmta sæti yfir ódýrustu þingmennina þegar DV gerði sambærilegan lista fyrr á árinu. Hefur hann því hert sultarólina vel í sumar og lítið ferðast.

Sömu sögu má segja um félaga hans, Björn Leví, sem hækkar úr þriðja sæti í annað á listanum yfir ódýra þingmenn. Líkt og Helgi er Björn Reykjavíkurþingmaður sem ferðast lítið, eða að minnsta kosti lítið á kostnað Alþingis.

Guðmundur Ingi hjá Flokki fólksins var efstur á listanum í vor en hrapar nú niður í bronssætið. Guðmundur er þó langt því frá að vera eyðslukló. Sem dæmi um útsjónarsemi Guðmundar má sjá á vef Alþingis að hann tók innanlandsflug fyrir 905 krónur. Annaðhvort var þetta stysta flug sögunnar eða þá að hann hefur náð að prútta vel fyrir Íslands hönd.

 

Dýrasti þingflokkurinn

  1. Framsóknarflokkurinn – 12.336.217 kr. að meðaltali
  2. Vinstri græn – 11.622.957 kr.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn – 11.381.963 kr.
  4. Samfylkingin – 11.130.111 kr.

Framsóknarmenn eru dýrustu þingmennirnir og kostuðu þeir tæpar 99 milljónir þrátt fyrir að vera aðeins átta talsins. Vega þar landsbyggðarþingmennirnir þungt sem og þrír ráðherrar flokksins. Eini þingmaður flokksins í Reykjavík er einmitt Lilja Dögg menntamálaráðherra.

Vinstri græn eiga dýrasta þingmanninn, þingforsetann Steingrím J. Sigfússon, og þrjá ráðherra. Einn þeirra er Katrín Jakobsdóttir sem er með hærri grunnlaun en aðrir ráðherrar. Ástæðan fyrir því að flokkurinn er ekki efstur er þrír Reykjavíkurþingmenn í ódýrari kantinum.

Litlu munar á meðaltölum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þrátt fyrir að hinn fyrrnefndi eigi fimm ráðherra. Hafa verður þó í huga að aðrir kostnaðarliðir ráðherra en grunnlaun eru ekki inni í þessum tölum.

Ódýrasti þingflokkurinn

  1. Píratar – 9.004.795 kr. að meðaltali
  2. Viðreisn – 9.690.662 kr.
  3. Flokkur fólksins – 10.169.925 kr.
  4. Miðflokkurinn – 10.732.059 kr.

Píratar eru langódýrustu þingmennirnir. Helsta ástæðan fyrir því er sú að flestir þeirra koma frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig eru þeir formannslausir og enginn þeirra fær því sérstakt formannsálag í stjórnarandstöðu. Píratar eiga tvo ódýrustu þingmennina, þá Helga Hrafn Gunnarsson og Björn Leví Gunnarsson.

Viðreisn er með lægstan heildarkostnað þingflokka, aðeins tæplega 39 milljónir. Þau eru aðeins fjögur talsins. Eftir kosningarnar árið 2017 missti flokkurinn alla landsbyggðarþingmenn sína en hélt stöðu sinni ágætlega á höfuðborgarsvæðinu. Formaðurinn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hífir meðaltalið hins vegar þónokkuð upp.

Flokkur fólksins er einnig aðeins fjögurra þingmanna flokkur en þingmennirnir dreifast nokkuð jafn yfir heildarlistann. Formaðurinn, Inga Sæland, er í dýrari kantinum en Guðmundur Ingi Kristinsson er með þeim ódýrustu. Miðflokkurinn er merkilega lágur þrátt fyrir sterka stöðu á landsbyggðinni og eru allir þingmenn flokksins á svipuðum slóðum á listanum fyrir utan formanninn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Stjórn og stjórnarandstaða

Ríkisstjórn – 420.276.633 kr. (11.674.350 að meðaltali)

Stjórnarandstaða – 286.506.318 kr. (10.323.368)

Munurinn á stjórnarþingmanni og stjórnarandstöðuþingmanni er um 1,3 milljónir á þessum sjö mánuðum sem Alþingi hefur gefið út tölur fyrir. Skipta laun ellefu ráðherra þar miklu og auk þess verður að hafa í huga að Vinstri græn skipuðu umhverfisráðherrann, Guðmund Inga Guðbrandsson, en hann er ekki kjörinn alþingismaður. Laun hans eru því viðbótarkostnaður sem ellegar hefði ekki verið til staðar. Einnig verður að hafa í huga að allir stjórnarflokkarnir þrír eru með sterka stöðu á landsbyggðinni á meðan andstöðuflokkarnir eru heilt yfir sterkari á höfuðborgarsvæðinu.

 

Stjórnmálaskoðanir

Hægrimenn – 220.874.063 kr. (11.043.703 að meðaltali)

Miðjumenn – 214.493.855 kr. (11.289.150)

Vinstrimenn – 271.415.033 kr. (10.856.601)

Ef þingheimi er skipt niður í blokkir kemur í ljós að mjög lítill munur er á milli þeirra. Sjálfstæðismenn og Viðreisn eru til hægri, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins í miðjunni og Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar mynda vinstri blokkina.

 

Kynin

Karlar – 424.172.584 kr. (10.604.314 að meðaltali)

Konur – 282.610.367 kr. (11.775.431)

Kosningarnar haustið 2017 voru taldar mikið bakslag í kvenréttindabaráttunni en þá fækkaði konum á Alþingi úr 30 niður í 24. Körlum fjölgaði hins vegar úr 33 í 39 og í þessum tölum er einnig talinn með karlkyns utanþingsráðherra. Engu að síður eru þingkonur umtalsvert launahærri en starfsbræður þeirra og er munurinn rúmlega 1,1 milljón á sjö mánaða tímabili. Hluti af því er til kominn vegna þess að fimm af ellefu ráðherrum eru konur, sem er hlutfallslega hærra hlutfall en hjá karlpeningnum, og fimm af átta þingflokksformönnum eru konur. Af tuttugu ódýrustu þingmönnunum eru aðeins þrjár konur.

 

Smári McCarthy þingmaður Pírata. Mynd/Sigtryggur Ari

Reglurnar endurspegla ekki raunveruleikann

Þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum þremur fá greiddar fastan húsnæðis- og dvalarkostnað en þingmenn á höfuðborgarsvæðinu fá hann ekki. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, hefur áður sagt við DV að landsbyggðarþingmenn geti ekki afþakkað þessar sporslur, þeir yrðu að taka við þeim. Lögheimilið skipti engu máli í því sambandi og hvort þingmennirnir héldu heimili í kjördæminu.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, er einn af þeim sem fá slíkar greiðslur en hann er þingmaður Suðurkjördæmis. Smári býr við Hringbrautina í Reykjavík og heldur ekki annað heimili í kjördæmi sínu. Fær hann um 134 þúsund krónur á mánuði vegna þessa. Í samtali við DV segir hann:

„Mér hefur fundist þetta frekar asnalegt og í rauninni ósanngjarnt. Það er ekkert dýrara fyrir mig að búa í bænum heldur en Reykjavíkurþingmenn. Það eru tilfelli þar sem þingmenn halda úti tveimur heimilum og í þeim tilfellum kannski í lagi að styðja þá. Sumir búa fyrir norðan en eru með litla íbúð í Reykjavík á meðan þingið stendur yfir. En ég bý ekki við slíkar aðstæður og það tekur mig engan tíma að keyra út í kjördæmi.“

Er þetta ekki bruðl með almannafé?

„Ég veit ekki hvort að bruðl sé rétta orðið. En reglurnar eru aðeins of stífar og settar fram á forsendum sem eiga ekki við. Ég skil að það séu gerðar reglur í kringum þetta til að koma til móts við mismunandi þarfir en þær þurfa að endurspegla raunveruleikann.“

Hefur þú reynt að hafna þessum greiðslum?

„Ég spurði út í þetta á sínum tíma, með það í huga hvort ég gæti hafnað þessu. En ég hef ekki sagt við skrifstofu Alþingis að ég vilji losna við þetta. Aðallega út af svarinu sem ég fékk.“

Frægt er orðið að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ákvað að gefa 300 þúsund krónur af sínum launum til góðgerðarmála frá nóvembermánuði árið 2016 þegar kjararáð tilkynnti um ríflega launahækkun til embættismanna. „Ég bað ekki um þessa launahækkun,“ sagði Guðni í yfirlýsingu og hlaut mikið lof fyrir.

Smári segist gefa til góðgerðarmála.

„Ég hef ekki farið hátt með það. Ég styrki mánaðarlega ákveðið sett af góðgerðarsamtökum og einnig frjálsa fjölmiðla, innlenda og erlenda.“

Notar þú allan þennan pening í það?

„Nei, það er misjafnt. Sumt er fast en annað endrum og eins.“

 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Gefur mikið til góðgerðarmála

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt í tengslum við laun þingmanna er sérstakt álag formanna flokka sem ekki sitja í ríkisstjórn. Er það hálft þingfararkaup sem gerir 550 þúsund krónur á mánuði árið 2018. Greiðslurnar hafa hækkað mikið á undanförnum árum vegna ákvarðana kjararáðs um þingfararkaupið.

Reglurnar voru settar í desember árið 2003, í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, og var ætlað að jafna aðstöðumun ráðherra og stjórnarandstöðuformanna. Þetta var harðlega gagnrýnt þegar reglurnar voru settar og er umtalað enn í dag. Sem dæmi má nefna að Katrín Jakobsdóttir hefur fengið 21,6 milljónir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 18,6 milljónir og Steingrímur J. Sigfússon tæpar 15 milljónir í slíkum greiðslum.

Fjórir formenn hafa fengið þessar greiðslur árið 2018. Þeir eru Logi Einarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Píratar kasta teningi á hverju ári um hver þeirra verður skráður formaður hjá þinginu. Það er gert til að fá aðstoðarmann og ritara fyrir þingflokkinn en skráður formaður er skilyrði fyrir því. Píratar þiggja hins vegar ekki formannsálagið því ólíkt húsnæðisgreiðslunum er hægt að afþakka það. Logi Einarsson segir um þessar greiðslur:

„Það er vel í lagt og mín vegna mætti breyta þessu. Flokkarnir gætu þá komið sér saman um það. Þetta var gert á sínum tíma, löngu áður en ég byrjaði á þingi, til að jafna aðstöðumun en ég myndi ekki gera neinar athugasemdir ef það yrði farið yfir öll launamálin og tel raunar að það sé nauðsynlegt til að ná sáttum í samfélaginu.“

Logi segist ekki hafa myndað sér skoðun á því hvort það sé eðlilegt að Alþingi og þá ríkissjóður greiði formannslaun stjórnmálaflokka.

„Ég gef mikið til góðgerðarmála eins og ég held að mörg okkar sem eru aflögufær geri. En ég held þeirri skrá fyrir mig. Ég held að það verði að ræða þetta mál í víðu samhengi án þess að hver og einn þingmaður sé að taka ákvörðun um slíkt. Við þurfum að ná saman um hver laun kjörinna fulltrúa eiga að vera.“

Er þetta ekki farið að valda hita á vinnumarkaði?

„Jú, og ég skil það vel. Samfylkingin studdi tillögu Pírata í vor um að lækka laun þingmanna. Til þess einmitt að geta brugðist við þeirri óánægju sem eðlilega er uppi í samfélaginu. Við erum tilbúin til að skoða þá hluti sem að okkur snúa.“

 

 

Heildarlisti þingmanna og ráðherra

  1. Steingrímur J. Sigfússon  Vinstri græn    15.637.222
  2. Logi Einarsson  Samfylking  15.179.363
  3. Ásmundur Einar Daðason Framsóknarflokkur 14. 459.034
  4. Katrín Jakobsdóttir Vinstri græn 14.435.124
  5. Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokkur 14.377.510
  6. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Sjálfstæðisflokkur 14.002.198
  7. Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokkur 14.002.198
  8. Þórunn Egilsdóttir Framsóknarflokkur 13.972.519
  9. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn 13.322.034
  10. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri græn 13.255.838
  11. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokkur 13.249.600
  12. Svandís Svavarsdóttir Vinstri græn 13.063.911
  13. Sigríður Á. Andersen Sjálfstæðisflokkur 13.063.911
  14. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Framsóknarflokkur 13.063.911
  15. Guðmundur Ingi Guðbrandsson Vinstri græn 13.063.911
  16. Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokkur 13.063.911
  17. Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokkur 13.063.911
  18. Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri græn 12.959.963
  19. Inga Sæland Flokkur fólksins 12.801.333
  20. Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokkur 12.185.494
  21. Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokkur 12.080.111
  22. Guðjón S. Brjánsson Samfylking 11.669.770
  23. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir Samfylking 11.662.298
  24. Páll Magnússon Sjálfstæðisflokkur 11.466.214
  25. Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokkur 11.251.296
  26. Anna Kolbrún Árnadóttir Miðflokkur 11.225.268
  27. Oddný G. Harðardóttir Samfylking 11.149.100
  28. Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokkur 10.813.324
  29. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Píratar 10.781.323
  30. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Sjálfstæðisflokkur 10.772.125
  31. Rósa Björk Brynjólfsdóttir Vinstri græn 10.749.814
  32. Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokkur 10.571.155
  33. Sigurður Páll Jónsson Miðflokkur 10.525.785
  34. Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokkur 10.472.731
  35. Birgir Þórarinsson Miðflokkur 10.376.538
  36. Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokkur 10.319.996
  37. Gunnar Bragi Sveinsson Miðflokkur 10.315.262
  38. Smári McCarthy Píratar 10.182.448
  39. Brynjar Níelsson Sjálfstæðisflokkur 10.072.916
  40. Ólafur Ísleifsson Flokkur fólksins 10.061.177
  41. Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokkur 10.042.117
  42. Ari Trausti Guðmundsson Vinstri græn 10.015.266
  43. Þorsteinn Sæmundsson Miðflokkur 9.837.736
  44. Hanna Katrín Friðriksson Viðreisn 9.767.694
  45. Helga Vala Helgadóttir Samfylking 9.674.657
  46. Jón Þór Ólafsson Píratar 9.610.310
  47. Bergþór Ólason Miðflokkur 9.594.227
  48. Karl Gauti Hjaltason Flokkur fólksins 9.553.329
  49. Birgir Ármannsson Sjálfstæðisflokkur 9.534.481
  50. Ólafur Þór Gunnarsson Vinstri græn 9.497.046
  51. Willum Þór Þórsson Framsóknarflokkur 9.435.289
  52. Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokkur 9.380.060
  53. Halldóra Mogensen Píratar 9.367.751
  54. Guðmundur Andri Thorsson Samfylking 9.364.614
  55. Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokkur 9.334.737
  56. Ágúst Ólafur Ágústsson Samfylking  9.210.975
  57. Steinunn Þóra Árnadóttir Vinstri græn 9.192.554
  58. Kolbeinn Óttarsson Proppé Vinstri græn 9.154.278
  59. Þorsteinn Víglundsson Viðreisn 9.044.775
  60. Andrés Ingi Jónsson Vinstri græn 8.450.557
  61. Jón Steindór Valdimarsson Viðreisn 8.428.148
  62. Guðmundur Ingi Kristinsson Flokkur fólksins 8.263.863
  63. Björn Leví Gunnarsson Píratar 8.261.657
  64. Helgi Hrafn Gunnarsson Píratar 7.825.283
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus