Óhætt er að segja að myndband Heiðrúnar Birnu Rúnarsdóttur af ormi, sem hún heldur fram að hafi leynst í hamborgara frá veitingastaðnum Aktu Taktu, hafi farið sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring.
Í myndbandinu, sem er 17 sekúndur að lengd, tilkynnir Heiðrún Birna áhorfendum að hún hafi fundið orm í hamborgaranum sínum. Síðan kúgast hún og vísar síðan myndavélinni að ormi sem liggur hreyfingalaus á jörðinni. Um 18 þúsund manns hafa horft á myndbandið þegar þessi orð eru rituð.
Í samtali við DV segir Heiðrún Birna að hún hafi tilkynnt atvikið til Heilbrigðiseftirlitisins og hún voni að engin lendi í svipuðu atviki: „Þetta var ógeðslegt. Ég fann strax að kjötið var ekki eins og það átti að vera. Ormurinn datt síðan í kjöltuna á mér,“ segir Heiðrún Birna. Hún segist hafa pantað sér hamborgara bara með kjöti og því hljóti kvikindið að hafa leynst í kjötinu. Eftir að hafa myndað dýrið henti hún því.
Að sögn Heiðrúnar Birnu átti atvikið stað aðfaranótt sunnudagsins 4.mars. Hún hafi síðan sent Foodco hf. myndbandið í byrjun næstu viku. Hún segist að mörgu leyti vera ánægð með viðbrögð fyrirtækisins, sem á og rekur Aktu Taktu veitingastaðina. Hún fékk gjafabréf á annan veitingastað í eigu fyrirtækisins en þjónustan hafi ekki verið uppá marga fiska. „Ég hef ekki lyst á að borða á Aktu Taktu aftur,“ segir Heiðrún Birna.
Í samtali við DV segir Ásta Sveinsdóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Foodco hf., aldrei hafa heyrt af sambærilegu atviki á átta ára ferli. „Við tökum öllum ábendingum mjög alvarlega og brugðumst strax við með því að bjóða viðskiptavininum gjafabréf í skaðabætur. Gæðastjóri fyrirtækisins fór samstundis yfir alla verkferla auk þess að hafa strax samband við okkar birgja,“ segir Ásta.
Hún segir að fyrirtækið taki gæðamál afar alvarlega og vilji komast til botns í hvað þarna gæti hafa gerst. „Við seljum gríðarlegt magn af hamborgurum á hverjum og erum, eins og allir aðrir veitingastaðir, undir ströngu eftirliti hjá opinberum aðilum. Við viljum rannsaka þetta mál ítarlega og því var óheppilegt að við fengum ekki að sjá orminn,“ segir Ásta. Hún segir einkennilegt að ormurinn hafi virst heillegur enda er allt kjöt hakkað og síðan steikt á pönnu.
„Við höfum ekkert heyrt frá Heilbrigðiseftirlitinu vegna málsins,“ segir Ásta.