fbpx
Föstudagur 08.desember 2023

Skagfirskar rætur Ronalds Reagan – Launsyni komið í fóstur – Kirkjubækur lokaðar

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 22. júní 2019 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá orðrómur að Ronald Reagan hafi verið af íslenskum ættum, eða nánar tiltekið af skagfirskum ættum, komst reglulega í umræðuna á síðustu öld. Til dæmis í kringum leiðtogafundinn í Höfða árið 1986. En ekkert fékkst staðfest í þeim efnum. Orðrómurinn var ekki úr lausu lofti gripinn heldur sneri hann að faðerni Reagan. Það er að hann væri hugsanlega launsonur Íslendings sem flutti vestur og lék í Hollywood-vestrum, líkt og Reagan sjálfur gerði.

Leikarinn sem varð forseti

Ronald Reagan þarf varla að kynna. Hann var einn af áhrifamestu forsetum Bandaríkjanna á síðustu öld og sat í embætti árin 1981 til 1989. Hann er talinn helsti hvatamaður að nýfrjálshyggjubylgjunni á níunda áratugnum ásamt Margréti Thatcher, forsætisráðherra Bretlands. Haft var á orði að hann hafi síðustu embættisár sín verið með Alzheimer’s sjúkdóminn og aðrir í raun stjórnað bak við tjöldin.

Áður en Reagan var kjörinn forseti var hann ríkisstjóri Kaliforníufylkis, árin 1967 til 1975. Þar áður var hann Hollywood-leikari um áratuga skeið. Hann lék í mörgum svokölluðum B-kvikmyndum og vestrum og þótti sjálfur ekki besti leikarinn en hann náði samt töluverðri frægð á því sviði. Auk þess var hann giftur Óskarsverðlaunaleikkonunni Jane Wyman, áður en hann giftist Nancy Reagan sem sat sem fyrsta frú.

Bill Cody
Vestur-íslensk Hollywoodstjarna.

Bill Cody

Faðir Ronalds Reagan, að minnsta kosti á pappírunum, var maður að nafni Jack Reagan. Hann var farandssölumaður og starfaði einnig í verslun í bænum Tampico í Illinois-fylki. Jack lést aðeins 57 ára gamall árið 1941 úr hjartaáfalli. Móðir Ronald hét Nelle Wilson, kirkjurækin húsmóðir, sem lést árið 1962. Jack, Nelle og synir þeirra þrír fluttu oft vegna starfa Jack og voru ekki mjög efnuð. Þau voru bæði af írskum ættum.

Inn í söguna kemur maður að nafni Bill Cody. Nánar tiltekið William Joseph Cody Jr. Enn nánar tiltekið Páll Pálsson Walters. Cody var líkt og Ronald B-myndaleikari í Hollywood. Hann hóf feril sinn árið 1922 sem áhættuleikari og fékk fastan samning hjá fyrirtækinu Independent Pictures árið 1924.

Cody lék mestmegnis í vestrum, bæði þöglum og eftir að hljóðmyndir komu til sögunnar. Á fjórða áratugnum hóf hann að ferðast um og skemmta á ródeóhátíðum víðs vegar um Ameríku.

Ekki er mikið vitað um æsku Cody en hann var sonur hjónanna Páls Valdimars Eiríkssonar og Bjargar Jónsdóttur úr Skagafirði. Þau fluttu til Kanada árið 1887 eins og svo margir Íslendingar og tóku upp ensk nöfn. Páll tók upp nafnið Páll Walters en hann dó árið 1891, aðeins hálfu ári eftir að Cody, eða Páll Pálsson Walters, fæddist í Winnipeg-borg.

Viðtal Halldórs Laxness

Íslendingar sýndu hinum Vestur-Íslenska kúreka nokkurn áhuga og sjálfur Halldór Laxness tók við hann viðtal fyrir Morgunblaðið árið 1927. Þar sagði:

„Af öllu því merkilega fólki, sem jeg hefi kynst síðustu vikurnar, var mjer einna furðulegast við að kynnast Bill Cody. Hann er heimsfrægasti kúreki (Cowboy). Jeg minnist þess að hafa sjeð hann nokkrum sinnum á ljereftinu með langa keyrið sitt og barðastóra kúfinn, bæði í Evrópu og hjer í Ameríku. Hann er hár og grannur, ljóshærður og drengilegur, og bros hans mjög heillandi.“

Cody tjáði Halldóri að hann hefði kastað sínu íslenska nafni af „verslunarástæðum“, það er til að líkja eftir hinum fræga Buffalo Bill. Hann væri siðprúður og reykti hvorki né drykki. Vinsæll var hann mjög og fékk tugi sendibréfa á degi hverjum, frá öllum heimshornum. Bæði aðdáunarbréf frá strákum sem vildu vera eins og hann og ástarbréf frá stúlkum.

„Talið barst að Íslandi. Cody hefir lagt stund á að kynna sjer bæði fornsögunar og íslenskar þjóðsögur. Einkum er hann hrifinn af þjóðsögum okkar og æfintýrum. Jeg er ákveðinn í því að skreppa til Íslands innan skams, til þess að safna mer efniviði í nýjar myndir, sagði Cody.“

Cody hafði hins vegar komið áður til Íslands, þegar hann var sjö ára gamall. Þá dvaldi hann á Húsabakka við Sauðárkrók. Þar lærði hann að sitja hest, sem kom sér vel síðar á lífsleiðinni. Hann kunni þó ekki tungumálið nema eitt orð, harðfiskur.

B-myndastjarna
Samkvæmt orðrómnum kom Bill Cody syni sínum á framfæri.

Launsyni komið í fóstur

Cody var giftur konu að nafni Regina og áttu þau saman tvo syni. Í byggðum Íslendinga í Vesturheimi gekk sá orðrómur að Cody ætti launson, og að sá sonur væri Ronald Reagan. En Cody var vel þekktur á meðal Vestur-Íslendinga. Sögunni fylgdi ekki að Cody hefði átt vingott við Nelle, eiginkonu Jack Reagan heldur að Cody hefði átt soninn með óþekktri konu og komið honum í fóstur til Reagan-hjónanna. Einn af þeim sem hélt þessu fram var Vestur-Íslendingur og ræðismaður að nafni Andrés Oddstad. Árið 1964 sagðist hann hafa vitneskju um þetta og að hann hefði fengið hana beint frá Jack og Nellie Reagan.

Þegar Reagan sjálfur var síðan að hefja sín spor í Hollywood sem leikari snemma á fjórða áratugnum, þá hafi Bill Cody komið honum á framfæri og aðstoðað hann við að fá störf. Líkt og Cody voru fyrstu hlutverk Reagan í vestrum og B-myndum. Kvikmyndaferlar Reagan og Cody voru í raun ekki ósvipaðir.

Leiðtogafundur í Höfða
Mikhail Gorbachev og Ronald Reagan.

Lokaðar kirkjubækur

Orðrómurinn barst yfir hafið og til Íslands og var hann reglulega rifjaður upp í dagblöðunum. Sér í lagi í tengslum við leiðtogafund Reagans og Mikhail Gorbachev í Höfða árið 1986. Það ýtti undir kenninguna að kirkjubækur, sem geyma allar upplýsingar um uppruna Bandaríkjaforseta, voru lokaðar samkvæmt fyrirmælum frá forsetaskrifstofunni. Ættfræðingar hafa reynt að komast í þessar upplýsingar en ávallt komið að lokuðum dyrunum. Þar á meðal Jón Gíslason, sagnfræðingur og formaður Ættfræðifélagsins.

Reagan sjálfur hampaði sinni írsku arfleið, enda var það mjög vinsælt. Milljónir Íra fluttu vestur um haf á nítjándu öld og tugir milljóna Bandaríkjamanna geta rakið ættir sínar aftur til eyjunnar grænu. Vestur-Íslendingar eru langtum færri og búa flestir í Kanada. Þar að auki hefðu upplýsingarnar um að Reagan væri lausaleiksbarn ekki fallið vel í kramið hjá kjósendahópi Repúblíkanaflokksins, þar sem hefðbundin fjölskyldugildi ríkja.

Ytra hefur lítið verið fjallað um þennan orðróm og þar almennt viðurkennt að Reagan sé sonur skráðra foreldra sinna. En þegar Reagan tilkynnti um forsetaframboð sitt var lesin upp frétt í útvarpinu þess efnis að hann ætti íslenskan föður. Fljótlega var sú frétt hins vegar dregin til baka. Óvíst er hvort að forsetinn verðandi hafi sjálfur átt þar hlut að máli.

Haukur Matthíasson
Íslenskur tvífari Ronalds Reagan.

Íslenskur tvífari

Orðrómurinn um ætterni Reagan fékk byr undir báða vængi þegar grein um íslenskan tvífara hans birtist í DV í október árið 1986. Það var Haukur Matthíasson, lögregluvarðstjóri í Reykjavík, sem um ræddi og líkindin voru hreint lygileg. Haukur sagði sjálfur að fólk sneri sér við á götum úti þegar hann gengi fram hjá, enda hélt það að forsetinn sjálfur væri á ferð.

„Ég neita því ekki, það hefur verið minnst á þetta við mig. Sjálfum finnst mér ég ekkert líkur Bandaríkjaforseta,“ sagði Haukur sem búsettur var í Fossvoginum.

Það er á huldu hvort hægt sé að rekja ættir þeirra Reagan og Hauks saman. En í greininni kom fram að Haukur væri ættaður frá Vestfjörðum en ekki úr Skagafirðinum. Uppalinn á Patreksfirði.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Landsréttur mildaði dóm yfir Fjölni vegna nauðgunar frá árinu 2015

Landsréttur mildaði dóm yfir Fjölni vegna nauðgunar frá árinu 2015
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Þetta eru ákvæðin sem voru felld úr siðareglum ráðherra

Þetta eru ákvæðin sem voru felld úr siðareglum ráðherra
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Fundur í Dortmund í dag – Sancho gæti farið í skiptum fyrir kantmann Dortmund

Fundur í Dortmund í dag – Sancho gæti farið í skiptum fyrir kantmann Dortmund
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – „Láta kné fylgja kviði“

Langskotið og dauðafærið – „Láta kné fylgja kviði“
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Sævar birtir dásamlega mynd: Sést aftur á morgun en svo ekki fyrr en 2025

Sævar birtir dásamlega mynd: Sést aftur á morgun en svo ekki fyrr en 2025
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Veðurfréttakona svaraði ljótum skilaboðum í beinni

Veðurfréttakona svaraði ljótum skilaboðum í beinni
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Harry Maguire og Ten Hag bestir í ensku úrvalsdeildinni

Harry Maguire og Ten Hag bestir í ensku úrvalsdeildinni
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Sonur Bandaríkjaforseta á yfir höfði sér 17 ára fangelsi

Sonur Bandaríkjaforseta á yfir höfði sér 17 ára fangelsi