fbpx
Þriðjudagur 25.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Berklasjúklingar voru taldir vera vampírur

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 7. september 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýja-England er án nokkurs vafa sá staður í Bandaríkjunum þar sem hið óskýrða og undarlega hefur átt stærstan sess. Þar var réttað yfir nornum á sautjándu öld, Lizzie Borden var grunuð um axarmorð og H.P. Lovecraft bjó til undraheim guða og djöfla. Ógrynni af sögum um vatnaverur, hauslausa ára og skrímsli hefur verið til á svæðinu frá því að enskir púrítanar sigldu þangað fyrir röskum fjórum öldum. Nýja-England var því kjörinn vettvangur fyrir vampíruhræðslu á nítjándu öld.

Berklafaraldur

Berklar eru bakteríusýking sem fylgt hefur mannkyninu síðan í fornöld og útbreiðsla þeirra hefur riðið yfir í bylgjum. Í kjölfar iðnbyltingarinnar á nítjándu öld urðu berklar að mannskæðum faraldri í Evrópu og Ameríku og flest fórnarlömbin voru fátækt fólk. Í Evrópu var fjórða hvert dauðsfall af völdum berkla.

Á þeim árum var sjúkdómurinn kallaður tæring og fólk hafði ekki þá læknisfræðilegu þekkingu til að skilja orsakir hans og útbreiðslu. Sjúklingarnir virtust einfaldlega tærast upp. Oft kom það fyrir að heilu fjölskyldurnar sýktust og aðeins einn fjölskyldumeðlimur lést. Hinir lifðu af en glötuðu heilsunni og mörgum fannst þetta grunsamlegt, sérstaklega íbúum Nýja-Englands. Fólk taldi því að hinn látni sogaði til sín lífsorkuna úr eftirlifendum.

Líffæri fjarlægð og reyknum andað inn

Í dagblöðum var því slegið upp að látnir berklasjúklingar væru í raun og veru vampírur en það hugtak hafði ekki sömu meiningu og í nútímanum. Fólk taldi ekki að þessar vampírur risu úr gröfum sínum og bitu fórnarlömb líkt og Drakúla greifi heldur soguðu þær lífsorkuna til sín úr gröfinni.

Til að verjast þessum vampírum voru þær grafnar upp og líkin grandskoðuð. Ef líkið var tiltölulega ferskt og jafnvel enn þá blóðleifar í hjartanu var um vampíru að ræða. En hvernig átti að stöðva slíka ófreskju? Að minnsta kosti ekki með því að reka viðarstiku í gegnum hjartað en það voru til aðrar leiðir.

Stundum var vampírunni einfaldlega snúið við í gröfinni og átti það að stöðva árásirnar. Ef það virkaði ekki þá voru heilu líffærin fjarlægð og brennd og önduðu berklasjúkir ættingjar þar reyknum að sér til að endurheimta orkuna. Stundum virkaði að afhöfða vampíruna rétt eins og í nútíma vampírubókmenntum.

Sagan af Mercy Brown

Eitt umtalaðasta vampírumálið í Nýja-Englandi átti sér stað í bænum Exeter í Rhode Island fylki árið 1892. Þar bjó Brown-fjölskyldan sem hafði lent illa í berklafaraldrinum um langt skeið. Móðirin Mary lést fyrst og dæturnar, Mary Olive og Mercy, í kjölfarið. Þegar sonurinn Edwin sýktist var talið að látnu fjölskyldumeðlimirnir væru að soga til sín lífsorkuna.

Þann 17. mars árið 1892 samþykkti faðirinn George að líkin skyldu grafin upp og fylgdust bæjarbúar, blaðamenn og læknir með uppgreftrinum. Lík Mary og Mary Olive voru rotin og þeim því ekki kennt um heilsubrest Edwins. En Mercy hafði ekki enn verið grafin í jörðu heldur var hún geymd ofanjarðar í hvelfingu og í líffærum hennar fannst rennandi blóð. Ekki var horft til þess að mjög kalt var ofanjarðar og þess vegna hafði lík hennar varðveist betur.

Mercy var úrskurðuð vampíra og hjarta hennar fjarlægt og brennt. Öskunni var síðan blandað við vatn sem Edwin var látinn drekka til að ná heilsu sinni aftur. Edwin lést hins vegar tveimur mánuðum síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af