fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN: Tugir drukknuðu í karamelluflóðbylgju þegar allt sprakk

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. júní 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 15. janúar árið 1919 varð óvanalegt slys í rommverksmiðju í Boston. 21 lést og 150 slösuðust þegar stór geymslutankur sprakk í loft upp og flóðbylgja sykurþykknis rann eftir nálægum götum.

Átta metra há bylgja

Slysið gerðist í norðurhluta borgarinnar, á svæði bruggverksmiðjunnar Purity Distilling Company við höfnina. Tankurinn var fimmtán metra hár og 27 metrar í þvermál og í honum voru geymdar 2,3 milljónir gallona af sykurþykkni til rommframleiðslu.

Mikið frost hafði verið fyrstu dagana í janúar en síðan snögghitnaði og þennan dag var hitinn fjórar gráður á Celsíus.

Klukkan 12.30 heyrði fólk í nágrenninu háværan dynk og fann jörðina nötra. Hávaðinn sem fylgdi í kjölfarið var líkt og eimreið væri á leið í áttina að fólkinu.

Hitabreytingarnar höfðu valdið því að tankurinn gaf sig, brotnaði og sprakk í tætlur og út úr svæði verksmiðjunnar streymdi æðandi karamelluflóð, átta metra hátt.

Flóðið skall á járnbrautarlest og ýtti henni af sporinu og felldi einnig upphækkaða járnbrautarteina. Nærliggjandi hús urðu í vegi flóðsins, rifnuðu upp með grunni og méluðust.

Fólk varð fyrir flóðinu í hundraða tali og vinnuhestar einnig. Það lyftist marga metra upp í lofti og þeyttist út í buskann.

Karamellukviksyndi

Þegar flóðbylgjan hafði runnið sitt skeið var svæðið undirlagt karamellu sem náði fólki upp að mitti og dísæt lykt í loftinu.

Í Boston Post sagði:

„Hér og þar virtist vera eitthvert form af lífverum, hvort það voru dýr eða menn var ómögulegt að segja. Hrossin drápust eins og flugur á flugnapappír. Eftir því sem þeir börðust um, því dýpra í glundrið sukku þeir. Menn og konur þjáðust einnig.“

Alls lést 21 og 150 manns slösuðust og fjölmargir þjáðust af miklum hóstaköstum eftir sprenginguna. Ungur drengur, Anthony di Stasio, var einn af þeim sem lentu í flóðinu.

Hann var á leið heim úr skólanum með systrum sínum þegar bylgjan greip hann og lyfti eins og smásteini. Það var líkt og hann væri á brimbretti.

Þegar ölduna lægði kom móðir hans aðvífandi en hann gat ekki svarað henni, því öndunarvegurinn var fullur af karamellu. Hann var að kafna og það leið yfir hann. Þegar hann rankaði úr rotinu stóðu systur hans þrjár yfir honum.

Klístrið alls staðar

Herskipið USS Nantucket var í höfninni og sjóliðar flýttu sér á staðinn til að taka þátt í björgunaraðgerðunum. Sumir reyndu að halda forvitnum vegfarendum fjarri en aðrir óðu út í klístrið til að bjarga fólki.

Lögreglan, Rauði krossinn og landherinn komu einnig til aðstoðar og sumar hjúkrunarkonurnar stungu sér í sykurleðjuna. Spítalinn réð ekki við þennan fjölda og setja þurfti upp sérstakt neyðarskýli til að taka á móti slösuðum en erfitt var að komast um vegna karamellu.

Í fjóra daga var leitað að fórnarlömbunum og erfitt reyndist að greina sum líkin vegna gljáans. Það tók margar vikur að hreinsa göturnar og meira en 300 manns tóku þátt í því.

Notaður var slökkviliðsbátur til að sprauta sjó á karamelluna til að leysa hana upp en einnig sandur til að reyna að draga sykurinn í sig. Klístrið var í öllum krókum og kimum á stóru svæði, inni í bílum, heimilum, lestum, götusímum. Alls staðar.

Verksmiðjan bótaskyld

Mál var höfðað á hendur móðurfyrirtæki Purity-verksmiðjunnar, en lögfræðingar þeirra báru fyrir sig að anarkistar hefðu sprengt tankinn í loft upp. Eftir þriggja ára vitnaleiðslur komst endurskoðandi á vegum dómstólsins að því að verksmiðjan væri bótaskyld þar sem tankurinn hefði verið illa smíðaður og ekki prófaður. Tankurinn hafði lekið svo mikið að tekið var upp á því að mála hann brúnan til að fela lekann.

Íbúar í nágrenninu höfðu getað náð sér í fötufylli af karamellu þar sem lekinn var. Tankurinn var bæði of þunnur og gerður úr efni sem hentaði ekki. Hitnunin í andrúmsloftinu olli því að gerjun varð hraðari en ella og tankurinn réð ekki við það.

Fyrirtækið greiddi út 600 þúsund dollara til fórnarlambanna og aðstandenda þeirra. Tankurinn var ekki endurbyggður og í dag er þarna hafnarboltavöllur fyrir börn. Ýmsar byggingarreglugerðir Boston-borgar varðandi öryggi voru hertar eftir slysið og eftirlit sömuleiðis. Settur var upp minnisvarði á svæðinu um slysið og þá sem þar létust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun