fbpx
Miðvikudagur 29.maí 2024
Fókus

Braust inn á elliheimili Akraness og kyrkti konu – Heyrði kallað „Nei!“ gegnum þilið – Tímavélin

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 16. nóvember 2018 22:00

Vinslit Hauks og Bjarna má rekja til uppgjörsins á Akranesi - Myndin er úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elliheimilið
1. Þar sem brotist var inn 2. Herbergi Ástu.

Árið 1959 var framið morð á elliheimilinu á Akranesi. Var það í fyrsta skipti sem slíkt mál kom upp í þessum litla og friðsæla útvegsbæ. Gerandinn, Brynjar Ólafsson, var ungur sjómaður sem brotist hafði inn um miðja nótt til að hitta konu sem hann þekkti, Ástu Þórarinsdóttur. Var hún á miðjum aldri en vistuð á elliheimilinu vegna þroskahömlunar. Var hann mjög drukkinn og lauk heimsókninni með því að Brynjar kyrkti hana til bana. Fékk hann sextán ára dóm sem er með því lengsta sem Íslendingur hefur fengið.

Ásta Þórarinsdóttir
Morgunblaðið 1. september 1959.

Heyrði kallað „Nei!“ gegnum þilið

Ásta Þórarinsdóttir var vistuð á elliheimilinu á Akranesi þrátt fyrir að vera aðeins 43 ára gömul. Hún var öryrki og talin óhæf um að sjá um sig sjálf, bæði af líkamlegum og andlegum ástæðum. Um tíma vann hún sem sendill fyrir símstöðina en var flutt á elliheimilið þegar hún gat ekki lengur unnið því að foreldrar hennar voru báðir látnir.

Á fjórða tímanum aðfaranótt sunnudagsins 30. ágúst árið 1959 vaknaði aðstoðarkona á elliheimilinu, Þorbjörg Jónsdóttir, við mannamál sem kom úr herbergi Ástu við súð hússins. Gegnum þilið gat hún greint að Ásta sagði „Nei!“ í tvígang og gerði hún sér grein fyrir að ekki var allt með felldu. Hringdi hún þá strax í lögregluna en enginn svaraði þar.

Fór hún þá út í næsta hús og vakti þar mann að nafni Árni Runólfsson og bað hann að hjálpa sér. Sáu þau að einhver hefði brotist inn um glugga í kjallaranum þar sem þvottahúsið var. Þaðan hafði innbrotsmaðurinn komist í rými vistmanna.

 

Blóð í munnvikinu

Þegar Árni gekk inn í herbergi Ástu fannst hún hreyfingarlaus á bekk og ungur maður sat við höfðalag hennar. Árni sá að þetta var Brynjar Ólafsson, 22 ára gamall togarasjómaður, og á gólfinu stóð brennivínsflaska. Hékk Ásta hálf út af bekknum og var fyrst talið að hún sjálf væri drukkin. Brynjar var mjög ölvaður og var honum sagt að hypja sig heim til sín. Þegar Árni og starfsfólkið fóru að hagræða Ástu sáu þau að hún var látin.

Klukkan fjögur kom læknir til að skoða líkið. Voru ekki greinilegir áverkar á því og gat læknirinn því ekki sagt til um dánarorsök strax. Fannst honum þó grunsamlegt að blóð hafði lekið úr munnvikinu. Var líkið sent með Akraborginni til Reykjavíkur til krufningar.

Lögreglan kom um klukkan fimm á vettvang og lét starfsfólkið vita að Brynjar hefði verið í herberginu með Ástu. Fór Stefán Bjarnason yfirlögregluþjónn heim til Brynjars þar sem hann bjó með foreldrum sínum og fann hann þar sofandi. Bað hann Brynjar að klæða sig og færði hann í gæsluvarðhald á lögreglustöð Akraness. Á sunnudeginum hófust yfirheyrslur í málinu.

Brynjar Ólafsson
Tíminn 21. nóvember 1976.

Neitaði ekki sök

Vitað var að Brynjar þekkti Ástu vel en ekki var vitað til þess að hann hefði heimsótt hana á elliheimilið fyrr. Kvöldið áður hafði hann setið að drykkju hjá félaga sínum sem bjó skammt frá elliheimilinu. Þegar Brynjar fór frá honum var hann mjög drukkinn.

Brynjar sagðist lítið muna eftir kvöldinu en viðurkenndi þó að hafa farið inn í herbergi Ástu og viljað hitta hana. Hann hafi þó ekki ætlað sér að vinna henni mein. Mundi hann ekki eftir því að þau hefðu rifist nokkuð en neitaði ekki fyrir að hafa orðið henni að bana. Meðan á yfirheyrslum stóð var Brynjar mjög rólegur en augljóslega niðurbrotinn.

Þórhallur Sæmundsson, bæjarfógeti á Akranesi, sagði Alþýðublaðinu að Brynjar hefði verið valdur að dauða Ástu. En jafnframt sagði hann að ódæðið hefði verið óviljaverk framið í ölæði. Ungir menn í bænum sögðu að Brynjar hefði verið eðlilegur í daglegri umgengni en orðið „ofsafenginn með víni.“ Einu sinni áður hafði hann verið handtekinn vegna ölvunar á Akranesi en 14 sinnum alls samkvæmt sakavottorði. Var það í Reykjavík, Akureyri, Keflavík, Vestmannaeyjum og á Siglufirði þar sem hann var uppalinn. Í eitt skipti var hann handtekinn fyrir líkamsárás.

Herbergi Ástu
Alþýðublaðið 1. september 1959.

16 ára fangelsisdómur

Niðurstaða krufningar í Rannsóknarstofu Háskóla Íslands var sú að Ásta hefði verið kæfð til dauða. Dánarorsökin var köfnun og á hálsi hennar sáust áverkar sem bentu til líkamsmeiðinga. Fingrafar Brynjars fannst á hálsi líksins. Brynjar undirgekkst geðrannsókn og var metinn sakhæfur.

Sakadómur Akraness tók málið fyrir í byrjun árs 1960 og var það fyrsta morðmál dómstólsins. Fimmtudaginn 17. mars var kveðinn upp dómur og Brynjar fundinn sekur um að hafa myrt Ástu með því að kyrkja hana. Hlaut hann sextán ára fangelsisdóm fyrir. Var hann auk þess sviptur kosningarétti og kjörgengi og dæmdur til að greiða tíu þúsund krónur í málskostnað. Eftir afplánun fór Brynjar aftur á sjóinn og bjó um tíma á Grundarfirði. Hann lést árið 1981.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Svona var hjónabandið árið sem hann hélt framhjá – „Líf þitt getur breyst á einni nóttu“

Svona var hjónabandið árið sem hann hélt framhjá – „Líf þitt getur breyst á einni nóttu“
Fókus
Í gær

Fékk áfall þegar hann sá hvað kaffihúsið rukkaði aukalega fyrir – „Hvar endar þetta?“

Fékk áfall þegar hann sá hvað kaffihúsið rukkaði aukalega fyrir – „Hvar endar þetta?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Líf Sævars hangir á bláþræði – Vísað frá af læknum sem segja hann haldinn sjúklegri viðurkenningarþörf og athyglissýki

Líf Sævars hangir á bláþræði – Vísað frá af læknum sem segja hann haldinn sjúklegri viðurkenningarþörf og athyglissýki
Fókus
Fyrir 2 dögum

Áfalla-og neyslusaga Gunnars hófst í grunnskóla – Varð faðir 16 ára: „Hún hefur síðan bjargað lífi mínu mörgum sinnum“

Áfalla-og neyslusaga Gunnars hófst í grunnskóla – Varð faðir 16 ára: „Hún hefur síðan bjargað lífi mínu mörgum sinnum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Undir auknu vinnuálagi þar sem samstarfskonan segist ófrísk og ekki geta unnið mikið – Sannleikurinn er allt annar

Undir auknu vinnuálagi þar sem samstarfskonan segist ófrísk og ekki geta unnið mikið – Sannleikurinn er allt annar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sjáðu myndbandið við kosningalag Jóns Gnarrs þar sem gamalt lag fær nýtt líf – „Gefum honum von o-o-ó“

Sjáðu myndbandið við kosningalag Jóns Gnarrs þar sem gamalt lag fær nýtt líf – „Gefum honum von o-o-ó“