fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

„Að mynda sér heilbrigt samband við mat“ – Sveindís breytti um lífstíl

Ritstjórn Bleikt
Föstudaginn 3. nóvember 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveindís Guðmundsdóttir er 25 ára einkaþjálfari sem býr í Keflavík.
Hún er nýr penni á Bleikt og mun deila með lesendum sögu sinni og reynslu og ýmsum ráðum varðandi næringu og hreyfingu.
Í sínum fyrsta pistli fjallar hún um hvernig maður myndar heilbrigt samband við mat.

Hvað þýðir það eiginlega, að mynda sér heilbrigt samband við mat? Allt mitt líf hefði ég ekki getað svarað þessari spurningu, einfaldlega því ég hafði ekki hugmynd um hvað það var. Ég var alltaf þybbin sem barn, þybbin sem unglingur og alveg fram að fullorðinsaldri. Þegar maður er lítill og þybbin þá finnur maður ekki fyrir því að maður sé þybbin, en þegar maður fer að detta inn í unglingsaldurinn þá heldur betur finnur maður fyrir því að maður sé þybbin. Ég var um 12-13 ára þegar ég áttaði mig á því að ég væri feit. Það er svo ótrúlega erfitt að vera unglingur og skilja ekki af hverju maður er feitur, hvað maður getur gert til þess að breyta því eða hvert maður á að leita til að fá hjálp. Flestir unglingar hafa bara ekki næga vitneskju um hvað er hægt að gera til að taka fyrsta skrefið í rétta átt.

Á þessum tímapunkti í lífi mínu, hélt ég að rétta skrefið væri að svelta mig. Mig langaði svo ótrúlega mikið að vera mjó eins og hinar stelpurnar, það var bara fast í hausnum á mér að það að vera mjó væri eina leiðin til þess að vera talin falleg, eina leiðin til þess að vera talin jöfn hinum stelpunum. Mér fannst ég verri en hinar stelpurnar, 13 ára gömul, því ég var feitari en þær. Sveltið entist ekki lengi þarna, mér fannst svo ótrúlega gott að borða og vera södd en ömurlegt að borða ekki og vera svöng, eðlilega. Takið eftir, þarna var ég bara 13 ára gamall krakki í 7.bekk með virkilega brenglað hugarfar.

Árin liðu, framhaldsskólinn byrjaði og ekkert varð ég mjórri, ég bætti bara meira og meira á mig. Þarna  hafði ég ekki ennþá hugmynd um það hvernig maður borðar rétt. Þegar ég var 18 ára var ég komin með nóg, skildi ekkert af hverju ég fitnaði bara og fitnaði, þannig að ég fór að kasta upp matnum sem ég borðaði. Það eru ekki margir sem vita af þessu enn þann daginn í dag, en þetta var líf mitt í eitt og hálft ár. Ég myndaði með mér átröskun, skiptist á að svelta mig og þess á milli tók ég átköst og skilaði því svo öllu ofan í klósettið. Ég veit, þetta er ekki skemmtileg lesning, en þetta er svo sannarlega þörf lesning. Ég léttist, jú jú, auðvitað, en þessu fylgdi engin hamingja, alls engin. Í 1 og hálft ár ákvað ég að þetta væri rétta leiðin að hamingju, þegar ég yrði loksins nógu grönn þá loksins yrði ég hamingjusöm, þá loksins myndi fólk horfa á mig sem fallega, sem jafningja.

Ég þakka svo mikið fyrir það í dag að hafa komið mér út úr þessari brenglun. Það sem kom mér út úr þessari brenglun var það að ég byrjaði að stunda líkamsrækt. Á þeim tímapunkti vissi ég ekki hvernig maður átti að borða. Ég var alltaf svo máttlaus í ræktinni, átti mjög erfitt með að gera allt, var mjög þróttlaus og afkastagetan mín ekki mikil. Á sama tíma og ég var að koma mér af stað átti ég vinkonu sem var búin að ná hrikalegum árangri, við vorum að vinna saman og hún var í einkaþjálfun hjá einkaþjálfara sem ég lít rosalega mikið upp til enn þann daginn í dag. Hann lét hana skrá allt niður í matardagbók, ég man eftir að eiga margar samræður við hana um þessa matardagbók og af hverju hún væri að þessu, hvers vegna hún væri að borða fyrir æfingar og eftir æfingar og hvað þá að borða 5 sinnum á dag?!? Myndi maður ekki bara fitna að borða svona oft? En ég mun aldrei gleyma þegar hún sagði mér að til þess að geta átt góða æfingu þar sem hún gat gert mjög mikið þurfti hún að næra sig vel. Sjáið til, hún var að borða til þess að geta æft, ekki að æfa til þess að geta borðað. Þetta motiveraði mig til þess að reyna að borða rétt fyrir æfingu og eftir æfingu. Ég tók algjöran sveig í mínu lífi þarna. Það var ekki fyrr en fyrst þarna, sem mér fór að líða vel. Þarna hætti ég að kasta öllu upp, þarna fór ég að næra mig til þess að vera góð á æfingum.

Ég er alls ekki að segja að þarna hafi ég bara verið komin með mataræðið og allt saman á hreint, ég var langt frá því. Vandamálið er að maður er alltaf að leita að einhverri töfralausn, einhverju töframataræði eða töfrapillu sem gerir þig granna og heibrigða á helst einum degi. Við tóku nokkur ár þar sem þyngdin mín var algjört yoyo. Ég prófaði hina og þessa kúra, hinar og þessar pillur, hina og þessa drykki, ég var tilbúin að prófa allt til þess að grennast sem fljótast. Prófaði þennan kúr, léttist smá, fékk ógeð, bætti öllu aftur á mig og yfirleitt miklu fleiri kílóum en ég var með áður en ég byrjaði þann kúr. Vandamálið við þetta allt saman, er að þetta eru bara skyndilausnir, ekki langtímalausnir. Það var ekki fyrr en ég var 23 ára gömul sem ég fattaði þetta. Tíu ár að berjast við það að reyna vera mjó til þess að þóknast minni eigin sannfæringu og sannfæringu samfélagsins að fegurð.

Þegar fólk spyr mig í dag hvað ég gerði til þess að léttast svona mikið þá heyri ég alltaf í tóninum þeirra að þau eru að bíða eftir að ég segi þeim frá töfralausninni, þau eru alltaf jafn hissa þegar ég segi þeim hvað ég gerði og hvað ég er enn að gera í dag. Þetta er nefnilega alls ekki flókið, ef ég gat gert þetta þá geta allir gert þetta. Það sem ég gerði var að mynda mér heilbrigt samband við mat. Ég hef bæði verið með átröskun og hef þurft að kljást við offitu. Þetta tvennt er bæði það sama, þetta er óheilbrigt samband við mat. Hvort sem þú ert að borða alltof mikið af honum eða alltof lítið af honum, þá er þetta óheilbrigt samband sem svo ótrúlega margir eru að kljást við í dag. Vissuð þið að fimmti hver 15 ára unglingur á Íslandi í dag er að klást við offitu eða ofþyngd? Ein af fáum könnunum sem gerðar hafa verið tengd átröskunum á Íslandi var gerð árið 1996 á 200 íslenskum fimleikastelpum 12 ára og eldri. Þar reyndist tíðni átraskana vera rúm 17% og um helmingur þeirra stelpna taldi sig vera feita, þó að um 90% þeirra væru undir meðallagi í þyngd! Þetta var árið 1996, ég get ekki ímyndað mér hvernig tíðnin er í dag.

Það er margt að í samfélaginu okkar í dag sem ýtir undir þetta, en það er í okkar verkahring að kenna ungum krökkum að hafa rétt viðhorf þegar kemur að mat.

Það sem ég geri, lifi eftir og mæli með við viðskiptavinina mína er eftirfarandi: Ekki banna þér neitt. Ef þú bannar þér eitthvað þá langar þig bara það mikið í það að þú átt í verulegri hættu á að krassa feitt. Ég miða minn dag við 80/20. Það sem ég meina með því er að hvern dag borða ég 80% hollasta kostinn í boði og svo 20% eitthvað aðeins óhollara. Sem dæmi ef mig langar í pítsu í hádegismat, þá miða ég restina af deginum mínum út frá því. Ég fer ekki að fá mér hamborgaratilboð þá í kvöldmat þegar ég er nú þegar búin með 20% mín í hádeginu. Þetta kallast jafnvægi og þetta er alveg ótrúlega auðvelt þegar þú byrjar. Ég er líka ekki að svekkja mig á hlutunum þó svo ég fái mér kannski aðeins meira óhollara en ég ætlaði mér, það sama segi ég við viðskiptavinina mína.

Ef þú ert að svekkja þig á slæmum degi er svo auðvelt að detta í gírinn að þú sért hvort sem er búinn að skemma allt nú þegar þannig það er miklu auðveldara að gefast upp. Horfðu á hvern dag sem kemur sem nýjan dag, því líkaminn er fljótur að fyrirgefa smá mistök á einum degi, en það er erfiðara ef einn dagur verður að tveimur sem verða að þremur og svo framvegis. Ég reyni að borða að minnsta kosti 4 – 5 sinnum á dag, minni máltíðir, en það sem það gerir er að blóðsykurinn þinn helst í jafnvægi og þú finnur ekki fyrir eins mikilli svengd yfir daginn. „Íslenska leiðin“ eins og ég vil kalla það, sleppa morgunmat – borða stóran hádegismat – borða stóran kvöldmat, er svo rosalega algeng að 90% af viðskiptavinunum mínum hafa verið vanir að borða svona. Þegar fólk borðar svona sjaldan er svo mikil hætta á að fólk grípi í eitthvað fljótlegt og óhollt því það er orðið svo rugl svangt þar sem það eru kannski 5 – 6 tímar síðan það borðaði síðast. En þegar fólk borðar oftar, reglulega og minna í einu þá er svo miklu meira jafnvægi á öllu og fólk ólíklegra að grípa í ruslfæði. Þetta samband hef ég myndað mér og stundað síðustu tvö ár og er ég í besta formi lífs míns hingað til. Ég nenni ekki að eyða lífínu mínu í að telja kaloríur eða borða kjúkling og brokkolí það sem eftir er og ég held að það sé enginn sem vill lifa þannig lífi sem eftir er.

Þegar maður lifir svona er allt svo miklu auðveldara, engar öfgar, engin boð og bönn, bara jafnvægi. Þetta er það að mynda sér heilbrigt samband við mat. Þetta geta allir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.