fbpx
Þriðjudagur 25.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Verndarar vetrarbrautarinnar í straffi

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 10:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framtíð Guardians of the Galaxy myndabálksins hefur verið afar óljós á undanförnum vikum, en nú er formlega búið að setja þriðju myndina í ótímabundna biðstöðu eftir brottrekstur leikstjórans James Gunn. Telja margir ólíklegt að myndin verði nokkurn tímann að veruleika upp úr þessu.

Ákvörðunin um brottreksturinn var tekin eftir að umdeild tíst leikstjórans komust í umferð um veraldarvefinn, en þar grínaðist hann með nauðganir og barnaníð, svo dæmi séu tekin. Stjórnarformaður Walt Disney fyrirtækisins, Alan Horn, sagði þessi tíst kvikmyndagerðarmannsins vera óverjanleg og fjarri þeim gildum sem fyrirtækið stendur fyrir. Gunn var nýbúinn að ljúka við handrit Guardians of the Galaxy vol. 3 þegar þessi ákvörðun var tekin.

Brot af umdeildu tístum leikstjórans.

Þegar fregnir af brottrekstrinum barst út voru fjöldamargir sem stukku leikstjóranum til varnar, á meðal þeirra helsti leikhópur Guardians of the Galaxy-myndanna. Gunn hefur sjálfur beðist afsökunar á þessum ummælum og sagt að tístin endurspegli ekki þá manneskju sem hann er í dag.

Undirskriftalisti fór hratt stækkandi með vonir um að Gunn yrði ráðinn aftur. Leikararnir Chris Pratt, Zoe Saldana, Dave Bautista, Bradley Cooper, Pom Klementieff, Vin Diesel og Karen Gillan skrifuðu undir opið bréf, Gunn til stuðnings, en á því stóð meðal annars:

„Við styðjum James Gunn heilshugar. Við vorum öll hneyksluð á óvænta brottrekstri hans og höfum við viljandi beðið með að segja okkar hlið til þess að geta þakkað fyrir, beðið fyrir, hlustað á og rætt þetta mál. Á þessum tíma höfum við notið góðs af gífurlegum stuðningi aðdáenda og fjölmiðla sem vilja sjá Gunn aftur ráðinn fyrir þriðju myndina“

Ekkert af þessu virtist duga til þess að Horn skipti um skoðun. Á dögunum átti hann fund með Gunn þar sem formlega kom í ljós að Gunn fengi ekki vinnuna aftur, en töldu þá margir líklegt að nýr leikstjóri yrði ráðinn til þess að kvikmynda handritið sem búið var að ljúka við.

Dave Bautista, sem fer með hlutverk Drax í myndunum, hefur látið hvað hæst í sér heyra varðandi afstöðu sína í málinu. Á Twitter-síðu leikarans hefur hann hrósað manninum óspart, eins og sjá má hér að neðan.

Blöskrar að vinna fyrir stuðningsmenn fasista

Bautista hefur jafnframt hótað að slíta samningi sínum ef framleiðendur Disney nota ekki upprunalega handritið sem Gunn skrifaði.

Aðrar heimildir hafa haldið því fram að Disney ætli að ráða nýjan handritshöfund og vinna söguna upp frá grunni, en samkvæmt nýjum upplýsingum er ólíklegt að myndin verði að veruleika á næstu árum. Það er því óhætt að segja að Guardians of the Galaxy-teymið sé í ákveðnu straffi, þó næst muni sjást til hópsins í fjórðu Avengers-myndinni næsta sumar – mögulega í síðasta skiptið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af