fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Heimskingjar fremja rán

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 7. september 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikstjórinn Steven Soderbergh er einn sá frumlegasti og fjölhæfasti í bransanum. Hann hefur gert frábærar dramamyndir og gamanmyndir, sannsögulegar myndir og fantasíur. Hann hefur meira að segja gert mjög góða kvikmynd um karlkyns fatafellur, sem fékk alla gagnkynhneigða menn til að efast um sig í smá stund.

En það besta sem hann gerir eru svokallaðar „heist-myndir“ þar sem hópur fólks plottar og framkvæmir einhvern umfangsmikinn stuld og kemst upp með það … eða ekki. Hann er fyrir löngu búinn að sanna sig í þeim geira með kvikmyndum á borð við Out of Sight (1998) og Ocean’s Eleven (2001).

Rán á kappakstursbraut

Logan Lucky leynir á sér. Plaggatið bendir til þess að myndin snúist um einhvern bílahasar líkt og Fast and the Furious-serían. Myndin gerist reyndar að stærstum hluta á kappakstursbraut en bílar koma engu að síður ákaflega lítið við sögu.

Hún fjallar um þrjú systkini, Jimmy, Clyde og Mellie Logan sem ákveða að ræna NASCAR-kappakstursbrautina í Charlotte í Norður-Karólínu. Þau fá þrjá bræður að nafni Bang til að hjálpa sér, aðallega vegna þess að sá elsti þeirra, Joe Bang, er sérfræðingur í sprengiefnum.

Hængurinn er hins vegar sá að Joe er læstur bak við lás og slá og því þurfa systkinin að ná honum úr fangelsinu og koma honum inn í það aftur áður en nokkur tekur eftir því að ránið hafi gerst.

Líflegar persónur en tilgangslaus hliðarspor

Logan Lucky er nokkuð óvanaleg „heist-mynd“, sér í lagi vegna þess hversu flækjustigið er hátt. Þá virðast allar persónurnar vera annaðhvort heimskar eða sturlaðar en engu að síður er ránið mjög fagmannlega gert og vel úthugsað.

Framan af er myndin borin uppi af sterkum karlleikurum, sér í lagi nýstirninu Adam Driver sem leikur hinn viðkvæma og einhenta Clyde Logan, og Daniel Craig sem leikur hinn brjálaða Joe Bang. Channing Tatum leikur Jimmy Logan, aðalpersónuna sem skipuleggur ránið og bindur söguna saman.

Kvenpersónur birtast aðallega í hliðarsögu sem fjallar um dóttur Jimmy og fyrrverandi eiginkonu hans. Það er ekki oft sem maður sér börn leika vel en Farrah Mackenzie stendur sig prýðilega í hlutverki dótturinnar. Einnig kemur fyrir stutt ástarsaga milli Jimmy og æskuvinkonu hans. Eftir á að hyggja virðist þessi hluti sögunnar þó ákaflega tilgangslaus.

Tilgangur „heist-mynda“ er að koma áhorfandanum á óvart, yfirleitt í samsettu atriði (montage) í lokin. Logan Lucky kemur áhorfandanum svo sannarlega á óvart. Þegar maður heldur að hún sé að klárast mætir allt í einu Hilary Swank, tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi, á svæðið sem fulltrúi FBI, Sarah Grayson. Eftir það heldur myndin áhorfandanum í stanslausri spennu allt til loka.

Logan Lucky verður seint talin til allra bestu verka Steven Soderbergh enda er ferill hans orðinn langur og hlaðinn metorðum. Hún er hins vegar bráðfyndin, spennandi og fær áhorfandann til að hugsa og efast allt til enda. Veikleikarnir eru hliðarsporin sem virka bæði tilgangs- og stefnulaus. Styrkleikarnir eru aðallega fólgnir í persónunum sjálfum sem minna um margt á ýktustu persónurnar úr verkum Coen-bræðra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda