fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024

Sundurleit ævintýraveröld

Fjarskaland í Þjóðleikhúsinu

Kristján Guðjónsson
Þriðjudaginn 31. janúar 2017 21:30

Fjarskaland í Þjóðleikhúsinu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Loftsdóttir.

Stóra barnasýning Þjóðleikhússins byggir að þessu sinni á persónum og sögusviði þekktra ævintýra. Ævintýrahetjurnar í Fjarskalandi eru að hverfa ein af annarri vegna þess að allir eru hættir að lesa sögurnar þeirra. Til þess að forða sögunni um Rauðhettu frá glötun hefur úlfurinn rænt ágætri ömmu úr mannheimum og komið henni fyrir í ævintýrinu í stað upprunalegu ömmunnar. Númenór, verndari ímyndunaraflsins, sannfærir Dóru, barnabarn ömmunnar brottnumdu, um að koma yfir í Fjarskaland og bjarga ömmu sinni. Þetta gerir Dóra auðvitað en til þess að finna ömmu sína þarf hún fyrst að bregða sér í hlutverk nokkurra þekktra persóna og leika ævintýri þeirra. Þannig fáum við á svið söguna um bæði Hans og Grétu og Dimmalimm áður en Dóra rambar inn í sögu Rauðhettu þar sem hún finnur úlfinn og bjargar ömmu sinni á elleftu stundu.

Þunnt handrit

Handritið er þunnt og söguþráðurinn illa undirbyggður. Jafnvel börn gera sér grein fyrir því að ef amman úr Rauðhettu hyrfi vegna þess að enginn læsi söguna lengur, þá væru söguhetjur flestra minna þekktra ævintýra löngu gufaðar upp og því varla með í þessu leikriti. Það skýtur því skökku við að sjá Gilitrutt spígspora sprelllifandi um sviðið ásamt fleiri ævintýrahetjum. Þá var mörgum spurningum ósvarað eins og þeirri hvernig úlfinum tókst að ræna ömmunni úr mannheimum og koma henni strax fyrir í réttu ævintýri, á meðan Dóra þurfti að þræða sig í gegnum tvö ævintýri áður en hún komst loksins á slóðir Rauðhettu.

En það er rétt hjá höfundi verksins, Guðjóni Davíð Karlssyni, að sögur og sögupersónur gufa upp ef enginn er til að lesa um þær. Eitt eftirminnilegasta atriði verksins var einmitt þegar barnaraddir hljómuðu um sviðið og óskuðu eftir stuttri sögustund. Raddir foreldra vörðust þessum ákafa sagnaþorsta af mikilli fimi og beindu börnunum af öryggi og festu á ýmsa rafdrifna möguleika til þess að hafa ofan fyrir sér. Þetta var vel gert og það fór örugglega smá hrollur um flesta foreldra í salnum. Boðskapurinn er því hinn besti. En eftir að hafa hlustað á enskuslettur í handriti situr hins vegar eftir sú áleitna spurningin hvort tungumál gufi ekki líka upp, ef sjálft Þjóðleikhúsið sér ekki ástæðu til þess að nota það af fullum þunga?

Einvalalið stjórnenda

Þrátt fyrir veikt handrit tekst Selmu Björnsdóttur, leikstjóra verksins, þó að galdra fram ótrúlega lifandi og fallega sýningu, ásamt öllum öðrum hönnuðum og höfundum sem að verkinu koma. Leikmynd, leikmunir og lýsing unnu saman sem töfrandi heild, fallegir búningar lifnuðu við í glæsilegum dansatriðum og hljóðfæraleikarar heilluðu áhorfendur með viðeigandi tónum. Þeir Sigurður Þór Óskarsson, Oddur Júlíusson og Gunnar Jónsson voru svo algjörlega frábærir í hlutverkum sínum, nánast þannig að ójafnvægi skapaðist í sýningunni. Snæfríður Ingvarsdóttir lék einnig hlutverk Dóru mjög fallega án þess að hafa úr miklu moða. Aðrir leikarar hússins ljómuðu síður í hlutverkum sínum, voru tilgerðarlegir eða einfaldlega óspennandi. Vert er að geta þess að fengur er í þeim fróðleik sem ungum áhorfendum er gefinn um tæknihlið leikhússins í fallegri leikskrá.

Niðurstaðan er því þunnt handrit sem einvalalið stjórnenda nær þó að lyfta upp á annað plan með ótrúlega fallegri og næstum því spennandi sýningu. Nokkrir ungir og hugmyndaríkir leikarar halda verkinu uppi með frábærum leik í fallegri umgjörð á meðan aðrir hitta því miður ekki jafn vel á ævintýratóninn.

Mynd: Hörður Sveinsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Sjaldséð sjón: Unglingsdætur Nicole Kidman og Keith Urban mættu með foreldrunum

Sjaldséð sjón: Unglingsdætur Nicole Kidman og Keith Urban mættu með foreldrunum
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Segir forsetaframboðið ekki vera viðbrögð við því að leggja eigi starfið hennar niður

Segir forsetaframboðið ekki vera viðbrögð við því að leggja eigi starfið hennar niður
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Brast í grát er hann kvaddi í dag – Myndband

Brast í grát er hann kvaddi í dag – Myndband
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Hæstánægður þrátt fyrir áhuga Manchester City – ,,Væri að ljúga ef ég myndi segja eitthvað annað“

Hæstánægður þrátt fyrir áhuga Manchester City – ,,Væri að ljúga ef ég myndi segja eitthvað annað“
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?