fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024

Kýrgildi, fjárgildi, manngildi

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 24. janúar 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Arngrímur Vídalín

≈ [Um það bil] er áhugaverður titill á leikverki sem helst fjallar um fjárgildi hluta og verðlagningu lífsins, sem jafnframt gefur í skyn ómöguleika slíks megindlegs gildismats á mannlegri tilveru. Auglýsingaspjald sýningarinnar sýnir þannig leikhópinn í einni bendu á bak við stærðfræðitáknið um það bil, þetta er semsé einhver mennsk klessa sem hægt er að festa sirkabát verðgildi við.

Sýningin veltir upp sambandi ánægju og fjármagns og gengur fram af áhorfendum til að tryggja að ánægjustuðullinn fari fram úr væntingavísitölunni.

Hvað miðinn síðan kostar er þáttur í sýningunni, sem heldur sífellt að áhorfandanum þeirri hugmynd að hann hafi fjárfest í leikhúsferðinni og að sú fjárfesting sé ekki arðbær nema tilteknu kvantítafíu magni af skemmtun sé náð. Hún veltir á þann hátt upp sambandi ánægju og fjármagns og gengur fram af áhorfendum til að tryggja að ánægjustuðullinn fari fram úr væntingavísitölunni, ef svo mætti að orði komast.

Ómanneskjuleg hagfræði

Um það bil er klofin í nokkrar örsögur úr lífi persóna sem hver um sig býr við fjárhagslegt óöryggi og ólíkar þeirra lausnir á eigin vanda. Eftir því sem líður á sýninguna taka sögurnar að tengjast saman svo heildarmyndin verður ljós. Þessi uppbygging verksins er töluvert lunkin og þýðing Eiríks Arnar Norðdahl á texta Jonasar Hassen Khemiri flæðir látlaust fram, ekki hástemmd heldur nokkurn veginn eins og fólk talar í raun og veru á Íslandi samtímans.

Leikmyndin, eftir Evu Signýju Berger, minnir helst á sundlaug án vatnsins og vekur verulega óþægileg hugrenningatengsl við rúðustrikaðar stærðfræðibækur, sem endurspeglast ekki síst í neonskiltunum sem hanga yfir sviðinu og minna áhorfendur á línurit, vísitölur og fyrirtæki auk hinnar ómanneskjulegu hagfræðijöfnu UX+R+t sem kjarnar allt þema sýningarinnar. Sviðsmyndin er fyrir vikið kirfilega föst í skorðum en með vel staðsettum dyrum á fjórum stöðum er flæði leikhópsins tryggt þótt umhverfið standi í stað, og kannski endurspeglar það á vissan hátt hverfulleika hins mannlega þáttar andspænis rúðum og jöfnum hinnar fótföstu haglegu tilvistarkenningar sem vill mæla allt í peningum.

Forðast uppgjörið

Leikarar sýningarinnar eru hver öðrum betri í að túlka þennan hrylling sem er – þótt spaugilega sé fram settur – samt sem áður hryllingur.

Leikarar sýningarinnar eru hver öðrum betri í að túlka þennan hrylling sem er – þótt spaugilega sé fram settur – samt sem áður hryllingur. Guðrún S. Gísladóttir er alltaf góð og bregst ekki væntingum hér fremur en áður. Hún er sömuleiðis alltof góð til að eiga að festast til frambúðar í hlutverki sérviskulegra gamalla kvenna, sama þótt hún geri það vel.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir flakkar eins og kameljón á milli hlutverka, ekki síst með því að skapa hverri og einni persónu sína eigin rödd. Í stærsta hlutverki hennar sem kapítalískt þenkjandi hliðarsjálf hinnar sjálfbært þenkjandi Margrétar er hún hreint óaðfinnanleg.

Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir Dýrfjörð, sem leikur Margréti sjálfa, er sömuleiðis afskaplega sannfærandi í sínu hlutverki og umbreytingin sem á sér stað í hennar persónu verður blátt áfram og látlaus fyrir vikið.

Þar sem sýningin er gagnrýnin á kapítalisma veit hver einasti áhorfandi sem er eldri en tvævetra hvert framhaldið er á sögu Margrétar, en það framhald fá áhorfendur aldrei. Þess í stað fá þeir heiminn með öllum tilheyrandi réttlætingum frá hennar bæjardyrum séð og það er annar nýstárlegur eiginleiki sýningarinnar, hvernig hún forðast uppgjör.

Að bylta kerfinu innan frá?

Mynd: eddi@internet.is tel:+354-6993789

Sama máli gegnir þannig um persónu Mána í meðförum Stefáns Halls Stefánssonar, doktorsnema í hagfræði sem sprottinn er af verkalýðsstétt og vill bylta kerfinu innan frá. Hann kennir og kennir og bíður stöðugt eftir fastráðningu við háskólann, og hér undirstrikar sýningin nokkuð laglega að munurinn á milli verkamannsins og stundakennarans er í raun útmáður. Máni gerir hvað hann getur til að rífa sig upp yfir eigin stétt svo hann geti jafnað stéttakerfið við jörðu innan frá, en getur ekki horfst í augu við að jöfnuðurinn kemur úr hinni áttinni og dregur hann bókstaflega til jarðar eins og aðdráttaraflið sjálft svo hann fær ekki umflúið eigin rætur.

Á persónu hans og persónu Snorra Engilbertssonar, Andrej, verður raunar skemmtilegur viðsnúningur á einum stað og um leið og sá kemst inn, sem þjóðfélagslegrar stöðu sinnar vegna hefur ætíð staðið utan kerfis, þá er hinum varpað út, og þetta er tákngert fallega með einu litlu götumáli af kaffihúsi í atriði sem annars er eins og blaut tuska. Það er hér sem bygging verksins er farin að vinda upp á sig með hvað skemmtilegustum niðurstöðum.

Krúttlegt og tryllingslegt

Oddur Júlíusson eiginlega dóminerar stóran hluta sýningarinnar. Hann bara tekur hana yfir og á hana eftir það. Á sama tíma eru persónur hans rödd samviskunnar (Ivan) og tákngervingur ofbeldisfullrar þjónkunar við valdið (hlémælir). Kúnnarnir í sjoppunni eru hrikalega fyndnir og það er eitthvað við þessa persónu Casparus van Houten sem er einlægt og fallegt, þrátt fyrir að það sé kenning hans sem er forsenda alls þessa hryllingsspils sem verkið er. Ég hef aldrei séð leikara áður eins krúttlega fallegan og tryllingslega óhugnanlegan á einu augnabliki. Áhrifin verða ennþá sterkari fyrir það að hann hefur skömmu áður gengið meðal áhorfenda í hléi og spjallað við þá með mestu virktum.

Þröstur Leó Gunnarsson er snúinn aftur í leikhúsið eftir nokkurt hlé og mikið fannst mér gaman að sjá hann. Sem Pétur er persóna hans ætíð leikin eftir því hver það er sem er í forgrunni hverju sinni, svo persónan breytist ört milli sena en lúrir annars í bakgrunni mestanpart sýningar og virðist lifa þar eigin lífi fjarri skarkala söguheimsins.

Hinn sænski Jonas Hassan Khemiri.
Höfundurinn Hinn sænski Jonas Hassan Khemiri.

Merikilegt leikverk

Um það bil er sýning sem leitast við að spegla áhorfendur með þátttöku þeirra sjálfra. Hún kannski deilir ekki beint á kerfið, því írónísk fjarlægð verksins er ekki á kapítalismann sem slíkan, sem verkið tekur mjög alvarlega, heldur á aðstæður persónanna sem þurfa hver fyrir sig að fóta sig innan kapítalismans. Verkið lætur sem það tali máli kapítalismans og það séu því persónurnar sem séu firrtar fremur en kerfið. Það væri áhugavert að vita hvernig fólk sem er blint á íróníu túlkar þessa sýningu, því hún móralíserar hvergi heldur skilur hún fremur eftir sig keim eða aðkenningu af kenningu um réttlæti sem sennilegast er ýmist fullnægt eða ekki í lok sýningar eftir því hver það er sem horfir.

Sjálfum finnst mér niðurstaðan tiltölulega skýr og eftir því umhugsunarverð en ég læt öðrum eftir að dæma fyrir sig. Um það bil er merkilegt leikverk sem ég vona að sem flestir hafi tækifæri til að sjá og hugsa um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Brighton staðfestir brottför De Zerbi

Brighton staðfestir brottför De Zerbi
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Búnir að finna arftaka Greenwood – Hefur aðeins skorað þrjú mörk

Búnir að finna arftaka Greenwood – Hefur aðeins skorað þrjú mörk
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Myndband sýnir hrottalegt ofbeldi Diddy gegn fyrrum kærustu sinni

Myndband sýnir hrottalegt ofbeldi Diddy gegn fyrrum kærustu sinni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Varð yngsti leikmaður í sögu efstu deildar og bætti met stórstjörnu – Var 13 ára fyrir mánuði síðan

Varð yngsti leikmaður í sögu efstu deildar og bætti met stórstjörnu – Var 13 ára fyrir mánuði síðan
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Gangi Alþingi fram af þjóðinni skal forseti tafarlaust vísa málinu til þjóðarinnar
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Upplifði vítiskvalir á Ozempic: „Verra en að eignast barn“

Upplifði vítiskvalir á Ozempic: „Verra en að eignast barn“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Jóhann Berg gráti næst er hann kvaddi – Sjáðu myndbandið

Jóhann Berg gráti næst er hann kvaddi – Sjáðu myndbandið