fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fókus

Ólst upp í Vottum Jehóva og var útskúfað vegna samkynhneigðar

Andlegt ofbeldi, þöggun og heilaþvottur – Boðaði fólki fagnaðarerindið 12 ára gömul – Hunsuð af fjölskyldumeðlimum og vinum eftir að hafa komið út úr skápnum – „Fólki er forðað frá því að hafa sjálfstæða hugsun“

Auður Ösp
Föstudaginn 31. mars 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ég ætti að lýsa þessum tíma í lífi mínu í einu orði þá væri það ótti. Ótti við að gera eitthvað sem er ekki ekki rétt, gera eitthvað sem ég má ekki. Óttinn við afleiðingarnar. Þetta fylgir manni nefnilega alltaf, þessi hugsun að maður sér að gera eitthvað rangt gagnvart söfnuðinum,“ segir Lilja Torfadóttir sem sagði skilið við Votta Jehóva árið 2004, eftir að hafa alist upp innan safnaðarins og lengi vel haft lítil kynni af heiminum utan hans. Eftir að hafa komið út úr skápnum var henni útskúfað og gert ljóst að hún væri ekki lengur velkomin. Hún fer ekki dult með þá staðreynd að andlegt ofbeldi, heilaþvottur og þöggun viðgangist innan veggja Vottanna. Hún er þó hvorki bitur né reið.

Lilja viðurkennir í byrjun samtalsins að hún hafi verið hrædd við að tjá sig um reynslu sína af söfnuðinum. Hún hafi óttast viðbrögð öldunganna, þeirra sem eru hæst settir innan Vottanna. „Ég hugsaði í gær að öldungarnir yrðu brjálaðir ef það birtist viðtal við mig í DV. Þegar það er búið að beita mann trúarofbeldi í öll þessi ár þá fer maður auðvitað að spila með ofbeldismönnunum. Það er alltaf meðvirkni gagnvart þeim sem fremur ofbeldið. Málið er nú samt það að ég er að fara í viðtal sem brottræk manneskja og hef nákvæmlega engu að tapa við að segja hvernig ég upplifði hlutina. Margir vinir mínir sem eru brottrækir eiga hins fjölskyldumeðlimi innan safnaðarins sem þeir vilja ekki særa.“

Móðir Lilju, Hulda Fríða Berndsen, hefur áður tjáð sig opinberlega um reynslu sína af söfnuðinum. Í bókinni Týnd í Paradís sem kom út árið 2015 lýsti bróðir Lilju, Mikael Torfason, einnig upplifun sinni af söfnuðinum. Blóðfaðir Lilju gekk til liðs við söfnuðinn í upphafi áttunda áratugarins og móðir hennar nokkrum árum síðar, árið 1975. Þau hröktust úr söfnuðinum í kjölfar skilnaðar árið 1979, rúmlega tveimur árum eftir að Lilja fæddist. Blóðfaðir hennar hafði kynnst nýrri konu og það féll ekki í góðan jarðveg meðal Vottanna. Í kjölfarið bjó Lilja hjá móður sinni en eldri bræður hennar tveir hjá föður þeirra. Lítið var minnst á söfnuðinn og hversdagslífið var eins og hjá hverjum öðrum. Móðir Lilju gekk að eiga uppeldisföður hennar þegar Lilja var sex ára.

12 ára trúboði

Svo kom árið 1986. Framundan var sögulegur leiðtogafundur Reagan og Gorbatsjev í Höfða. Móðir Lilju sá frétt í sjónvarpinu og var sannfærð um að heimurinn væri að farast.

„Eftir að hafa séð fréttina kom hún til mín og sagði mér að við þyrftum að byrja aftur að sækja samkomur, af því að það væri að koma heimsendir. Harmageddon. Við þurftum að fara á samkomur til að geta fengið að lifa í Paradís. Ég trúði því heilshugar og tók þessu mjög alvarlega.“

Móðir Huldu fékk að mæta aftur á samkomur ásamt dóttur sinni en þurfti að lúta ströngum skilyrðum. Mæðgurnar fengu ekki að setjast inn á samkomur fyrr en allir voru sestir. Þær máttu aðeins sitja á aftasta bekk. „Ég man óljóst eftir þessum tíma. Það mátti enginn tala við mömmu og við urðum alltaf að fara áður en samkoman var búin. Það var mjög einkennilegt að vera barn í þessari aðstöðu, að upplifa þessa útskúfun þegar maður var bara krakki.“

„Við þurftum að fara á samkomur til að geta fengið að lifa í Paradís. Ég trúði þessu heilshugar og tók þessu mjög alvarlega.“
Með mömmu og litla bróður „Við þurftum að fara á samkomur til að geta fengið að lifa í Paradís. Ég trúði þessu heilshugar og tók þessu mjög alvarlega.“

Börnum allt niður í tveggja ára var gert að sitja kyrr á samkomum, sem stóðu gjarnan yfir í einn og hálfan klukkutíma. Ef þau óhlýðnuðust voru þau iðulega beitt miklu harðræði. „Ég sá foreldra rífa krakkana sína upp ef þeir voru óþekkir og henda þeim niður í stólinn, eða fara með þá inn á klósett þar sem maður heyrði öskrið og grátinn og rassskellina fram á gang.“

Það leið talsverður tími þar til móðir Lilju var tekin inn í söfnuðinn á ný. Hluti af starfi Vottanna er að stunda trúboð með því að ganga hús úr húsi og boða fagnaðarerindið. Móðir Lilju tók starfið alla leið, og Lilja fór ekki varhluta af því.

„Ég var í rauðri kápu og rósóttum kjól, og pældi eiginlega voða lítið í viðbrögðum fólks“

„Ég og vinkonur mínar í söfnuðinum vorum 12 og 13 ára gamlar að ganga á milli húsa og fórum niður í Mjódd með nýjustu tölublöðin af Vaknið! og Varðturninum. Ég var í rauðri kápu og rósóttum kjól, og pældi eiginlega afar lítið í viðbrögðum fólks.“

„Ég skoðaði trúboðsheimili í Danmörku og Svíþjóð. Mér fannst að allir ættu að fá tækifæri til að heyra sannleikann og fá tækifæri til að lifa í Paradís.“
Lilja á unglingsárunum „Ég skoðaði trúboðsheimili í Danmörku og Svíþjóð. Mér fannst að allir ættu að fá tækifæri til að heyra sannleikann og fá tækifæri til að lifa í Paradís.“

Allt leyst innan safnaðarins

Það var ekki vel séð ef börn innan safnaðarins áttu vini þar utan. Lilja minnist þess ekki að hafa saknað jóla, páska og afmælisboða. „Ég var allt öðruvísi en aðrir krakkar en í raun angraði það mig ekkert. Ég pældi í raun lítið í því hvað aðrir voru að hugsa. Fyrir mér var þetta allt saman svo rétt sem ég var að gera. Og ég á líka góðar minningar frá þessum árum. Ég átti fullt af góðum vinum innan safnaðarins og við fórum til dæmis öll saman í sumarbústað á jólunum og það var óskaplega gaman. Að mörgu leyti var mjög vel hugsað um mann, enda snýst þetta allt saman um að halda samfélaginu saman og í sátt. Það snýst allt um fjölskylduna. Ég upplifði það líka eins og að vera partur af einhverju. Ég var hluti af heild.“

Hún man eftir atvikum þar sem upp komst um kynferðisbrot innan safnaðarins. Þau brot voru þögguð niður enda náði æðsta vald ekki út fyrir söfnuðinn. „Einn níðingur var sendur í trúboðastarf til Svíþjóðar þegar upp komst að hann hefði brotið á ungum stelpum í söfnuðinum. Það fylgdu engin gögn með honum sem greindu frá því að hann væri kynferðisbrotamaður. Í öðru tilviki var stelpa beitt kynferðisofbeldi af föður sínum og málin voru leyst innan safnaðarins, í einhvers konar samstarfi við föðurinn. Þetta eru svo sem bara tvö dæmi af mörgum. Þessar stelpur fengu aldrei neina hjálp við að takast á við ofbeldið.“

„Þetta var svolítið eins og að búa í smábæ þar sem allir þekkja alla. Fólk kannski vissi af því að það viðgekkst ofbeldi á einhverju heimili en var ekkert að blanda sér inn í það.“

Lilja tekur fram að hún sé ekki með staðreyndir um það hvernig tekið er á þessum málum innan safnaðarins í dag. „Ég vona innilega að reglugerðinni hafi verið breytt og þeir geri sér grein fyrir því að fórnarlömb ofbeldis þurfa utanaðkomandi hjálp.“

Hún segir að þegar hún líti til baka sé auðséð að það hafi verið vitað innan safnaðarins að á sumum heimilunum var ekki allt með felldu. „Þetta var svolítið eins og að búa í smábæ þar sem allir þekkja alla. Fólk kannski vissi af því að það viðgekkst ofbeldi á einhverju heimili en var ekkert að blanda sér inn í það. Það var alltaf leitast við „settla“ hlutina, halda öllu góðu og halda öllu innan þessa samfélags.“

Aðspurð um feðraveldi innan safnaðarins segir Lilja að konur hafi verið óæðri körlum að því leyti að þær máttu ekki tilheyra æðstu stöðum. Öll störfin voru ætluð körlum eingöngu. „Á samkomum áttu stelpur að sitja og þær máttu ekki halda ræður í púlti eða rétta fólki hljóðnemann. Konur áttu alltaf að vera tvær saman en karlar máttu vera einir. Mæður áttu helst ekki að vinna úti. Samt var ekki litið niður á konur, af því að viðhorfið var það að konan væri höfuð fjölskyldunnar og það var borin virðing fyrir henni sem slíkri. En eins og sagt var, þá geta ekki verið tveir við stýrið. Það er bara einn sem getur stýrt.“

Frá 14 ári aldri starfaði Lilja í allt að 60 tíma á mánuði fyrir söfnuðinn.
Tók starfið alvarlega Frá 14 ári aldri starfaði Lilja í allt að 60 tíma á mánuði fyrir söfnuðinn.

Eins og að vera í helvíti

Frá 14 ári aldri starfaði Lilja í allt að 60 tíma á mánuði fyrir söfnuðinn. Innan safnaðarins vinnur fólk sig upp í ábyrgðarstöður. Hún varð svokallaður aðstoðarbrautryðjandi. Næst í virðingarstiganum voru brautryðjendur og því næst trúboðar. Lilja var staðráðin í að gerast trúboði. Hún skírðist inn í söfnuðinn 15 ára og ætlaði alltaf að vera vottur. „Ég skoðaði trúboðsheimili í Danmörku og Svíþjóð. Mér fannst að allir ættu að fá tækifæri til að heyra sannleikann og fá tækifæri til að lifa í Paradís.

Ég átti vinkonur innan safnaðarins sem fóru á skólaböll og drukku í laumi. En ég sjálf tók þessu mjög alvarlega og fór eftir reglunum nánast í einu og öllu. Ég vildi til dæmis alls ekki horfa á bannaðar myndir. Ég varð skíthrædd ef það var bekkjarkvöld í skólanum. Ég þurfi að afneita þeirri löngun að fara.

Það sem gerist í þessum söfnuði er að fólki er forðað frá því að hafa sjálfstæða hugsun. Ég sé það núna sem fullorðin kona. Þegar fólk fer að hugsa sjálfstætt fer það að hafa skoðanir á hlutunum, og jafnvel setja sig upp á móti gildandi reglum. Það var til dæmis ekki mælt með því að fólk færi í háskóla, enda gæti maður hitt þar fólk með alls konar skoðanir sem stangast á við það sem trúin boðar.“

Hún rifjar upp atvik frá unglingsárum. „Ég var 15 eða 16 ára og var á veitingastað og fór þaðan inn á pöbb þar sem var lifandi tónlist. Mig minnir að þar hafi verið að spila Knockin’ on heavens door. Ég hélt að ég myndi deyja. Ég þekkti þetta ekkert. Mér fannst ég væri komin í helvíti. Mér leið hræðilega, ég var með svo mikinn móral yfir því að þetta væri eitthvað hrikalega rangt. Ég átti ekki að fara inn á svona stað og vera þar innan um „fólk í heiminum“, en það er orð Vottanna yfir þá sem eru fyrir utan söfnuðinn.“

Gift kona 17 ára

„Ég kynntist barnsföður mínum í söfnuðinum þegar ég var 17 ára og hann var 21 árs. Við vorum gift sjö mánuðum seinna, ég var svo ung að við þurftum að fá undanþágu til ganga í hjónaband. Ég þráði ekkert heitara en gifta mig og eignast börn og eiga heimili. Dóttir okkar fæddist síðan tveimur árum seinna.“

Fyrrverandi maður Lilju var ekki strangtrúaður Vottur og smám saman fór hún að fjarlægjast söfnuðinn og öfgarnar sem honum fylgdu. „Ég fór að sjá að þetta var ekki fyrir mig. Ég var búin að gifta mig og svo fór ég í hárgreiðslunám og var að reyna að finna sjálfa mig. Ég lifði svolítið tvöföldu lífi. Það tók að vísu mjög langan tíma að venja sig á að geta lifað frjálsu lífi, farið út að djamma og þess háttar. Við byrjuðum að fjara út úr söfnuðinum þegar stelpan okkar var rúmlega eins árs, og svo enn frekar eftir að við fluttum til Danmerkur. Við löfðum þarna inni næstu árin af því að fjölskyldurnar okkar voru þar og það hefði verið leiðinlegt að geta ekki mætt á viðburði eins og brúðkaup og þess háttar. Undir lokin vorum við góðir vinir og sambandið var gott en þetta var ekkert hjónaband.“

Útskúfuð

Lilja kom út úr skápnum árið 2002, þá nýskilin við barnsföður sinn. Það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

„Ég varð fyrst skotin í stelpu þegar ég var 15 ára, stelpu sem var með mér í unglingavinnunni. Ég áttaði mig samt ekkert á þeim tilfinningum, ég kveikti ekkert á perunni. Orðin lesbía og samkynhneigð voru ekki til í minni orðabók. Vinkona mömmu í söfnuðinum hafði komið út úr skápnum og í kjölfarið hvarf hún. Það sat í mér.“

„Ég fékk símtal frá ættingja sem úthúðaði mér og sagði mér að ég væri ógeðsleg. Ég tvíefldist við þetta, enda ætlaði ég ekki að láta annað fólk segja mér hvernig ég ætti að lifa mínu lífi.“

Lilja vissi að samkynhneigðir væru ekki velkomnir innan Votta Jehóva og því fékk hún að kynnast eftir að hún flutti aftur til Íslands árið 2004, þá í sambandi með konu. Söfnuðurinn sneri algjörlega við henni baki.

„Ég fékk símtal frá ættingja sem úthúðaði mér og sagði mér að ég væri ógeðsleg. Ég tvíefldist við þetta, enda ætlaði ég ekki að láta annað fólk segja mér hvernig ég ætti að lifa mínu lífi. En ég varð miður mín við að sjá að ég átti enga vini eftir innan safnaðarins. Ég var niðurbrotin í fyrstu, ég gat varla farið í Bónus, ég kveið því svo að hitta einhvern. Ég gat ekki umborið þessa höfnun.“

Lilja segir sérstakt að söfnuður sem styrktur er af ríkinu fái að komast upp með mannréttindabrot.
Heilaþvottur og andlegt ofbeldi Lilja segir sérstakt að söfnuður sem styrktur er af ríkinu fái að komast upp með mannréttindabrot.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Lilja var á þessum tíma enn skráð sem Vottur og enn gift barnsföður sínum á pappírum. Öldungar úr söfnuðinum mættu heim til hennar og spurðu hana hvort hún gerði sér grein fyrir hvaða augum Vottar litu samkynhneigða. Henni var gert ljóst að hún væri ekki lengur velkomin innan safnaðarins. „Ég gerði þeim grein fyrir að þetta væri mitt val.

Mér finnst sérstakt að söfnuður sem styrktur er af ríkinu fái að komast upp með mannréttindabrot. Ég vil ekki vera Vottur en það er margt annað samkynhneigt fólk sem vill vera í söfnuðinum,“ segir Lilja en foreldrar hennar fengu einnig heimsókn frá öldungunum þar sem þeir voru spurðir hvort þeim fyndist í lagi það sem dóttir þeirra væri að gera, að búa með konu og eiga með henni fjölskyldu. Foreldrar hennar sögðu sig í kjölfarið úr söfnuðinum.

„Mamma og pabbi urðu mjög reið. Þau gerðu Vottunum ljóst að þau myndu styðja mig alla leið. Það tók samt tíma fyrir þau að yfirgefa Vottana, enda á mamma systkini innan safnaðarins.“

Hún segir útskúfunina ekki angra sig sérstaklega mikið núna í dag. „En það er samt ennþá smá óþægindatilfinning. Það er ekkert sérstaklega gaman að sitja á veitingastað og tveimur borðum frá mér er fjölskylda sem ég þekki sem vill ekki yrða á mig.

„Ég myndi ekki segja að Vottarnir hafi rústað lífi mínu. Þó svo að það sé endalaust hægt að pikka í söfnuðinn, þá myndi ég samt segja að þeir hafi kennt mér ýmislegt“

Það eru mjög fáir Vottar sem heilsa mér, það er hægt að telja þá á fingrum annarrar handar, og þá segja þeir yfirleitt bara hæ og síðan ekkert meir. Aðrir, æskuvinkonur mínar, fólk sem ég passaði fyrir, það sér mig ekki. Það gengur á móti mér og horfir í augun á mér og það er eins og ég sé hreinlega draugur.“

Á dögunum las Lilja viðtal við unga konu sem kvaðst hafa séð ljósið eftir að hafa fengið heimsókn frá Vottum Jehóva, þá komin á fullorðinsár. Sú er nú á leið til Suður-Ameríku til gegna trúboðastarfi fyrir söfnuðinn. Skiljanlega var margt í frásögn hennar sem Lilja á erfitt með að samþykkja. „Það er mikill munur á því að vera alinn upp innan safnaðarins og að koma þar inn á fullorðinsaldri. Ég skil hana að vissu leyti vel. Þú upplifir kærleika og finnur kannski einhvers konar fjölskyldu í söfnuðinum, fólk sem mun hlúa að þér og passa upp á þig. Manneskja sem segist finna ljósið hefur kannski verið að leita að einhverjum gildum til að hafa í lífinu. En það var mjög óþægilegt að lesa þetta.“

„Þegar ég minnist á það við fólk að ég hafi einu sinni verið í Vottum Jehóva eru viðbrögðin oftast þannig að fólki finnst það skelfileg tilhugsun. Það liggur við að það spyrji hreint út hvort það sé hreinlega í lagi með mig. En ég er alls ekki reið eða bitur.“
Sátt í dag „Þegar ég minnist á það við fólk að ég hafi einu sinni verið í Vottum Jehóva eru viðbrögðin oftast þannig að fólki finnst það skelfileg tilhugsun. Það liggur við að það spyrji hreint út hvort það sé hreinlega í lagi með mig. En ég er alls ekki reið eða bitur.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ekki reið eða bitur

Lilja eignaðist tvö börn með fyrrverandi manni sínum og yngsta drenginn með fyrrverandi konu sinni. Hún giftist núverandi eiginkonu sinni, Guðbjörgu Árnadóttur, Guggu árið 2013. Hún er skráð í Fríkirkjuna á meðan Gugga er skráð í Þjóðkirkjuna. Aðspurð hvort henni finnist fjarstæðukennt að hugsa til þess að hún hafi eitt sinn tilheyrt söfnuðinum og lotið reglum hans svarar Lilja játandi.

„Þegar ég minnist á það við fólk að ég hafi einu sinni verið í Vottum Jehóva eru viðbrögðin oftast þannig að fólki finnst það skelfileg tilhugsun. Það liggur við að það spyrji hreint út hvort það sé hreinlega í lagi með mig. En ég er alls ekki reið eða bitur.

Ég myndi ekki segja að Vottarnir hafi rústað lífi mínu. Þó svo að það sé endalaust hægt að pikka í söfnuðinn, þá myndi ég samt segja að þeir hafi kennt mér ýmislegt. Ég er til dæmis með gríðarlega sterka siðferðiskennd í dag. Ég veit að þeir gerðu margt rangt, brutu á fólki og brutu á mér. En það mætti samt benda á að það eru mörg falleg gildi innan safnaðarins eins og til dæmis það að fjölskyldan er það sem skiptir mestu máli, ekki þetta endalausa lífsgæðakapphlaup og neyslubrjálæði. Vegna þeirra veit ég líka hvernig ég vil sjálf koma fram við börnin mín. Ég er kannski ekki algjörlega frjáls undan þessari óttahugsun. En þetta er ekki að plaga mig dagsdaglega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Heima Heimaey, partýtryllir sumarsins!

Heima Heimaey, partýtryllir sumarsins!
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ragnhildur segir að við viljum ekki vera þessi týpa

Ragnhildur segir að við viljum ekki vera þessi týpa