Fótboltakappar og fitnessstjörnur í brúðkaupi sumarsins
Brúðkaup sumarsins fór fram á sjálfan þjóðhátíðardaginn þegar Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og leikmaður Cardiff, og Kristbjörg Jónasdóttir, afrekskona í fitness og einkaþjálfari, gengu í hjónaband. Brúðkaupið var hið glæsilegasta í alla staði og gestalistinn stjörnum prýddur.
Aron Einar og Kristbjörg hafa verið í sambandi í rúm fjögur ár og eiga soninn Óliver Breka, sem er tveggja ára. Fjölskyldan býr í Cardiff í Wales þar sem Aron Einar spilar með liði borgarinnar.
Athöfnin fór fram í Hallgrímskirkju og voru brúðhjónin og gestir þeirra mynduð í bak og fyrir af öllum fjölmiðlum landsins, auk ferðamanna sem voru staddir á Skólavörðuholtinu. Gestalistinn var prýddur fjölda fótboltastjarna og liðsfélaga Arons Einars, bæði innlendra og erlendra, auk fjölda afreksfólks í fitnessheiminum. Veislan fór síðan fram á Korpúlfsstöðum þar sem veislugestirnir skemmtu sér fram á nótt og voru Bretarnir mjög hressir í veislunni að sögn gesta.
Fjölda mynda má finna á Instagram undir #aronkris17.
Athöfn: Hallgrímskirkja laugardaginn 17. júní kl. 16.
Veisla: Korpúlfsstöðum, veitingar frá Laugarási.
Veislustjórar: Kolfinna Von Arnardóttir, aðaleigandi og framkvæmdastjóri Reykjavík Fashion Festival, og Rúrik Gíslason, fótboltamaður og landsliðsmaður.
Brúðurin: Brúðarkjólinn var keyptur í tískuhúsinu Galia Lahav í London og er úr brúðarkjólalínu sem heitir Le Secret Royal. Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, förðunarmeistari og eigandi Reykjavík Makeup School, sá um förðun og Kristín Gísladóttir sá um hár.
Brúðguminn: Sérsaumaður smóking frá Herragarðinum.
Gestir: Um 200 gestir, íslenskir og erlendir, þar á meðal landsliðsmennirnir Alfreð Finnbogason, Eiður Smári Guðjohnsen, Gunnleifur Gunnleifsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbeinn Sigþórsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon.
Skemmtiatriði: Jökull úr Kaleo, bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson og Emmsjé Gauti sem er góður vinur Arons Einars.
Brúðarvöndinn greip vinkona Kristbjargar, Íris Arna Geirsdóttir fitnesskona. Íris Arna er einhleyp.