fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fókus

Sólveig og Guillaume breyttu 16 ára gömlum bíl í heimili

Vinna hluta úr ári en eyða bróðurpartinum í ferðalög – Ekkert sjónvarp og nota salernið í neyð

Auður Ösp
Föstudaginn 31. mars 2017 21:00

Vinna hluta úr ári en eyða bróðurpartinum í ferðalög - Ekkert sjónvarp og nota salernið í neyð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er alveg ólýsanlega mikið frelsi sem fylgir því að búa svona, en þetta þýðir líka að maður þarf að fórna hlutum sem mögum þykja sjálfsagðir. Mér finnst ég eiginlega hafa lært að meta hlutina upp á nýtt,“ segir Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir en hún og unnusti hennar, hinn franski Guillaume Kollibay, hafa tileinkað sér lífsstíl sem margir myndu telja nokkuð framandi. Bæði vinna þau hluta úr ári en verja bróðurpartinum í ferðalög á 16 ára gömlum Ford Transit sem þau hafa breytt í glæsiíbúð á hjólum.

Leiðir Sólveigar og Guillaume lágu saman í gegnum skíðaíþróttina fyrir þremur árum, en þá eyddi Sólveig vetrinum í fjallabænum Chamonix í Frakklandi. Guillaume starfar þar sem skíðakennari, en bæði eru þau forfallið útivistarfólk. Síðan þá hefur parið flakkað á milli; varið vetrunum í skíðamennsku í Frakklandi og sumrunum við leiðsögn ferðamanna á Íslandi. Það var síðan í lok síðasta árs að þeim fannst tími til kominn að eignast einhvers konar þak yfir höfuðið.

„Á Íslandi leigðum við herbergi hjá ömmu minni og afa á Höfn og þegar við vorum í Reykjavík gistum við ýmist hjá foreldrum mínum eða hjá vinum og vandamönnum. Það var eiginlega ógerlegt fyrir okkur að leigja enda vorum við að leitast við að leigja bara í nokkra mánuði á hvorum stað, og það er mun dýrara en að leigja á heilsársgrundvelli. Okkur langaði að geta verið út af fyrir okkur jafnframt haft frelsi til að fara hvert sem er.“

Stórt og fjölbreytt samfélag

Sólveig segir hugmyndina um að breyta bíl í íbúð hafa kviknað út frá hugtakinu um svokallað „vandwelling“, þar sem fólk kýs að búa í farartæki allt árið um kring, eða hluta árs. Lífsstíllinn hefur rutt sér til rúms á Vesturlöndum undanfarin ár en flestir sem hann aðhyllast kjósa að búa í hjólhýsum sem innréttuð hafa verið með öllum helstu nauðsynjum.

Eftir talsverða leit fann parið Ford Transit, árgerð 2001, á Facebook-sölusíðunni Brask og Brall. Það varð þeim til happs að fyrri eigandi hafði þegar komið þar fyrir stórum og dýrum hlutum á borð við sólarsellu, rafhlöðu og hitara. Sólveig segir gott skipulag hafa verið lykilatriði þegar kom að því að innrétta bílinn.

„Við pössuðum okkur á að innrétta með það í huga að hver einasti hlutur ætti sinn stað, þannig að bíllinn yrði ekki bara ein allsherjar óreiða af dóti. Við þurftum að velja og hafna, nýta það sem við áttum og velja hluti sem við sáum að væri hægt að nýta á fleiri enn einn hátt. En okkur fannst líka mjög mikilvægt að gera þetta að okkar, rétt eins og við værum að innrétta venjulega íbúð.“

Sólveig viðurkennir að í upphafi hafi ferlið allt vaxið þeim nokkuð í augum. „En svo gekk þetta bara svona ótrúlega vel, og tók ekki nema rúma tvo mánuði. Við keyptum bílinn í lok nóvember og um miðjan janúar vorum við búin að koma honum fyrir í Norrænu og vorum lögð af stað til Frakklands.“

Framkvæmdirnar fóru að mestu leyti fram fyrir utan hús ömmu og afa Sólveigar á Höfn. Þau létu takmarkaða smíðakunnáttu hvergi stoppa sig og komu nánast alfarið ein að framkvæmdunum. „Við fengum verkfæri lánuð hjá nágranna og fengum líka góða hjálp frá afa sem er bifvélavirki og var nýkominn á eftirlaun. Ég held að honum hafi ekkert leiðst að fá þarna nýtt verkefni upp í hendurnar.“

Sólveig segir ferlið við að innrétta bílinn hafa verið mun auðveldara en þau bjuggust við.
Framkvæmdir á fullu Sólveig segir ferlið við að innrétta bílinn hafa verið mun auðveldara en þau bjuggust við.

Snýst um útsjónarsemi

Margir reka upp stór augu þegar þeir heyra af þessum óvenjulega lífsstíl parsins. „Heima á Íslandi er fólk ekki beint með fordóma fyrir þessu, það er miklu algengara að fólki finnist þetta spennandi og kannski nett klikkað. Það er aðallega forvitið um hvernig við förum að þessu. Ein algengasta spurningin er hvernig við förum í sturtu og hvort við séum með klósett.

„Þetta snýst aðallega um að vera útsjónarsamur, maður kemst einhvern veginn upp á lagið með að redda sér.“

Við erum með útileguklósett í litlum skáp en reynum að nota það bara í neyð, ef ekkert klósett er í nágrenninu. Annars reynum við að nota almenningsklósett og stundum förum við út í náttúruna, en pössum okkur þá alltaf að ganga eins vel um og hægt er. Varðandi sturtu, þá nýtum við mikið almenningssundlaugar. Hérna úti í Chamonix höfum við líka fengið að nýta sturtuaðstöðuna hjá tengdaforeldrum mínum eða hjá vinum okkur. Þetta snýst aðallega um að vera útsjónarsamur, maður kemst upp á lagið með að redda sér.“

Séð yfir stofuna og eldhúsið.
Hver hlutur á sinn stað. Séð yfir stofuna og eldhúsið.

Hún viðurkennir að þau hafi haft áhyggjur af vetrarkuldanum í fyrstu, en þær áhyggjur hafi reynst ástæðulausar. „Við erum með dísilmiðstöð sem heldur á okkur hita, meira að segja þegar kuldinn úti hefur farið í mínus tuttugu gráður. Eins hefur það aldrei verið vandamál að finna stæði.“

„Mér finnst ég alveg ótrúlega heppin að fá að ferðast um allt, skoða hina og þessa staði og kynnast alls kyns fólki – og vera heimili mitt með mér!“

Sólveig segir vandwelling-lífsstílinn snúast í megindráttum um að lifa smátt og án þess að safna að sér alls kyns óþarfa. „Ég var sjálf þessi dæmigerði neysluglaði Íslendingur og maður þurfti svolítið venja sig af því að vera sífellt kaupandi. Þegar maður er búinn að lifa svona í einhvern tíma þá fer maður líka að staldra við og hugsa: „Bíddu, þarf ég þetta virkilega?“

Yfir veturinn sér dísilmiðstöð um að hita bílinn.
Kósí á köldum kvöldum Yfir veturinn sér dísilmiðstöð um að hita bílinn.

Maður lærir virkilega að meta alla litlu hlutina sem eru taldir sjálfsagðir, eins og vatn og rafmagn. Við erum ekki með sjónvarp og ekki alltaf í netsambandi. Við höfum þurft að venja okkur á að fara sparlega með rafmagnið og getum ekki hlaðið tæki eða sett í samband þegar okkur sýnist.“

Í eldhúsinu á hver hlutur sinn stað.
Smekklegt og nútímalegt Í eldhúsinu á hver hlutur sinn stað.

Sólveig segir kostina svo sannarlega vega upp á móti göllunum. „Mér finnst ég alveg ótrúlega heppin að fá að ferðast um allt, skoða hina og þessa staði og kynnast alls kyns fólki – og vera með heimili mitt með mér!“ segir hún og hvetur fólk sem hefur áhuga á þessum lífsstíl að gera eitthvað í því. „Þetta er nefnilega vel hægt og þarf ekki að vera flókið.“

Parið hyggst dvelja í Frakklandi þar til í lok apríl og vera síðan á faraldsfæti. „Við ætlum kannski að skreppa í stutta ferð til Ítalíu eða Sviss og fara svo til Portúgals og Spánar og eyða tíma þar. Við tökum svo ferjuna til Íslands í júní og verðum að vinna og ferðast um landið í sumar.“

Sólveig og Guillaume eru bæði forfallið útivistarfólk.
Á faraldsfæti Sólveig og Guillaume eru bæði forfallið útivistarfólk.

Hún útilokar ekki að þau muni ferðast enn víðar um heiminn í framtíðinni, jafnvel til annarra heimsálfa. Það fari þó eftir fjárhagsstöðu hverju sinni, enda kosti sitt að flytja bílinn á milli landa. „En það er klárlega draumurinn, ekki spurning. Það væri ekki leiðinlegt að fara til dæmis í „road trip“ um Bandaríkin. Það er algjörlega inni í myndinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Árni og Guðrún: „Við byrjuðum svolítið á þessu því okkur langaði að fara í threesome“

Árni og Guðrún: „Við byrjuðum svolítið á þessu því okkur langaði að fara í threesome“
Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Birti gamla mynd fyrir allar aðgerðirnar

Vikan á Instagram – Birti gamla mynd fyrir allar aðgerðirnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Katrín segist ekki geta starfað eðlilega eftir krabbameinsmeðferðina – „Mjög erfitt“

Katrín segist ekki geta starfað eðlilega eftir krabbameinsmeðferðina – „Mjög erfitt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins