Pabbi málar mömmu, setur á hana naglalakk, fæðir hana og klæðir
„Það er enginn eilífur. Það er alltof oft sem við gleymum okkur í amstri dagsins í dag og gleymum líðandi stundar. Bestu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir,“ segir Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik í hjartnæmri hugvekju á facebook sem hann ritar í tilefni af sjötugsafmæli föður síns, Geirs Hallsteinssonar, en Logi lýsir honum sem sinni helstu fyrirmynd.
Með færslunni birtir Logi meðfylgjandi mynd af foreldrum sínum en hún var tekin fyrir tveimur árum, um svipað leyti heilabilun náði yfirhöndinni hjá móður Loga. Hún er í dag búsett á Hrafnistu þar sem hún er bundin hjólastól. Að sögn Loga hefur faðir hans staðið eins og klettur við hlið hennar.
„Pabbi er mættur þangað alla daga, sækir hana og fer með hana á rúntinn og oft á tíðum margar klukkustundir. Hann gengur með hana heim á heimilið þeirra á Sævang og lætur hana sitja í garðinum að fylgjast með öllum barnabörnunum vaxa úr grasi. Að eignast stóra fjölskyldu var draumurinn hennar. Pabbi málar mömmu, setur á hana naglalakk, fæðir hana og klæðir og ver með henni öllum stundum sem hann getur þrátt fyrir að hún geti ekkert tjáð sig. Þetta er sönn ÁST. En ástin er svona eins og vindurinn, þú sérð hann ekki en þú veist að hann er þarna.“
Logi lýsir föður sínum sem „gæðamanni“ sem ávallt sé til staðar og setji fjölskylduna í fyrsta sæti. Af honum hefur Logi lært ótal gildi sem hann hefur tekið með sér út í lífið. Geir var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í handknattleik og á glæstan feril að baki.
„Pabbi kenndi mér helling í handboltanum en hann hefur samt aldrei kastað til mín bolta. Hann er eftirminnilegur karakter og hann hefur búið til setningar sem lifa góðu lífi enn í dag og ein sú frægasta er ,,Það er stutt í kúkinn“ sem hann notaði óspart á þjálfaraferli sínum og lifir hún góðu lífi í handboltaheiminum í dag. Hann sagði við mig til að mynda setningu áður en ég hélt út í atvinnumennskuna 2004. “Það sem fer upp kemur aftur niður Logi. Vertu góður við fólkið á leiðinni upp á toppinn því þú hittir það aftur á leiðinni niður”. Þegar ég svo hugsa þetta þá tók ég mark á þessu, hann hvatti mig þegar ég átti nóg af peningum til að styrkja langveika, bjóða þeim í bíó, styrkja góð málefni. Hvetja aðra til afreka og ekki öfundast heldur samgleðjast og fleira sem göfgar mann.“
Logi bendir jafnframt á mikilvægi þess að hrósa fólkinu í kringum sig og tjá því væntumþykju sína. Alltof oft séu fallegu orðin einungis að finna í minningargreinum um viðkomandi.
„Það sem ég á við er að hrósa fólki og segja við það hversu vænt ykkur þykir um það þegar það er lifandi og jafnvel deila og minnast góðra minninga og hlægja saman áður en það verður of seint! Það er enginn eilífur. Það er alltof oft sem við gleymum okkur í amstri dagsins í dag og gleymum líðandi stundar,“ segir hann og kveðst sjálfur hafa tekið upp á þeim sið fyrir dálitlu síðan.
„Ég ólst ekki upp við það að það væri alltaf verið að segja við mig „ég elska þig“ eða mikið um faðmlög og snertingu. Fyrir sirka tveimur til þremur árum síðan ákvað ég að byrja að faðma föður minn og kyssa hann á kinnina. Hann herptist allur saman fyrst en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag hitti ég hann varla nema faðma hann að mér,“ ritar hann jafnframt og bendir á lífið sé núna. Þá deilir hann jafnframt hjartnæmri sögu feðga.
„Verjum tíma með þeim sem skipta okkur mestu máli. Ef við deyjum á morgun myndi fyrirtækið sem við vinnum hjá ráða einhvern annan í okkar stað. Enginn er ómissandi á vinnustaðnum. En missirinn fyrir ástvini okkar yrði óbætanlegur og myndi fylgja þeim alla ævi. Staðreyndin er að við erum alltof oft að forgangsraða vitlaust.“