fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

„Fyllerí, kelerí, slagsmál og rigning“

Minningarbrot frá útihátíðum fyrri ára

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 30. júlí 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það fylgir kúltúrnum á Íslandi að fólk þarf að láta eins og skepnur við og við til þess að fá útrás.“ – Svo mælti læknir í samtali við DV sumarið 2001 og átti þar við útihátíðirnar, „Jörfagleðir samtímans“, sem einkenndust af „fylleríi, keleríi, slagsmálum, rigningu, ástarsorgum og lerkuðu fólki á líkama og sál“. Hér verða rifjuð upp minningarbrot frá útihátíðum fyrri ára.

Húsafellsskógur

Útihátíðir eiga sér langa sögu hérlendis. Lengi var hvítasunnuhelgin vinsælasta skemmtanahelgi ungs fólks, en á sjöunda áratugnum færðist í vöxt að efna til hátíða um verslunarmannahelgina. Ein frægasta hátíð þess tíma var haldin mörg ár í röð í Húsafellsskógi. Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður með meiru, sagði þær hátíðir hafa verið „eins konar töðugjöld ungs fólks sem var í sveit í Borgarfirði“. Honum var sjálfum minnisstætt þegar Hljómar léku og sungu á þeirri hátíð og Rúnar Júlíusson lék listir sínar á – og ofan á – sviðinu með ögrandi hætti, ber að ofan.

Pétur heitinn Kristjánsson tónlistarmaður spilaði í tvígang á Sumarhátíðinni í Húsafelli um verslunarmannahelgina, árið 1969 með Pops og tíu árum síðar með Náttúru. Hann sagði þessar hátíðir hafa verið hápunkt spilamennskunnar á þeim árum. Honum voru einnig mjög minnisstæðar hátíðir sem skátahreyfingin hélt á Úlfljótsvatni um verslunarmannahelgina og voru kenndar við Rauðhettu: „Ég spilaði með Paradís árið 1976 og Póker árið eftir á Rauðhettumótinu. Það var mjög fínt á þeirri hátíð þar sem skátarnir héldu öllu innan velsæmismarka.“

„Almennilegt þjóðhátíðarfólk“

Langlífust allra hátíða um verslunarmannahelgina er þjóðhátíð Vestmannaeyinga, sem haldin hefur verið í Herjólfsdal frá árinu 1874. Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður Sunnlendinga, er fyrir löngu orðinn „persónugervingur“ hátíðarinnar. Hann segir síðustu hátíð alltaf vera þá bestu. Eitt sinn hefðu ungmenni frá Patreksfirði hringt til Eyja á sunnudeginum um verslunarmannahelgina og spurt hvort brekkusöngurinn væri ekki örugglega á dagskrá um kvöldið. Því var svarað játandi. Krakkarnir brugðu sér því með einkaflugvél til Eyja – gagngert til að syngja í brekkunni. Flugvélin beið á meðan úti á velli. Árni segir að þetta megi kalla „almennilegt þjóðhátíðarfólk“.

Hemmi Gunn með sólsting

Stór hluti þjóðarinnar á minningar frá þjóðhátíð í Eyjum. Hermann Gunnarsson heitinn lýsti eitt sinn í viðtali þjóðhátíðinni 1964, en hann var þá 16 ára. Þeir voru þá þrír félagar úr þriðja flokki Vals sem höfðu það hlutverk að vera fararstjórar annars flokks kvenna í handbolta, en liðið átti að leika í Eyjum á laugardeginum. Hermann sagði að slaknað hefði á „fararstjórninni þegar leið á helgina og því var dansað og sungið fram eftir öllu“.

Eftir að þeir félagar höfðu skilað handboltastúlkunum í gagnfræðaskólann aðfaranótt sunnudagsins ákváðu þeir að halda aftur inn í dal. Gleðin var í algleymi og sólin í þann mund að koma upp, en veðurblíðan var einstök þessa helgi. Gefum Hermanni orðið: „Við ákváðum því að leggja okkur aðeins uppi í hlíðunum, berir að ofan. Fljótlega vaknaði félagi minn og fór að taka saman dótið sitt meðan ég svaf. Það fór ekki betur en svo að hann gleymdi mér sofandi uppi í hlíðinni. Loksins vaknaði ég klukkan fjögur um daginn í steikjandi sólskini en hafði sem betur fer bylt mér í svefninum. Annars hefði ég trúlega drepist úr sólsting. Ég ráfaði niður hlíðarnar og skellti í mig 10 eða 15 pepsíflöskum og fór svo niður í gagnfræðaskóla nær dauða en lífi.“ Þegar þangað var komið hefðu handboltastúlkurnar borið á sig smyrsl og krem, enda var hann skaðbrunninn. Hvað sem leið brunanum hefði hann skemmt sér konunglega á ballinu um kvöldið. Þetta hefði verið „frábær lífsreynsla“.

Rok og rigning í Viðey

Lögreglan þurfti stundum að hafa afskipti af gestum.
Verslunarmannahelgi í Eyjum Lögreglan þurfti stundum að hafa afskipti af gestum.

Árið 1984 var hart barist um hylli djammþyrstrar æsku fyrir verslunarmannahelgina, en efnt var til útihátíða í Vestmannaeyjum, Atlavík – og Viðey. Búist var við þúsundum gesta á Viðeyjarhátíð en þær vonir urðu að engu að morgni föstudagsins þegar brast á með roki og rigningu.

Tónlistarmaðurinn Doktor Gunni rifjaði upp þessa hátíð löngu síðar og sagði hana hafa verið „algjört flopp og ég held að það hafi fimm manns mætt á staðinn, en við í hljómsveitinni Svart/hvítur draumur létum það ekki á okkur fá og spiluðum fyrir fólkið sem mætt var“, segir Doktor Gunni.

Magnús Kjartansson, einn aðstandenda hátíðarinnar, segir að hátíðin hafi beinlínis „fokið út á Viðeyjarsund“, en aðeins um 500 manns mættu á svæðið. Hann sagði staðarvalið líka umdeilanlegt: „Ég gæti trúað því að krökkum þyki heppilegra að fara eitthvað út fyrir bæinn, en vera endilega þar sem mamma og pabbi gætu allt í einu dúkkað upp á tjaldskörinni, boðið góðan daginn og verið komin í heimsókn.“

Brunnið tjald í eftirdragi

Hvað sem leið óveðri og fámenni í Viðey var heldur betur stuð í Atlavík þessa verslunarmannahelgina. Gestir voru alls um tíu þúsund talsins. Stuðmenn sungu og léku, auk Bítilsins Ringos Starr. Bítillinn átt að vera tromp sem gæti slegið Viðeyjarhátíðinni við. Þetta atvikaðist þannig að tveir Stuðmanna, þau Ragnhildur Gísladóttir og Tómas Tómasson, voru við upptökur í hljóðveri Ringos á Englandi og buðu þeim hjónum að koma á útihátíðina í Atlavík. Í kjölfarið hafði Jakob Frímann samband við umboðsskrifstofu Ringos. Þar var hann staddur fyrir tilviljun og erindið borið undir hann. Hann var heldur betur til í tuskið og kona hans, Barbara Bach, sömuleiðis.

Á Íslandi gættu svonefndir Bítlagæslumenn þeirra hjóna. Þeir sáu meðal annars um að gera vel við þau í mat og drykk. Frægt var þegar Ringo óskaði eftir koníaki og fundið var til dýrasta koníak sem fyrirfannst í Austurlandskjördæmi. Þessu blandaði Bítillinn síðan í kók. Þau hjónin heilluðu gesti með alþýðlegu fasi og íklæddur lopapeysu sté Ringo á svið með Stuðmönnum. Hann rann svo vel inn í hópinn að einn heimamanna þóttist þar kenna gamla smíðakennarann sinn úr Eiðaskóla.

Doktor Gunni hafði lokið spilamennsku í rokinu í Viðey á mánudeginum og brunaði austur í Atlavík til að berja goðið augum. Grípum niður í frásögn hans: „Það var reyndar allt búið þegar ég mætti um hádegi á mánudegi þannig að þetta var eins og að koma til Íraks. Ég man sérstaklega eftir manni sem dró á eftir sér brunnið tjald og sagði í sífellu: „Komdu hvutti, komdu hvutti.“ Hann hefur greinilega skemmt sér vel.“

Sjö gestir í Þjórsárdal

Héraðssambandið Skarphéðinn efndi nokkrum sinnum til útihátíða í Þjórsárdal um verslunarmannahelgina á níunda áratugnum. Þessi hátíð nefndist Gaukurinn og tókst framan af bærilega og var aðsókn góð. Allt þar til hátíðin brotlenti.

Árið 1987 var von á nokkur þúsund gestum á svæðið. Þeir urðu ekki nema sjö. Þannig getur farið fyrir vinsælum útihátíðum, rétt eins og vinsælum skemmtistöðum, skyndilega er allur ljómi og eftirvænting fokin út í veður og vind. Hátíðin var vitaskuld blásin af þegar á föstudagskvöldinu. Fjárhagur Skarphéðins var í rúst eftir mislukkaðan Gaukinn, en úr rættist fáeinum vikum síðar, þegar héraðssambandið efndi til stórtónleika í Kerinu í Grímsnesi.

Ólæti aðkomumanna

Sjö verslunarmannahelgar í röð var haldin hátíðin Halló Akureyri, hin fyrsta árið 1994. Flestir urðu gestirnir um 15 þúsund árið 1999. Heimamenn voru afar gagnrýnir á mikinn drykkjuskap og ólæti aðkomumanna og svo fór að bæjaryfirvöld gáfu ekki frekari leyfi til svo umfangsmikils skemmtanahalds innan bæjarmarkanna. Aðstandendur hátíðarinnar voru samt þeirrar skoðunar að heppilegra væri að halda stórar útihátíðir innan þéttbýliskjarna þar sem gott aðgengi væri að allri þjónustu. Slíkar hátíðir hafa og líka færst í aukana á síðustu árum. Og ef að líkum lætum verður ekkert lát á fylleríi, keleríi, slagsmálum, rigningu og ástarsorgum nú um verslunarmannahelgina líkt og verið hefur um áratugaskeið.

Heimildir: Viðtöl DV og fréttir frá ýmsum tímum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

„Ég hefði getað misst allt sem ég átti og hún bjargaði mér þegar hún kom í heiminn“

„Ég hefði getað misst allt sem ég átti og hún bjargaði mér þegar hún kom í heiminn“
Fókus
Í gær

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma