Leikkonan Denise Richards hefur fengið nálgunarbann gegn eiginmanni sínum,Aaron Phypers, eftir að hafa sakað hann um ofbeldi í hjónabandinu.
Hjónin standa í skilnaði eftir að Phypers lagði fram beiðni um skilnað mánudaginn 7. júlí fyrir dómi í Los Angeles.
Í dómsskjölum sem Richards lagði fram á miðvikudag lýsir hún nokkrum meintum ofbeldisfullum átökum sem hún hefur átt við Phypers, þar á meðal að hann hafi hótað að drepa hana og sjálfan sig ef hún kærði hann til lögreglunnar.
„Í gegnum allt samband okkar kyrkti Aaron mig oft harkalega, kreisti höfuðið á mér harkalega með báðum höndum, kreisti handleggina á mér fast, lamdi mig harkalega í andlitið og höfuðið og lamdi höfðinu á mér harkalega í handklæðahengið á baðherberginu,“ skrifar Richards í skjölunum.
Richards sakar Phypers um að hafa veitt henni augnáverka þegar hann lagði hendur á hana árið 2022. Þau hafi þá verið stödd á vinnustað hans í Malibu, og hann hafi fengið ofsóknaræði yfir því að plönturnar sem hann keypti innihéldu hlerunartæki. Richards fullyrðir síðan að Phypers hafi kallað hana helvítis tík og slegið hana í augað með lófanum.
Í öðru atviki er Phypers sagður hafa orðið ofbeldisfullur eftir að Richards gaf í skyn að hann færi ekki með henni í vinnuferð.
„Aaron greip í hnakkann á mér, lamdi mig í jörðina og öskraði: „Þú ert ekki að aflýsa fluginu mínu, ég fer með þér og ég treysti þér ekki,“ fullyrðir hún í skjölunum.
Richards birti einnig myndir af handleggjum sínum með marblettum á, áverka sem hún segir Phypers hafa veitt sér.
Samkvæmt vefmiðlinum TMZ hefur Phypers verið gert að halda sig í 100 metra fjarlægð frá Richards og heimili hennar og bifreið.
Næsta málflutningur vegna nálgunarbanns er áætlaður 8. ágúst.
Hjónin giftu sig í september árið 2018. Í skilnaðarbeiðni sinni dagsettri 4. júlí tilgreinir Phypers óleysanlegan ágreining sem ástæðu fyrir skilnaðinum. Hann fór einnig fram á framfærslu frá Richards.